Páskasæla á Sardiníu

29. mars – 12. apríl 2018 (15 dagar)

Glæsileg eyjaferð til Sardiníu þar sem við ferðumst um stórbrotna náttúru með mikilli gróðursæld milli töfrandi þorpa.

Gullinn sandur, sægrænt haf og ilmur frá Macchia gróðri skapa ótrúlega upplifun. Siglt verður frá meginlandinu yfir til Olbía að næturlagi og taka bæirnir Tempion og Castelsardon í Sassari héraði á móti okkur. Blær miðalda umvefur okkur í spænsku borginni Alghero sem eitt sinn tilheyrði konungsríki Arogons. Þar upplifum við páskaathöfn, siglingu að Neptun helli, sækjum miðaldabæinn Bosa heim og skoðum konunglegar minjar frá bronsöld í Santa Antine. Í lestarferð um hálendi Planagia verðum við vitni að töfrandi útsýni, stöldrum við í fögrum bæjum og að endingu í fjallabænum Aritzo, en þar kynnumst við lífi fjallabúa á skemmtilegan hátt. Á leið um heimahaga hjarðmanna verður bærinn Orgosolo heimsóttur og njótum við þar hressingar að hætti heimamanna. Costa Smeralda ströndin bíður okkar í allri sinni dýrð, en hún státar af einstaklega fögrum bæjum og verða Porto Rotondo, Porto Cervo, ásamt fjallaþorpinu San Pantaleo á vegi okkar. Úti fyrir ströndinni siglum við milli Maddalenísku eyjanna en ævintýrinu lýkur svo í Innsbruck í Tíról í Austurríki.

Verð á mann í tvíbýli 329.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 57.600 kr.

 
Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum
 • Næturferja frá Livorno til Olbía
 • Næturferja frá Olbia til Livorno
 • Morgun- og kvöldverðir á ferju.
 • Útsýnislestarferð með Trenino Verde
 • Vín- og nougatsmökkun
 • Máltíð að hætti hjarðmanna ásamt skemmtun
 • Sigling yfir til La Maddalena
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu
 • Íslensk farastjórn

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, stuttar siglingar og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Bátsferð og Neptun hellir ca. € 29.
 • Nuragehe, fornminjar frá Bronsöld ca. € 6.
 • Grímusafn í Mamolada ca. € 4.
 • Minjasafn í Aritzo ca. €2,50.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

29. mars | Flug til München & Brixen í Suður-Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan er ekin falleg leið um Alpana suður á bóginn, gegnum Brennerskarð og niður til Brixen í Suður-Tíról á Ítalíu þar sem gist verður fyrstu nóttina.

30. mars | Sigling á Miðjarðarhafi frá Livorno til Olbía á Sardiníu

Eftir morgunverð verður ekið til hafnarborgarinnar Livorno þar sem við förum um borð í skip. Siglt verður til Olbía á Sardiníu, en eyjan tilheyrir Ítalíu. Skipið leggur frá bryggju um kl. 21:00 og tekur siglingin um 10 klst. Gist er í tveggja manna klefum og mun kvöldverður bíða okkar um borð. Siglingin er einstaklega skemmtileg og aðbúnaður allur til fyrirmyndar. 

31. mars | Olbía, Castelsardo, Tempio & Alghero

Við snæðum morgunverð um borð áður en skipið leggur að landi. Bærinn Olbía stendur við hina heimsþekktu Costa Smeralda strönd þar sem gullinn sandur fellur saman við sægrænt hafið og ilm leggur frá Macchia gróðri. Við heimsækjum miðaldabæinn Castelsardo í héraðinu Sassari. Bærinn var reistur árið 1102 af Doria fjölskyldunni frá Genúa. Við stöldrum við góða stund í þessum yndislega bæ og göngum um þröngar, litlar göturnar í elsta hluta bæjarins. Því næst munum við aka inn í hjarta græna Gallura svæðisins, en þar verður staldrað við í snotru borginni Tempio. Umhverfis borgina eru fögur skógarsvæði, miklar vínekrur og granít námur, og kennir borgin sig gjarnan við granítvinnslu. Dagurinn endar í spænsku borginni Alghero þar sem gist verður 4 nætur á góðu hóteli í miðbænum.

Opna allt

1. apríl | Skoðunarferð í Alghero & Páskaskrúðganga

Í dag skoðum við yndislega virkisbæinn Alghero, en hann er staðsettur norðvestan megin á Sardiníu, í héraðinu Sassari og er eflaust einn sá fallegasti á eyjunni. Katalónar gáfu bænum þetta nafn og er katalónískan opinbert tungumál eyjaskeggja þar sem borgin tilheyrði um tíma konungsríki Aragons frá Spáni. Við höldum í skemmtilega skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna umhverfið á eigin vegum. Að kvöldverði loknum verðum við vitni að glæsilegri skrúðgöngu í tilefni páskahátíðarinnar, sem nefnist L´Incontro. Þar er upprisu Krists fagnað og líkneski borin til kirkjunnar Santa Maria. 

2. apríl | Dagur í Alghero & sigling í Neptun helli

Þennan dag er tilvalið að taka það rólega og slaka á, en áhugasamir geta að sjálfsögðu skoðað þessa fallegu miðaldaborg á eigin vegum. Hótelið okkar stendur við litlu bátahöfnina, en þaðan er 10 mínútna ganga að ströndinni og 5 mínútur tekur að rölta inn í miðbæinn. Eftir hádegi stendur til boða að fara í skemmtilega siglingu að Neptun helli.

