Veiðivötn, Landmannalaugar & Þórsmörk

Jöklar, eldfjöll, hraunbreiður, ár, fossar, kjarrlendi, auðn. Hálendi Íslands er ríkt af fjölbreyttri og stórbrotinni náttúru og er eitt stærsta óbyggða svæði í Evrópu. Miðhálendið er ekki í alfaraleið, enda í yfir 4-500 m hæð yfir sjávarmáli og hafa bæði vatnsmiklar ár og fjallvegir komið í veg fyrir að margir hafi séð þessar náttúruperlur landsins með eigin augum. Í þessari ferð ætlum við að heimsækja nokkra af fallegustu stöðunum á miðhálendinu undir leiðsögn Þórhalls Vilhjálmssonar. Farið verður frá Reykjavík að morgni dags og haldið austur fyrir fjall. Ökum sem leið liggur inn í Þjórsárdal og fræðumst um svæðið áður en það fór undir hraun eftir eldgos í Heklu á fyrri hluta 12. aldar. Skoðum Háafoss og förum inn að vatnaklasanum Veiðivötnum. Ökum hina svokölluðu Dómadalsleið í ríki Heklu, fylgjum stæðilegum vörðum og hinn tignarlegi Löðmundur ber fyrir augu. Litadýrð og fegurð Landmannalauga tekur á móti okkur, en að koma þangað er einstök upplifun! Okkur gefst tækifæri til að ganga að Brennisteinsöldu og áum þar í góða stund. Þá verður ekin Fjallabaksleið nyrðri, leið sem af mörgum er talin fallegasta hálendisleið landsins. Njótum litadýrðarinnar og þessa fjölbreytta landslags og komum að gossprungunni Eldgjá sem er ótrúleg sjón að sjá! Ökum inn í Þórsmörk, þá einstöku náttúruparadís sem er þekkt fyrir skóglendið, jöklana þrjá sem umlykja hana og auðvitað beljandi jökulárnar í kring. Á leiðinni inn í Mörkina göngum við inn Stakkholtsgjá, magnað náttúrufyrirbrigði sem er 2 km að lengd og 100 m að dýpt. Stoppað verður í Básum í Goðalandi, einkar fallegum og skjólsælum stað, sem hefur í gegnum tíðina verið vinsæll áfangastaður hjá ferðamönnum. Eftir þrjá stórkostlega hálendisdaga höldum við heim á leið. Náttúruöflin á Íslandi sýna svo sannarlega sinn innri mann í þessari frábæru ferð um nokkrar af perlum hálendis Íslands. 

Verð á mann 89.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 9.900 kr.


Innifalið

 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í eina nótt í hálendismiðstöðinni að Hrauneyjum. 
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í eina nótt á Hótel Dyrhólaey. 
 • Tveir morgunverðir. 
 • Hádegisverðarnesti 18. júní (Veiðivötn).
 • Þriggja rétta kvöldverður 18. júní á Hrauneyjum. 
 • Hádegisverðarnesti 19. júní (Landmannalaugar).
 • Þriggja rétta kvöldverður 19. júní á Hótel Dyrhólaey. 
 • Hádegisverðarnesti 20. júní (Þórsmörk).
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Aðstöðugjald í Veiðivötnum, Landmannalaugum og Þórsmörk.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið/valfrjálst

 • Gott er að vera með smá auka nasl og drykki í rútunni. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

18. júní | Reykjavík – Þjórsárdalur – Háifoss – Veiðivötn – Hrauneyjar

Brottför frá Reykjavík kl. 9:00 og ekið sem leið liggur yfir Hellisheiði, í gegnum Selfoss og áfram austur þar til beygt er af þjóðveginum upp Skeið. Ekið í Árnes þar sem áð er stutta stund áður en haldið er áfram inn í Þjórsárdal. Rétt þegar fer að sjá inn í dalinn rifjast upp sagan um Gauk á Stöng, en bærinn Stöng var staðsettur í hinum græna og grösuga Þjórsárdal sem drottning íslenskra eldfjalla, Hekla, lagði í eyði árið 1104. Svæðið ber þess í dag lítil merki, þó byggð sé ekki önnur en í tengslum við Búrfellsvirkjun. Þegar ekið er upp úr dalnum við Þjóðveldisbæinn og virkjunina blasir örlagavaldur svæðisins við, Hekla, 1.491 m að hæð. Hér blasa einnig við tvær vindmyllur, enda er hér verið að ferðast um svæði sem töluvert hefur verið nýtt til virkjanaframkvæmda. Leiðin liggur að Háafossi og Granna, en Háifoss, með sínum 122 metrum, telst þriðji hæsti foss landsins. Eftir að hafa dáðst að fossinum, ökum við lengra inn á hálendið og að hinum frægu Veiðivötnum, vatnaklasa á Landmannaafrétti. Um árið 1480 varð mikið eldgos á svæðinu og myndaðist gígaröð alla leið frá Veiðivötnum í Landmannalaugar, svo ferðin liggur nokkuð um svæði gossins. Veiðivötn í núverandi mynd mynduðust í gosinu og eru vötnin alls 50 talsins. Náttúrufegurð svæðisins er mikil, eins og veiðimenn sem hafa sótt svæðið í áratugi þekkja, en einhvern veginn er það oft svo að fólk fer ekki endilega í Veiðivötn nema hafa þangað erindi. Farið verður á útsýnisstaði en einnig að skálum svæðisins þar sem sagt verður frá sögu svæðisins, tilraun til búsetu og hægt verður að rölta að minjum. Hér gæti verið góð hugmynd að vera með flugnanet við höndina. Eftir gott stopp í Veiðivötnum verður ekið að Hrauneyjum þar sem gist verður í eina nótt.

