Ísland á hringvegi - víðerni & fáfarnar slóðir

Hringferð um landið yfir sumartímann hefur lengi verið vinsælt ferðalag meðal landsmanna. Í þessari ferð um landið okkar Ísland verður bæði gengið og ekið, um slóðir sem flestir landsmenn ættu að þekkja, en ekki síður um fáfarnar slóðir. Alla daga verður farið í gönguferðir, mislangar eftir dögum en allt að 8-12 km þegar lengst er. Frá Reykjavík höldum við að Brekkulæk í Miðfirði. Þaðan verður m.a. ekið um Vatnsnesið, farið að drangnum Hvítserk og klettaborgin Borgarvirki skoðuð. Göngum einnig eftir gamalli slóð yfir Hrútafjarðarháls og njótum frábærrar fjallasýnar yfir Tvídægru og Arnarvatnsheiði. Ökum um Öxnadal og áum í lundi Jónasar Hallgrímssonar. Sækjum Mývatnssveit heim og fetum m.a. slóðann upp á sprengigíginn Hverfjall. Hið einstaka náttúrufyrirbrigði Skessugarður á Grjótgarðshálsi verður skoðað og 19. aldar heiðarbýlið Sænautasel á Jökuldalsheiði heimsótt. Einnig munum við eiga viðkomu í herragarðshúsi Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri. Göngum yndislega fallega leið um eina af földu náttúruperlum Íslands, Fossárdal inn af Berufirði, og eins gefst okkur tækifæri til að sigla á milli ísjaka í Jökulsárlóni. Paradísin Skaftafell tekur á móti okkur og við munum ganga að Sjónarnípu þaðan sem er einstakt útsýni yfir Skaftafellsjökul. Dverghamrar, fagurlega formaðir stuðlabergshamrar úr blágrýti, verða á vegi okkar á leiðinni á Kirkjubæjarklaustur, en talið er að þeir séu frá lokum ísaldar. Í hvívetna njótum við náttúrunnar, flóru og fánu landsins, sögunnar og menningarinnar. Við fræðumst um sigra og ósigra, dáumst að búsældarlegum svæðum og njótum töfra hins ósnortna. Íslensk náttúra, útivera þegar sólin er hæst á lofti og slökun í lok hvers dags í sveitum landsins, undir frábærri fararstjórn Sigrúnar Valbergsdóttur. Það gerist varla betra. 

Verð á mann 398.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 38.000 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Gisting í 11 nætur í tveggja manna herbergjum á hótelum og gistihúsum á landsbyggðinni. 
 • Matur eins og tiltekið er í ferðalýsingu (M: morgunnmatur, N: nesti, H: hádegismatur, K: kvöldmatur). 
 • Aðgangur að sundlaugum. 
 • Rútuferðir og fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir/nesti á dögum 4-12.

Nauðsynlegur búnaður

 • Gönguskór (flesta daga erum við eitthvað á göngu).
 • Hlífðarfatnaður.
 • Vatnsflaska eða lítill kaffibrúsi.
 • Dagpoki.
 • Göngustafir.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

8. júní | Reykjavík – Brekkulækur

Brottför frá BSÍ kl. 15:00 og frá Sprengisandi kl. 15:20. Farið verður með lítilli rútu frá Reykjavík að Brekkulæk í Miðfirði. Þar snæðum við kvöldverð og gistum næstu þrjár nætur.

