Sprengisandur, Mývatn & Askja

„Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn…“, segir í ljóðinu Á Sprengisandi eftir Grím Thomsen en ljóðið samdi hann sumarið 1861 eftir ferð sem hann fór ríðandi um Sprengisand. Fetum að einhverju leyti í fótspor hans í spennandi ferð okkar um hálendið, Vatnajökulsþjóðgarð og náttúruundur og perlur Norðurlands. Hefjum ferðina að morgni dags í Reykjavík og ökum beina leið austur fyrir fjall og úr Þjórsárdal inn á Sprengisand. Ríki Heklu tekur á móti okkur í allri sinni dýrð og ekin verður Sprengisandsleið í norðurátt, um gróðursnauðu hásléttuna á miðhálendi Íslands, í faðmi sanda og jökla. Komum inn í Nýjadal þar sem margir ferðalangar koma við á leið sinni um hálendið, skoðum hinn stórfenglega Aldeyjarfoss þar sem við fylgjumst með hvar Skjálfandafljót hendir sér niður af klettabrún ofan í hyldjúpa laug, umkringt svörtu stuðlabergi. Ökum um Bárðardal, lengsta byggða dal landsins en hann teygir sig inn að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns. Höldum áfram að hinu ægifagra Mývatni, fjórða stærsta stöðuvatni landsins. Fræðumst um svæðið, skoðum Skútustaðagíga og 2300 ára gamlar hraunmyndanir í Dimmuborgum. Förum að háhitasvæðinu við Námafjall og að sprengigígnum Víti sem myndaðist við upphaf Mývatnselda fyrir rétt tæpum 300 árum. Einn af hápunktum ferðarinnar er hálendisævintýri í Vatnajökulsþjóðgarð. Förum inn í Herðubreiðarlindir, íverustað Fjalla-Eyvindar og Höllu, og ber drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, fyrir augu allan tímann. Gengið verður að Öskjuvatni og Víti, gígnum sem er frægur baðstaður hjá ferðamönnum. Einnig verður farið inn í Jökulsárgljúfur sem tilheyra einnig Vatnajökulsþjóðgarði. Þar er aflmesti foss landsins, Dettifoss, sem og eitt mesta náttúruundur Íslands og hin skjólsæla gróðurvin, Ásbyrgi. Ökum um Tjörnes sem er hvað þekktast fyrir Tjörneslögin en elstu setlögin eru um 4 milljón ára gömul! Skoðum kirkjuna í hvalaskoðunarbænum Húsavík við Skjálfanda sem nú er orðinn heimsfrægur úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest. Síðasti áfangastaður ferðarinnar er höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, áður en ekið verður til baka til Reykjavíkur.  

Verð á mann 149.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 22.900 kr.


Innifalið

 • 5 daga ferð.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í þrjár nætur á Hótel Laxá við Mývatn. 
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í eina nótt á Hótel Natur í Eyjafirði. 
 • Fjórir morgunverðir.
 • Hádegisverðarnesti þann 15. júlí í ferðinni yfir Sprengisand. 
 • Hádegisverðarnesti þann 17. júlí í ferðinni í Herðubreiðarlindir og Öskju.
 • Þrír þriggja rétta kvöldverðir á Hótel Laxá. 
 • Eitt kvöldverðarhlaðborð á Hótel Natur. 
 • Allar skoðunarferðir með sérútbúinni hálendisrútu samkvæmt ferðalýsingu. 
 • Aðstöðugjald í Nýjadal, Herðubreiðarlindum og Dreka.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið/valfrjálst

 • Þrír hádegisverðir, við Mývatn, á Húsavík og á Akureyri. 
 • Gott er að vera með smá auka nasl og drykki í rútunni. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