19. júní | Dómadalsleið – Landmannalaugar – Fjallabak nyrðra – Eldgjá - Vík

Við kveðjum Hrauneyjar og ökum stuttan spöl niður Landveg til að komast inn á Landmannaleið sem í daglegu tali er einnig nefnd Dómadalsleið. Hópurinn er hér enn í ríki Heklu og stuttu eftir að komið er inn á Landmannaleið sjást stæðilegar vörður. Þessar vörður eru ekki svokallaðar túristavörður. Vörðurnar náðu milli efstu byggða í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, voru 798 talsins og hægt að kalla þær staðsetningartæki fyrri tíma. Vörðurnar fylgja okkur hluta dagleiðarinnar og þess virði að hafa augun opin fyrir þessum minnismerkjum um fyrri tíma, þegar öryggi á hálendi var af töluvert öðrum toga en í dag. Frá Dómadalsleið sjáum við á vinstri hönd konung Landmannaafréttar, hinn tignarlega Löðmund sem sést víða að á svæðinu. Oft hefur komið sér vel fyrir göngumenn að þekkja Löðmund úr fjarska sem nokkurs konar leiðarvísi í landslagi sem getur orðið æði villigjarnt. Ekið er meðfram Frostastaðavatni og upp Frostastaðaháls sem má segja að sé hliðið að Landmannalaugasvæðinu, þó sjálft friðlandið hefjist mun fyrr. Frostastaðaháls var hér á árum áður einn helsti farartálminn á leiðinni, sem við fáum að kynnast þegar vegurinn yfir hálsinn er ekinn. Á leiðinni niður blasir gígur við okkur og nú erum við einnig farin að sjá hraun sem ber vitni um eldsumbrotin á 15. öld og tengjast sögu Veiðivatna. Litadýrð Landmannalauga umvefur okkur þegar nær dregur. Hér erum við komin á eitt vinsælasta svæði ljósmyndara á Íslandi og skyldi engan undra. Litirnir skipta skapi eftir veðurfari og gufa frá jarðhita liðast upp í loftið. Ævintýri líkast! Hér verður farið í gönguferð eftir gönguleiðinni að Brennisteinsöldu. Þeir sem vilja geta farið einungis hluta leiðarinnar og síðan notið þess að rölta til baka, en einnig er hægt að ganga hringinn ef veður er gott. Í Landmannalaugum snæðum við hádegisverðarnesti sem við höfum meðferðis frá gististaðnum að Hrauneyjum. Eftir gott stopp er haldið áfram eftir Fjallabaksleið nyrðri, leið sem af mörgum er talin fallegasta hálendisleið landsins. Litadýrðin og fjölbreytt landslag fylgir okkur áfram að næsta áfangastað, Eldgjá, sem ber enn og aftur vitni um kraft náttúrunnar. Hin mikla gossprunga er talin hafa myndast í stórgosi rétt fyrir kristnitöku en Fjallabaksleið nyrðri liggur einmitt um gossprunguna þar sem hún er hvað breiðust og tignarlegust. Frá veginum að Gjátindi er sprungan allt að 600 m breið og 150 m að hæð. Hér er sjálfsagt að stoppa og fara í gönguferð að útsýnisstað yfir á Ófærufoss. Margir muna kannski eftir steinboganum, náttúrulegu steinbrúnni, sem gekk yfir neðri fossinn þar til hún féll í vorleysingum árið 1993, en áður fyrr var hægt að ganga yfir hana! Úr Eldgjá liggur leiðin áfram að Hólaskjóli og niður á þjóðveg. Nú verður ekið í vesturátt til Víkur en gististaður dagsins er Hótel Dyrhólaey þar sem snæddur verður kvöldverður.