 • Kvöldverður

9. júní | Vatnsneshringur: lllugastaðir - Hvítserkur - Borgarvirki

Eftir morgunverð skoðum við okkur um í næsta nágrenni Brekkulækjar og fræðumst um sögu og menningu staðarins. Eftir léttan hádegisverð á Brekkulæk verður ekið fyrir Vatnsnes og svipast um eftir sel og heitur hver í flæðarmálinu skoðaður. Fræðumst um morðbrennuna á Illugastöðum og þessa merkilegu sögu Agnesar og Friðriks og síðustu aftökunnar á Íslandi. Göngum að drangnum Hvítserk en umhverfis hann er mjög skemmtilegt vistkerfi þar sem kría, æðarfugl, tjaldur, fýll og rita verpa í miklu nábýli. Skoðum einnig Borgarvirki, klettaborgina sem talin er hafa myndast við eldgos á hlýskeiði ísaldar og hafa verið nýtt sem virki á þjóðveldisöld. Komum seinni part dags til baka, snæðum kvöldverð og eigum notalega kvöldstund á Brekkulæk.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

10. júní | Hrútafjarðarháls - Hvammstangi

Í dag verður farið í gönguferð (u.þ.b. 7 km) eftir gamalli slóð yfir Hrútafjarðarháls. Þar ríkir sannkölluð heiðastemning, svanir og himbrimar á vötnum og við njótum frábærrar fjallasýnar yfir Tvídægru og Arnarvatnsheiði. Eftir gönguferðina látum við líða úr okkur í sundlauginni og heitum pottum á Hvammstanga.

 • Morgunverður
 • Nesti
 • Kvöldverður
Opna allt

11. júní | Akureyri – Goðafoss – Jarðböðin - Mývatn

Eftir morgunverð kveðjum við Brekkulæk og ökum norður í Mývatnssveit. Á leiðinni skoðum við fagurt gljúfur á Öxnadalsheiði, njótum náttúrunnar og fáum okkur nesti í Jónasarlundi sem helgaður er minningu Jónasar Hallgrímssonar. Jónas fæddist að Hrauni í Öxnadal árið 1807 en hann samdi einmitt samnefnt ljóð sem flestir ættu að þekkja og byrjar svo: „Þar sem háir hólar, hálfan dalinn fylla…“. Á Akureyri tökum við smá bæjarrölt og skoðum síðan hina einstöku náttúrusmíð Goðafoss sem er einn vatnsmesti foss landsins. Endum daginn á slökun í Jarðböðunum við Mývatn. Kvöldverður og gisting í tvær nætur á hóteli við Mývatn.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

12. júní | Mývatnssveit; Höfði – Hverfjall – Dimmuborgir – Leirhnjúkur

Við eyðum deginum í einstakri náttúrufegurð Mývatnssveitar, innan um fjölbreytt fuglalíf sem einkennir svæðið og fjallahringinn fagran; Vindbelg, Hverfjall, Sellandafjall, Bláfjall og öll hin. Við göngum um fólkvanginn Höfða, klettatanga sem gengur út í Mývatn. Fetum síðan slóðann upp á sprengigíginn Hverfjall sem talinn er vera þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. Við skoðum okkur um á milli mikilfenglegra hraunmyndana í Dimmuborgum og endum á göngu í kringum Leirhnjúk þar sem síðast rann hraun árið 1984 í Kröflueldum.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

13. júní | Námafjall – Dettifoss – Skessugarður - Sænautasel – Fljótsdalur

Eftir morgunverð er haldið áfram í austur. Stoppum við Námafjall og stefnum svo á hinn tilkomumikla og aflmesta foss Íslands, Dettifoss. Þaðan er ekið um Möðrudal að hinu einstaka náttúrufyrirbrigði Skessugarði á Grjótgarðshálsi. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá tveimur tröllskessum sem þrættu um landamerki og reistu þennan mikla grjótgarð. Frá Skessugarði er stutt í 19. aldar heiðarbýlið Sænautasel á Jökuldalsheiði sem var í byggð í eina öld frá árinu 1843. Sagt er að Sænautasel sé fyrirmynd Halldórs Laxness að Sumarhúsum Bjarts og þar er einstaklega gaman að koma. Þar fáum við okkur hressingu í einstakri stemningu fjárhússins. Kvöldverður og gisting í tvær nætur á litlu hóteli í Fljótsdal.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