15. júlí | Reykjavík – Sprengisandur – Aldeyjarfoss – Mývatn

Brottför frá Reykjavík kl. 9:00 og ekið sem leið liggur upp Skeið, um Þjórsárdal og hjá Búrfelli upp á hálendi. Hér er ekið um ríki Heklu og farið yfir sögu drottningar íslenskra eldfjalla, sem sjaldan sýnir á sér toppinn. Þetta 1.492 m háa eldfjall hefur síðustu öldina látið ljós sitt skína í meira mæli en tímabilin á undan, en nú þykir mörgum biðin eftir eldgosi orðin í það lengsta. Fyrsta stopp dagsins er í Hrauneyjum, gististað og þjónustumiðstöð. Hér er tilvalið að fá sér kaffibolla áður en hin eiginlega hálendisferð hefst. Sprengisandur er svo sannarlega miðhálendi Íslands, svæði þekkt fyrir svarta gróðurlitla sanda og tignarlega sýn á jöklana sem blasa við þegar vel viðrar. Svæðið er einnig þekkt úr söngtextum og aldrei að vita nema lögin Sprengisandur og Yfir kaldan eyðisand hljómi í rútunni. Á miðri leið er Nýidalur, sem einnig ber heitið Jökuldalur, þar sem Ferðafélag Íslands byggði skála árið 1967 og margir ferðalangar koma við, hvort sem er í stuttan tíma til að gera hlé á akstri yfir hálendið eða til að njóta útivistar á svæðinu. Líklegt er að Nýidalur hafi fundist síðastur allra öræfadala, sem skýrir nafnið, og dalurinn sjálfur talinn myndaður eftir framskrið jökuls. Í fjarska má einnig sjá glitta í Vonarskarð þar sem vatnaskil milli Norður- og Suðurlands eru, en einnig í jarðhitasvæði. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að telja örnefnið Vonarskarð eitt fallegasta örnefni landsins en talið er að um þennan dal milli Tungnafellsjökuls og Bárðarbungu hafi bændur riðið á leið sinni milli landshluta fyrr á tímum. Hér er við hæfi að nefna Bárðarbungu, því leið okkar liggur einmitt í áttina að Bárðardal sem er lengsti byggði dalur á Íslandi. Rétt áður en við lækkum okkur niður í dalinn verður stoppað við hinn tignarlega Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Hvítfyssandi 20 m hár fossinn er umkringdur svörtu stuðlabergi, svo andstæðurnar eru sérlega skemmtilegar. Eftir langan dag yfir Sprengisand er nú ekið um Bárðardal niður á þjóðveg og sem leið liggur í Mývatnssveit þar sem gist verður næstu þrjár nætur.

16. júlí | Náttúruperlur Mývatns

Það er ekki ólíklegt að við vöknum við fuglasöng á Hótel Laxá í Mývatnssveit, enda trekkir svæðið ekki eingöngu að sér þá sem hafa áhuga á stórfenglegri náttúrunni, heldur einnig fuglaskoðunarfólk. Í raun þarf ekki að hafa mikinn áhuga á fuglum til að heillast, því á sumrin finnast hvergi fleiri andategundir á jörðinni. Ungviðið er einnig skriðið úr eggjum og því líf og fjör hvarvetna sem litið er. Fálkinn bíður þó einnig færis og leggur til atlögu hvenær sem færi gefst. Mývatn er fjórða stærsta stöðuvatn landsins, grunnt, vogskorið, ríkt af eyjum og hólmum, en ekki síst þekkt fyrir mýfluguna sem nafn vatnsins er dregið af. Hér er því gott að hafa flugnanetið handhægt, fyrir ævintýri dagsins. Eftir morgunverð höldum við í skoðunarferð um svæðið, en í dag ætlum við að njóta þess að dvelja við náttúruperlur Mývatns. Það er jú aldrei hægt að skoða allt við Mývatn á einum degi, við veljum því það markverðasta og reynum einnig að haga deginum eftir veðri. Skútustaðagígar voru friðlýstir árið 1973 þar sem um svokallaða gervigíga er að ræða, jarðmyndanir sem eru fágætar á heimsvísu. Eftir stopp við Skútustaðagíga verður haldið í Dimmuborgir sem jafnframt er friðlýst náttúruvætti. Jarðmyndanirnar hér eru einstakar, en Dimmuborgir mynduðust í eldsumbrotum fyrir um 2300 árum. Um miðja síðustu öld var svæðið nánast horfið undir sand eftir gjóskugos í Vatnajökli en með markvissum aðgerðum til að stöðva sandfok og efla landgræðslu eru Dimmuborgir nú að miklu leyti grónar og birki hefur breiðst út. Við fáum vonandi að njóta Dimmuborga í allri sinni dýrð í dásamlegu veðri. Hægt verður að fara í gönguferð um svæðið eða fá sér kaffibolla á kaffihúsinu. Eftir Dimmuborgir verður snæddur hádegisverður áður en haldið verður að Námaskarði og að háhitasvæðinu við Námafjall. Leirhverir og gufu- og vatnshverir eru hér margir og lyktin eftir því, enda var hér mikið brennisteinsnám á öldum áður. Síðasti áfangastaður dagsins er Víti, gríðarstór sprengigígur sem myndaðist við upphaf Mývatnselda fyrir rétt tæpum 300 árum. 

