Öræfasveit með Ingu S. Ragnars

Sveitin milli sanda, Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu, er sú sveit sem hvað lengst var mjög einangruð á Íslandi eða allt til ársins 1974 þegar Skeiðarárbrúin var reist og hringvegurinn þar með opnaður. Stuttu áður eða árið 1967 hafði Jökulsá á Breiðamerkursandi verið brúuð og þar með rofin einangrun Öræfasveitar til austurs. Öræfin búa yfir mikilli og áhugaverðri sögu sem litast að sjálfsögðu af þessari miklu einangrun og eins jökulánum, jöklunum og sambýlinu við náttúruna á undanförnum öldum. Í þessari söguferð fer Inga S. Ragnarsdóttir með okkur á þessar slóðir sem hún þekkir svo vel. Hún segir frá gömlum búskaparháttum og þeim erfiðu aðstæðum sem forfeður hennar bjuggu við í Öræfunum. Farið verður frá Reykjavík og ekið sem leið liggur að Skógum þar sem við skoðum Skógasafn sem varðveitir og sýnir dýrmætan menningararf. Athygli okkar beinist nokkuð að þeim hluta safnsins sem sjaldan er gefinn gaumur, m.a. hluti er varða járnnýtingu og vinnslu í smiðjum. Fyrstu nóttina verður gist á Hótel Dyrhólaey en því næst haldið sem leið liggur í Skaftafell. Þar skoðum við torfbæinn Selið sem búið var í allt fram á miðja 20. öld og fáum að heyra áhugaverðar frásagnir frá þessu merka svæði. Komum í torfkirkjuna á Hofi í Öræfum áður en haldið verður á Hótel Smyrlabjörg þar sem gist verður í tvær nætur. Við förum út í friðlandið Ingólfshöfða með heimamanni og fræðumst m.a. um hið mikla fuglalíf sem þar er að finna. Í dag liggja vegir svo sannarlega til allra átta í þessari fallegu sveit, Öræfasveit, og við munum njóta þess að kynnast henni nánar undir dyggri leiðsögn Ingu fararstjóra og heimamanna. 

Ferðin var farin dagana 27. - 30. maí 2021 og kostaði þá 99.900 kr.

Verð á mann 99.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 16.600 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í eina nótt á Hótel Dyrhólaey. 
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í tvær nætur á Hótel Smyrlabjörgum. 
 • Þrír morgunverðir.
 • Aðgangur að Skógasafni 27. maí.
 • Kjötsúpa í hádeginu 27.  maí.
 • Tveggja rétta kvöldverður 27. maí á Hótel Dyrhólaey. 
 • Þriggja rétta kvöldverður 28. maí á Hótel Smyrlabjörgum.
 • Hádegisverðarnesti 29. maí.
 • Ævintýraferð út í Ingólfshöfða með Einari í Hofsnesi 29. maí.
 • Þriggja rétta kvöldverður 29. maí á Hótel Smyrlabjörgum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverður 28. og 30. maí.
 • Kaffi á Hala 29. maí.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Dagur 1 │ Skógar

Brottför að morgni frá Reykjavík og ekið sem leið liggur að Skógum. Inga á ættir að rekja að Skógum og hér verður því sögustund. Meðal annars segir hún frá því þegar að grænmetisrækt var að ryðja sér til rúms snemma á 19. öldinni á nokkrum bæjum. Á þeim tíma þótti það miklum furðum sætta í Mýrdal og undir Eyjafjöllum að á þeim bæjum sem höfðu kálgarða var heimilisfólkið bærilega vel haldið þrátt fyrir harðindi sem oft voru svo mikil að hungur svarf að heimilunum. Á Skógum verður snæddur hádegisverður og hluti Skógasafnsins skoðaður sem sjaldan er gefinn gaumur. Þar má nefna hluti er varða járnnýtingu og vinnslu í smiðjum þar sem leirker og deiglugerð koma einnig við sögu. Haldið áfram í áttina til Víkur en gist verður í eina nótt á Hótel Dyrhólaey.