20. júní | Suðurstöndin – Seljalandsfoss – Stakkholtsgjá – Þórsmörk – Reykjavík

Eftir góðan morgunverð ökum við suðurströndina í vesturátt. Við Seljalandsfoss liggur leiðin að enn einni af náttúrperlum hálendis Íslands, Þórsmörk. Margir taka ástfóstri við Þórsmörk, en árnar hafa löngum verið farartálmi hvað ferðir inn á svæðið varðar. Eldgosið á Fimmvörðuhálsi fyrir rúmum áratug gerði það reyndar að verkum að margir komu jafnvel í Þórsmörk í fyrsta sinn á ævinni. Þessi einstaka útivistarparadís er kannski hvað þekktust fyrir skóglendið sem er rammað inn af þremur jöklum, Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli og Tindafjallajökli. Fyrir þá sem ganga Laugaveginn er Þórsmörk oft endamarkið, á meðan aðrir ganga Fimmvörðuháls í Þórsmörk og njóta þess svo að dvelja á svæðinu áður en haldið er heim á leið. Að tjalda í skjóli trjánna er líka ekki svo algengt á Íslandi, svo skóglendið er klárlega hluti aðdráttaraflsins. Eftir akstur yfir læki og ár á leiðinni inn í Þórsmörk er stoppað við Stakkholtsgjá og farið í gönguferð. Hér komum við í annan heim þar sem náttúruöflin hafa í gegnum aldirnar séð um að smíða stórkostlegt gilið sem er um 2 km að lengd og 100 m að dýpt. Að enginn komist hér yfir nema fuglinn fljúgandi er ekki ofsögum sagt. Hér er hægt að gleyma tímanum, líta beint upp í himininn og horfa á skýjafarið ef veður leyfir. Ökum nú áfram inn í Þórsmörk og dáumst að óviðjafnanlegu útsýninu yfir á Tindfjöll og Tindfjallajökul, með beljandi jökulána Krossá á vinstri hönd. Við ökum inn fyrir Álfakirkju, gegnt Langadal, þar til við komum inn í Bása í Goðalandi. Hér er einstaklega fallegt, þétt- og hávaxið kjarrið, litlir lækir hér og þar sem og grösugir dalir. Sannkölluð útivistarparadís. Básar eru umvafðir fjöllum og má þar nefna Bólfell, Útigönguhöfða og Réttarfell. Tilvalið er að fara í smá gönguferð og sú leið sem ætti að vera við hæfi flestra er hinn svokallaði Básahringur. Gengið er eftir stíg frá Básaskála, í gegnum kjarrið og upp á Réttarfellið þaðan sem er ægifagurt útsýni. Byrjum þó á því að fá okkur hádegishressingu. Á þessum undurfagra stað þar sem jöklarnir í kring skýla svæðinu fyrir veðri og vindum er yfirleitt með eindæmum skjólsælt og oft hlýrra en á öðrum svæðum í kring á sama tíma. Hér væri hægt að eyða drjúgum tíma til að skoða alla þá yndislegu staði sem Þórsmörkin hefur að geyma, en seinni partinn er ekin nokkuð seinfarin leið úr Þórsmörk áleiðis til byggða. Fram hjá Seljalandsfossi liggur leiðin inn á sögusvið Njálu og á meðan ekið er áleiðis að Hvolsvelli er ekki úr vegi að líta yfir Fljótshlíðina. Þar leynist Gunnarshólmi, þaðan sem Gunnar á Hlíðarenda hélt í sína hinstu ferð og fór með hin fleygu orð, „Fögur er hlíðin…“. Horfum til Þríhyrnings og þar sést glögglega hvernig örnefnið er tilkomið. Stutt stopp á Hvolsvelli, áður en haldið er áfram til Reykjavíkur. Eftir þrjá hálendisdaga um nokkrar af náttúruperlum Íslands er komið að leiðarlokum.

Fararstjóri getur breytt dagskrárliðum eftir veðri og aðstæðum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Hótel

Hótel Dyrhólaey

Hótel Dyrhólaey er fjölskyldurekið hótel sem er staðsett um 9 km vestan við Vík. Þar er fallegt útsýni niður grösuga sveit til hafs og upp til fjalla þar sem jökulinn ber við himin. Öll svefnherbergi eru með sérbaðhergi, sjónvarpi, hraðsuðukatli, hárþurrku og síma. Ókeypis þráðlaust netsamband og morgunverður innifalinn.

Skoða hótel nánar.

Hrauneyjar hálendismiðstöð

Hrauneyjar er hálendismiðstöð við Sprengisandsveg, staðsett við jaðar hálendis Íslands. Þægileg gisting, heimaeldaður matur og vingjarnlegt starfsfólk tryggir þér sæluvist í einstakri náttúrufegurð. Herbergin eru með rúmgóðri snyrtingu með sturtuklefa, baðsloppum og inniskóm. Morgunverður innifalinn.

Skoða Hrauneyjar nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00