17. júlí | Dagsferð í Herðubreiðarlindir & Öskju

Enn eitt hálendisævintýrið er á dagskrá í dag. Eftir góðan morgunverð árla dags er haldið inn í Vatnajökulsþjóðgarð og Herðubreiðarlindir, gróðurvin og lindasvæði í Ódáðahrauni. Drottning íslenskra fjalla, Herðubreið, blasir við alla leið inn að Herðubreiðarlindum til suðurs og einnig sést hún frá Herðubreiðarlindum þegar horft er til norðurs. Ekki er hægt að koma hingað án þess að rifja upp sögu Fjalla-Eyvindar og Höllu, en talið er að Fjalla-Eyvindur hafi hafst við í þessari gróðurvin um tíma og er Eyvindarkofi um 100 m frá skála Ferðafélags Akureyrar. Áfram er haldið inn í eitt merkasta friðland Íslands, Öskju. Gífurlegt eldgos hófst í þessari megineldstöð norðan Vatnajökuls þann 29. mars árið 1875. Öskjugosið hafði gríðarleg áhrif á öllu Austurlandi og er talið að það hafi átt stóran þátt í því að stór hópur fólks tók sig upp og flutti vestur um haf. Eftir að gosinu lauk varð mikið landsig í Öskju og myndaðist þá Öskjuvatn. Frá bílastæðinu við Öskju er gengið inn að Öskjuvatni og má gera ráð fyrir að gangan að vatninu taki rúman hálftíma aðra leiðina. Stoppum hér í um 2 klst., enda ógleymanleg upplifun að koma á svæðið. Víti er stærsti sprengigígurinn í Öskju og þar er vinsælt að baða sig. Þegar gengið er til baka að rútunni er ekki erfitt að skilja hvers vegna bandarískir geimfarar töldu henta vel að æfa fyrir fyrstu tunglferðina hér. Næsti viðkomustaður er Drekagil þar sem Ferðafélag Akureyrar hefur komið upp prýðilegri aðstöðu. Eftir stutt stopp þar er haldið sem leið liggur í Mývatnssveit þar sem síðbúinn kvöldverður bíður okkar á hótelinu.

Opna allt

18. júlí | Dettifoss – Ásbyrgi – Tjörnes – Húsavík – Akureyri

Eftir morgunverð kveðjum við Mývatnssveit og höldum að nýju í Vatnajökulsþjóðgarð, að þessu sinni í Jökulsárgljúfur. Gljúfrin voru friðlýst árið 1973 og fyrsti viðkomustaður dagsins er aflmesti foss landsins, hinn 45 m hái og rúmlega 100 m breiði Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum. Kraftur náttúrunnar er augljós þegar að við heyrum í vatnsniðnum og sjáum hið mikilfenglega gljúfur sem vatnið hefur sorfið í landslagið í hamfaraflóðum. Eftir gott stopp við Dettifoss er ekið norður með gljúfrinu að einu mesta náttúruundri Íslands, Ásbyrgi. Skyldi það hafa verið Sleipnir, hestur Óðins, sem steig hér niður fæti og skyldi eftir sig þetta myndarlega hóffar eða á hin kraftmikla íslenska náttúra heiðurinn að sköpunarverkinu? Hér mynda næstum 100 m háir klettaveggirnir gott skjól fyrir gróðurvin og fuglasöngurinn ómar um svæðið. Áfram heldur ferðin út á Tjörnes sem er hvað þekktast fyrir jarðlög sem nefnd hafa verið Tjörneslög. Hér voru einnig unnin kol um tíma sem virkar fjarstæðukennt á nútímafólk þegar ekið er um svæðið. Áður en við er litið blasir Skjálfandaflói við, flóinn sem er hvað frægastur fyrir hvalaskoðun. Skjálfandaflói og bærinn Húsavík fengu nýverið einnig óvænta heimsathygli þegar örnefnin komu fyrir í erlendum söngtexta í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga og var lagið í framhaldi tilnefnt til Óskarsverðlauna. Eflaust mun lagið „My Home Town“ með sænsku söngkonunni Molly Sandén hljóma á einhverjum tímapunkti þegar ekið verður um svæðið! En það er ekki hægt að koma til Húsavíkur án þess að minnast á sögu staðarins sem getið er í Landnámu. Húsvíkingar eru stoltir af því að Náttfari, maður sem kom með Garðari Svavarssyni landnámsmanni, hafi jafnvel numið hér land, áður en Ingólfur Arnarson lét sjá sig. Einhverjir vilja því meina að elsta byggð á landinu hafi verið hér á Húsavík. Húsavík er þekktasti hvalaskoðunarbær landsins og nú nýverið bættust glæsileg sjóböð við aðdráttarafl bæjarins. Eftir innlit í kirkjuna á Húsavík og rölt um bryggjuna er haldið sem leið liggur í Eyjafjörðinn þar sem gist verður í eina nótt.