Dagur 2 │ Öræfin

Í dag verður ekið sem leið liggur í Skaftafell en á leið okkar eru margir sögufrægir staðir. Við heyrum um hina merku sögu Kirkjubæjarklausturs og hvernig rafmagnið kom á bæina þar í kring snemma á 20. öldinni. Einnig hvernig póstferðum var háttað og hvernig ljósmæðrum var fylgt til verðandi mæðra, auk frásagna af sjóslysum við hina illvígu strandlengju. Móðurafi Ingu fararstjóra, Guðmundur Bjarnason frá Skaftafelli, var mikill vatnamaður eins og þá var sagt um þá sem voru þjálfaðir að fara yfir jökulárnar en hann tók einnig þátt í því að bjarga skipbrotsmönnum á strandstað. Við fáum því eflaust að heyra áhugaverðar frásagnir frá þessu merka svæði. Í Selinu í Skaftafelli lítum við inn í gamla bæinn en Selið er lítill torfbær af sunnlenskri gerð sem reistur var árið 1912 og er gott dæmi um hvernig bæirnir í Öræfasveit voru fram á þriðja áratug 20. aldar. Í Skaftafelli gefst tækifæri fyrir þá sem það vilja til að rölta upp að Svartafossi og einnig verður þar tekið hádegishlé þar sem kostur er á að fá sér hressingu. Á Hofi í Öræfum tekur meðhjálparinn á móti okkur í torfkirkjunni en Inga fararstjóri var hjá fjölskyldu hennar í sveit. Þá voru Öræfin einangraðasta sveit landsins eins og þau voru allt til ársins 1974 þegar Skeiðará var brúuð. Inga náði því að upplifa margt af búskaparháttum gamla tímans eins og að búa til smjör og skyr og fleira. Því næst verður haldið á Hótel Smyrlabjörg en þar snæðum við kvöldverð og gistum í tvær nætur.

Dagur 3 │ Í ríki Vatnajökuls

Dagurinn hefst á því að farið verður að Fjallsárlóni þar sem við upplifum návígið við tignarlegan skriðjökulinn Fjallsárjökul. Því næst er haldið í einstakt ferðalag með Einari á Hofsnesi yfir ála og leirur út í Ingólfshöfða. Þar upplifum við fuglalífið, njótum útsýnis sem er engu líkt og fáum okkur nestisbita. Inga tók sjálf þátt í veiði í Ingólfshöfða sem krakki, því Hof á veiðirétt í Höfðanum, en nú hefur henni verið að mestu hætt vegna verndunar fuglastofnanna. Á heimleið væri tilvalið að fá sér kaffisopa að Hala í Suðursveit, áður en haldið er í náttstað að Smyrlabjörgum.

Opna allt

Dagur 4 │ Heimferð

Nú verður haldið heim á leið og ekið til Reykjavíkur. Við njótum útsýnisins á suðurströndinni og að sjálfsögðu verða góð stopp þar sem hægt er að teygja úr sér og fá sér hressingu.

Fararstjóri getur breytt dagskrárliðum eftir veðri og aðstæðum.

Myndir úr ferðinni

Hótel Dyrhólaey

Hótel Dyrhólaey

Hótel Smyrlabjörg

Hótel Smyrlabjörg

Hótel Dyrhólaey
Hótel Smyrlabjörg

Fararstjórn

Inga Ragnarsdóttir

Leiðsögu- og myndlistamaðurinn Inga Ragnarsdóttir hefur starfað fyrir Bændaferðir frá árinu 2004. Hún hefur farið í fjölda ferða um mið-Evrópu þar sem hún er á heimavelli en Asía hefur verið hennar kærasta sérsvið frá upphafi. Ferðir Ingu um lönd eins og Indland, Nepal, Tíbet, Víetnam, Kambódíu, Búrma, Laos og Japan hafa notið mikilla vinsælda en Kína hefur hún sótt heim á hverju ári, oft tvisvar, síðustu 15 árin. Inga segir töfra Kína vaxa eftir því sem maður kynnist landinu nánar en það hefur heillað hana allt frá því á unglingsárunum.

Hótel

Hótel Dyrhólaey

Hótel Dyrhólaey er fjölskyldurekið hótel sem er staðsett um 9 km vestan við Vík. Þar er fallegt útsýni niður grösuga sveit til hafs og upp til fjalla þar sem jökulinn ber við himin. Öll svefnherbergi eru með sérbaðhergi, sjónvarpi, hraðsuðukatli, hárþurrku og síma. Ókeypis þráðlaust netsamband og morgunverður innifalinn.

Skoða hótel nánar.

Hótel Smyrlabjörg

Hótel Smyrlabjörg er vel búið og hlýlegt fjölskyldurekið hótel undir suðurrótum Vatnajökuls, nær miðja vegu á milli Jökulsárlóns og útvegsbæjarins Hafnar í Hornafirði. Herbergin eru björt og öll með sérbaðherbergi. Ókeypis þráðlaust netsamband og morgunverður innifalinn.

Skoða hótel nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00