14. júní | Hengifoss – Skriðuklaustur – Hallormsstaður

Við litumst um í nágrenni Fljótdalsstöðvar og lítum inn í kirkjuna á Valþjófsstað sem var kirkjustaður frá fornu. Síðan reimum við á okkur gönguskóna og fetum stíginn með 200 m hækkun upp að Hengifossi, annars hæsta foss landsins en hann er 128 m hár. Okkar bíður hádegishressing á sögustaðnum Skriðuklaustri í herragarðshúsi rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar, svokölluðu Gunnarshúsi. Eftir heimsókn í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs skreppum við í skógargöngu hjá Hallormsstað. Á leiðinni til baka á hótelið verður farið í sund á Egilsstöðum.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

15. júní | Öxi – Fossárdalur – Djúpivogur

Við höldum áfram hringinn og ökum nú yfir fjallveginn Öxi að elsta sjávarþorpi á Íslandi, Djúpavogi. Á leiðinni þangað stoppum við í Fossárdal sem er inn af Berufirði og förum í drjúga gönguferð eftir þessum fallega dal (8 - 12 km, lítil hækkun). Það er óhætt að segja að Fossárdalur sé falinn fjársjóður á Íslandi. Sund- og pottaferð í sundlaug Djúpavogs er kærkomin slökun eftir gönguna. Það er gaman að segja frá því að Djúpavogshreppur er meðlimur í Cittaslow-hreyfingunni sem við fáum að fræðast betur um. Kvöldverður og gisting á hóteli á Djúpavogi.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

16. júní | Vatnajökull – Jökulsárlón

Á hringveginum njótum við náttúrufegurðar við Álftafjörð, Hamarsfjörð og á leiðinni fyrir Eystra- og Vestra-Horn. Atlantshafið á vinstri hönd, Vatnajökull á þá hægri. Við Jökulsárlón gefst tækifæri á siglingu um lónið þar sem bæði syndir selur og æðafugl en annars er hægt að fara í smá gönguferð í næsta nágrenni lónsins þar sem stórbrotin náttúra á enga sér líka hér á landi. Kvöldverður og gisting í tvær nætur á hóteli í Suðursveit.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

17. júní | Þjóðgarðurinn Skaftafelli – Svartifoss – Sjónarsker – Sel

Náttúruparadísin Skaftafell í Vatnajökulsþjóðgarði er aðaláfangastaður dagsins. Við göngum að Sjónarnípu þaðan sem er einstakt útsýni yfir Skaftafellsjökul. Við höldum áfram að Svartafossi, Sjónarskeri og gamla bænum Seli, sem er hluti af húsasafni Þjóðminjasafnsins. Einnig göngum við að lóninu framan við Skaftafellsjökul. Kvöldverður og gisting í Suðursveit.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

18. júní | Dverghamrar – Seljalandsfoss – Skálholt

Áfram höldum við í vesturátt. Við stoppum m.a. við Dverghamra, fagurlega formaða stuðlabergshamra úr blágrýti, sem eru taldir hafa fengið á sig þessa mynd í lok ísaldar. Ökum að Seljalandsfossi, hvar við sjáum vatnsflauminn hendast 40 metra fram af klettabrúninni. Síðan er haldið inn til landsins og síðustu nóttina gistum við á hótelinu í Skálholti.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

19. júní | Gullni hringurinn

Eftir morgunverð höldum við af stað heim á leið, ökum fram hjá Reykholti, áleiðis að hinum fjölsótta Gullfossi og Geysi, stærsta goshveri heims. Á báðum stöðum fáum við okkur góðan göngutúr. Síðasti viðkomustaður ferðarinnar verður á Þingvöllum sem í sögulegu, jarðfræðilegu og náttúrufræðilegu tilliti er einstakur staður og í hugum Íslendinga helgasti staður landsins. Eftir göngu um Þinghelgina er ekið frá Hakinu til Reykjavíkur og komið þangað um kl. 16.00.

 • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00