19. júlí | Akureyri, höfuðstaður Norðurlands & heimferð

Eftir morgunverð er komið að höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Höfuðprýði bæjarins eru gömlu húsin sem flest voru byggð fyrir meira en hundrað árum síðan, en í dag má jafnvel deila um það hvort það er Akureyrarkirkja eða tónlistarhúsið Hof sem er tákn bæjarins. Það er aftur á móti óumdeilt að hér er fallegasti skrúðgarður landsins, Lystigarðurinn á Akureyri, sem stofnaður var af danskri konu árið 1912. Fyrsta stoppið verður því við Lystigarðinn, röltum þar um, áfram niður að kirkju og niður allar tröppurnar í miðbæinn. Hér gefst frjáls tími til að spóka sig og snæða hádegissnarl á eigin vegum áður en lagt er í hann að nýju, því nú er komið að heimferð. Ekið er um Öxnadal, „…þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla…“, yfir Öxnadalsheiði og í Skagafjörðinn sem er hvað þekktastur fyrir íslenska hestinn, Drangey og karlakóra. Áfram er haldið á Blönduós og um Vatnsdalshóla sem eru taldir hafa verið meðal þriggja óteljandi náttúrufyrirbrigða á Íslandi. Stoppum stutt á nýju bílastæði við Þrístapa sem liggja vestast í Vatnsdalshólum. Hér teygjum við úr okkur og minnumst þess skelfilega atburðar, síðustu aftökunnar á Íslandi, sem fór hér fram margt fyrir löngu. Leiðin liggur áfram um Húnavatnssýslur í Hrútafjörð og hér borgar sig að vera vakandi fyrir því hvort mögulega sjáist til hvala á firðinum. Ekki er ólíklegt að síðasta stopp dagsins verði í Staðarskála, áður en haldið er yfir Holtavörðuheiði og til Reykjavíkur.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Hótel

Hótel Laxá

Þetta nýlega hótel er staðsett á hljóðlátum stað í 2 km fjarlægð frá Mývatni. Herbergin eru innréttuð á nútímalegan hátt, öll með sér baðherbergi, flatskjá, hárblásara, hraðsuðukatli og setusvæði. Veitingastaðurinn Eldey býður upp á girnilegan mat úr héraðinu og það er dásamlegt að njóta matarins og fallega útsýnisins yfir Mývatnssveitina. 

Skoða Hótel Laxá nánar.

Hótel Natur

Hótel Natur er fjölskyldurekið sveitahótel á friðsælum stað í fögru umhverfi við austurströnd Eyjafjarðar, í um 15 km fjarlægð frá Akureyri. Hótelið byggir á umhverfisvænni samfélagsstefnu og hefur hlöðu, fjósi og vélageymslu verið breytt í huggulegt 36 herbergja hótel þar sem gestir geta notið kyrrðar með útsýni til allra átta.
Öll herbergin eru með sér baðherbergi, sjónvarpi og hárblásara. Við aðalinngang hótelsins hefur gömlum 12 metra háum súrheysturni verið breytt í útsýnis- og sýningarturn sem vert er að skoða. Gestir hafa aðgang að heitum potti.

Skoða Hótel Natur nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00