Snæfellsnes, Flatey & Dalirnir
25. - 27. júní 2021 (3 dagar)
Sindrandi firðir, áhrifamiklir fjallstindar, þverhníptir hamrar, gylltar strandir og falleg sjávarþorp. Þessar lýsingar eru engar ýkjur, Snæfellsnesið er stórkostlegt! Kynngikraftur Snæfellsjökuls dregur margan ferðamanninn að ár hvert og var jökullinn til að mynda kveikjan að vísindaskáldsögu Jules Verne, Ferðin að miðju jarðar, árið 1846. Förum undir leiðsögn Sigrúnar Valbergsdóttur í þessa frábæru ferð en hún er öllum hnútum kunnug á svæðinu og hafsjór af fróðleik. Við fræðumst um berserki og vatnaskrímsli, fiskbyrgi og verbúðir en síðast en ekki síst fáum við notið þessa fjölbreytta landslags sem Snæfellsnesið hefur upp á að bjóða. Heimsækjum líka Flatey á Breiðafirði sem hefur skemmtilega ásýnd litríkra húsa og þar er einstakt andrúmsloft og gaman að koma. Landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna á Grænlandi, í Kanada og Bandaríkjunum eru gerð góð skil á Vínlandssetrinu Leifsbúð og einnig verður farið um fallegu Dalina þar sem Sauðafell í Miðdölum og margir fleiri þekktir sögustaðir eru við þjóðveginn. Ekið um Bröttubrekku og niður í Norðurárdal í lok ferðar. Við gistum í tvær nætur á fjölskyldurekna sveitahótelinu Langaholti sem er staðsett á sunnanverðu Snæfellsnesi en allt umhverfið þar í kring er sönn náttúruparadís.