Páskaveisla við ítölsku rivíeruna

Töfrandi ferð um ítölsku og frönsku rivíeruna þar sem heillandi umhverfi lætur engan ósnortinn. Ferðin byrjar í Zürich og er stefnan tekin á Mílanó en þar verður áð á leið til Diano Marina, sem oft er kölluð blómaströndin. Nafnið er tilkomið vegna einstakrar blómaræktunar þar um slóðir. Þaðan verður farið í yndislegu borgina Nice við Côte d’Azur ströndina í Frakklandi ,sem er við svonefnda Englavík, og til borgarinnar Cannes, þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarnanna. Suðrænn blær leikur um okkur í dásamlega furstadæminu Mónakó og í fræga bænum San Remo við blómaströndina þar sem við upplifum glæsileika ítölsku rivíerunnar. Sælan heldur áfram í fallega bænum Lerici við La Spezia flóann á Ítalíu en hann ber viðurnefnið skáldaflóinn. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Skemmtileg dagsferð er í boði þar sem við förum í ævintýralega siglingu úti fyrir brattri klettaströnd Cinque Terre með viðkomu í þorpunum Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere . Ferðinni lýkur með trompi í Innsbruck, höfuðborg Tíróls í Austurríki.

Verð á mann í tvíbýli 298.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 75.000 kr.

 
Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir, spilavíti og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling með Cinque Terra ströndinni ca € 31.
 • Spilavíti í Monte Carlo ca € 20. 
 • Strætisvagn í Monte Carlo hverfið ca € 4.
 • Höll furstafjölskyldunnar í Mónakó ca € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. apríl | Flug til Zürich & Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 7.20, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich í Sviss kl. 13.00 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið í átt að Mílanó á Ítalíu þar sem gist verður í nágrenni borgarinnar fyrstu nóttina.

8. apríl | Mílanó & Diano Marina

Í dag verður stefnan tekin á Diano Marina á ítölsku rivíerunni. Þar verður gist í 5 nætur á góðu hóteli í ca 15 mínútna göngufæri frá miðbænum. Hótelið býður upp á einkabaðströnd og fallegan garð. Veitingastaður hótelsins er opinn frá morgni til kvölds svo þar er hægt að fá sér létta hressingu á frídegi. Á leiðinni til Diano Marina verður stoppað á fögrum stað þar sem hægt verður að fá sér hressingu.

9. apríl | Nice & Cannes við Cote d´Azur

Í dag heimsækjum við dásamlegu borgina Nice við Cote d´Azur í Frakklandi. Það er ekki annað hægt en að hrífast af bæði borginni sjálfri og bæjarstæði hennar við Englaflóann. Nice er í hópi gömlu, grísku borganna en víðsvegar um hana standa glæsilegar byggingar, einskonar minnisvarðar liðins tíma. Þetta er ein vinsælasta ferðamannaborgin við ströndina og því er alltaf mikið um að vera. Hún bókstaflega iðar af mannlífi allt árið um kring. Eftir góðan tíma og áhugaverða skoðunarferð um Nice verður ekið til glæsiborgarinnar Cannes, sem er hvað þekktust fyrir hina alþjóðlegu kvikmyndahátíð sem haldin er þar ár hvert. Að sjálfsögðu munum við feta í fótspor kvikmyndastjarnanna og ganga á rauða dreglinum að kvikmyndahöllinni. Síðdegis gefst frjáls tími til þess að kanna borgina á eigin vegum, sýna sig og sjá aðra.

Opna allt

10. apríl | Rólegur dagur í Diano Marina

Í dag ætlum við að taka það rólega í Diano Marina og njóta þess að vera á þessum fagra stað. Eftir góðan morgunverð er upplagt að slást í för með fararstjóra til að kanna nánasta umhverfið og miðbæinn sem er líflegur og skemmtilegur. Einnig er sjálfsagt að nýta sér frábæra aðstöðu hótelsins.

11. apríl | Skemmtilegur dagur í San Remo

San Remo er einn vinsælasti ferðamannastaður Liguriastrandarinnar við svonefnda blómaströnd en hún dregur nafn sitt af einstakri blómaræktun þar um slóðir. Þetta er líflegur og skemmtilegur bær og margar glæstar byggingar prýða borgina en í San Remo búa um 45.000 íbúar. Hér verður farið í skemmtilega skoðunarferð um bæinn og eftir það verður frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa og fá sér hressingu. Einnig verður hægt að líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir.

12 apríl | Furstadæmið Mónakó & spilavítin í Monte Carlo

Þennan dag heimsækjum við furstadæmið Mónakó, stundum kallað dvergríkið Mónakó. Byrjað verður á að stoppa við kaktusgarðinn en þaðan er glæsilegt útsýni yfir borgina og klettinn sem gamli bærinn var reistur á. Við höldum í skoðunarferð um klettaborgina en þar er að finna höll furstafjölskyldunnar og dómkirkjuna þar sem Grace Kelly var borin til grafar. Einnig verður komið við í Monte Carlo hverfinu þar sem glæsileg bygging Grand Casino spilavítisins stendur.

13. apríl | Diano Marina & Lerici við Liguriaströndina

Kveðjum Diano Marina eftir yndislega daga en sælan heldur áfram því ekið verður til Lerici sem er yndislegur bær á austurhluta ítölsku rivíerunnar við La Spezia flóann. Hann er rómaður fyrir fegurð og ber viðurnefnið skáldaflóinn. Þar verður gist í 3 nætur. Á leiðinni verður stoppað í bænum Rapallo þar sem farið verður í skemmtilega siglingu meðfram Portofino skaganum en hann dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. 

14. apríl | Sigling við Cinque Terre ströndina

Þessi dagur er heilt ævintýri því nú verður farið í ótrúlega siglingu úti fyrir brattri Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar þar sem litríkum húsunum er tyllt utan í klettana. Siglt verður til bæjanna Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað einhvers staðar til að fá sér hádegishressingu og einnig til að kanna líf bæjarbúa.

15. apríl | Gönguferð um Lerici & rólegheit

Rólegheit og slökun eru á dagskrá hjá okkur í dag í bænum Lerici. Upplagt að kanna umhverfið á göngu með fararstjóra en glæstar byggingar og kastalavirki frá veldi Pisa- og Genúabúa prýða borgina. Eftir það verður frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum og jafnvel skreppa á ströndina, skutlur flytja fólk þangað frá hótelinu.

16. apríl | Lerici & Innsbruck

Þá er sæludögunum við ströndina lokið. Eftir góðan morgunverð er ekin undurfögur leið norður eftir, yfir Brennerskarðið og til Innsbruck í Tíról í Austurríki. Þar verður gist síðustu 2 næturnar á hóteli í miðbænum.

17. apríl | Dagur í Innsbruck í Tíról

Innsbruck er höfuðstaður Tíról og stendur í fögrum fjallasal. Miðaldahluti borgarinnar er mjög heillandi en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar þekktustu konungsættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja húsið með gullþakinu, sem alltaf vekur mikla hrifningu en það stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Borgin var á þeim tíma jafnframt ein af menningar- og listaborgum landsins. Farið verður í stutta skoðunarferð en eftir hana verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á kaffihús.

18. apríl | Heimferð frá München

Nú er komið að því að kveðja Innsbruck eftir yndislega daga. Ekið verður til München en brottför þaðan er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir