Öræfasveit með Ingu S. Ragnars
27. - 30. maí 2021 (4 dagar)
Sveitin milli sanda, Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu, er sú sveit sem hvað lengst var mjög einangruð á Íslandi eða allt til ársins 1974 þegar Skeiðarárbrúin var reist og hringvegurinn þar með opnaður. Stuttu áður eða árið 1967 hafði Jökulsá á Breiðamerkursandi verið brúuð og þar með rofin einangrun Öræfasveitar til austurs. Öræfin búa yfir mikilli og áhugaverðri sögu sem litast að sjálfsögðu af þessari miklu einangrun og eins jökulánum, jöklunum og sambýlinu við náttúruna á undanförnum öldum. Í þessari söguferð fer Inga S. Ragnarsdóttir með okkur á þessar slóðir sem hún þekkir svo vel. Hún segir frá gömlum búskaparháttum og þeim erfiðu aðstæðum sem forfeður hennar bjuggu við í Öræfunum. Farið verður frá Reykjavík og ekið sem leið liggur að Skógum þar sem við skoðum Skógasafn sem varðveitir og sýnir dýrmætan menningararf. Athygli okkar beinist nokkuð að þeim hluta safnsins sem sjaldan er gefinn gaumur, m.a. hluti er varða járnnýtingu og vinnslu í smiðjum. Fyrstu nóttina verður gist á Hótel Dyrhólaey en því næst haldið sem leið liggur í Skaftafell. Þar skoðum við torfbæinn Selið sem búið var í allt fram á miðja 20. öld og fáum að heyra áhugaverðar frásagnir frá þessu merka svæði. Komum í torfkirkjuna á Hofi í Öræfum áður en haldið verður á Hótel Smyrlabjörg þar sem gist verður í tvær nætur. Við förum út í friðlandið Ingólfshöfða með heimamanni og fræðumst m.a. um hið mikla fuglalíf sem þar er að finna. Í dag liggja vegir svo sannarlega til allra átta í þessari fallegu sveit, Öræfasveit, og við munum njóta þess að kynnast henni nánar undir dyggri leiðsögn Ingu fararstjóra og heimamanna.