3. apríl | Útsýnisferð með vesturströndinni, Bosa & Santa Antine

Að loknum morgunverði munum við aka fallega leið eftir hrjóstrugri vesturströndinni. Blær miðalda umvefur okkur á þessari leið, einkum í bænum Bosar sem er óvenju litríkur og skemmtilegur. Þar förum við í skoðunarferð og að sjálfsögðu gefst tími til að fá sér hressingu. Þaðan ökum við til Santa Antine, þar sem finna má einar merkustu fornminjar Sardiníu, konunglegar minjar frá bronsöld sem sýna Nuragehe menninguna sem þróaðist hér á 14. - 8. öld f. Kr.

4. apríl | Lestarferð, vínsmökkun, Marghine & Aritzo

Á dagskránni er sannkölluð ævintýraferð með Trenino Verde, sögulegri lest, um hálendið Planagia. Við leggjum af stað frá Bosa og höldum inn til landsins í gegnum eitt af vínhéruðum Sardiníu. Fyrsti viðkomustaður verður í bænum Tresnuraghes þar sem við fáum að bragða á Malvasía víni og sætabrauði að hætti eyjarbúa. Þá verður stoppað í Tinnuri, en bæinn einkenna skemmtilegar veggjateikningar eða Murales. Við stöldrum við í kirkjunni St. Maria di Corte, en rústir hennar eru frá árinu 1147 og teljast því með elstu kirkjum í Evrópu. Áfram höldum við til Macomer sem er höfuðstaður Marghine svæðisins, en þar lýkur lestarferðinni. Við heimsækjum byggingu frá 19. öld og brögðum á léttu snarli og víni héraðsins. Rútan mun bíða okkar og munum við aka upp í Gennargentugfjöllin í fjallaþorpið Aritzo þar sem gist verður í 2 nætur.

5. apríl | Skoðunarferð í Aritzo & stutt ferð til Atzara

Fjallafegurðin umvefur okkur í dag á ferð um hálendi Barbagía von Belví. Þar komum við í heillandi fjallabæinn Atzara, heimsækjum lítið ullarverkstæði og brögðum á Mandrolisai DOC víni hjá vínbónda. Ekið verður aftur til baka og farið í stutta skoðunarferð um Aritzo sem er töfrandi bær sem kúrir inn á milli hárra fjalla. Á ferð okkar um bæinn mun okkur gefast tækifæri á að smakka hvíta núggatið frá Torrone. Að endingu gefst tími til að að kanna líf fjallabúa á eigin vegum.

6. apríl | Aritzo, Mamoiada, Orgsolo & Costa Smeralda

Nú kveðjum við fjallaþorpið Aritzo og höldum ferðinni áfram um heimahaga hjarðmannanna í Gennargentugfjöllunum. Stoppað verður stutt í fjallaþorpinu Mamoiada, en síðan verður ekið til bæjarins Orgosolo. Bærinn er þekktastur fyrir veggteikningar eða Murales á byggingum borgarinnar, en upphafið að þessum teikningum má rekja til ársins 1968 þegar leiklistarhópur frá Mílanó hélt sýningu í bænum. Að skoðunarferðinni lokinni verður boðið upp á hádegisverð að hætti hjarðmanna undir þjóðlagasöng. Södd og sæl ökum við að Costa Smeralda ströndinni þar sem gist verður í 3 nætur.

7. apríl | Porto Rotondo, Porto Cervo & San Pantaleo

Í dag ökum við eftir gullinni Costa Smeralda ströndinni, þar sem sægrænt hafið ber við sjóndeildarhringinn og loftið ilmar. Ferðinni er heitið til eins þekktasta bæjar Sardiníu; Porto Rotondo, sem er ein af perlum strandarinnar og liggur við fagra vík í Olbía. Því næst verður ekið til Porto Cervo og þar skoðum við undurfagra litla kirkju; Stella Maris. Að heimsókn lokinni ökum við áfram til fjallabæjarins San Pantaleo, hrífandi listamannabæjar með rómverskum minjum, kirkju og miðaldahúsum sem kölluð eru stazzi og eru híbýli hirðingja. 

8. apríl | Frjáls dagur við Costa Smeralda ströndina

Nú gefst okkur tækifæri til að slaka á og taka lífinu með ró. Upplagt er að fá sér gönguferð eða nota aðstöðuna við hótelið. Náttúrufegurðin umleikur okkur á þessum fagra stað og gott er að hvíla sig og njóta hennar.

9. apríl | Sigling til La Maddalena, Olbía & nætursigling

Dagurinn verður sannkallaður ævintýradagur. Við höldum í siglingu yfir til Maddaleníska eyjaklasans, en hann samanstendur af 7 eyjum. Deginum verjum við á höfuðeyju klasans La Maddalena. Farið verður í líflega skoðunarferð um eyjuna sem smitar gesti sína af heillandi karabískri stemningu, en við munum kynnast sögu og menningu eyjarskeggja. Einnig eyðum við drjúgum hluta dagsins á samnefndum höfuðstað eyjanna. Þar er upplagt að slaka á í dásamlegu miðjarðarhafsloftslaginu undir pálmatré. Þegar við komum aftur á Sardiníu eftir góðan dag, verður stefnan tekin á Olbía, þar sem skipið bíður okkar með kvöldverð til reiðu. Siglt verður til Livorno á meginlandi Ítalíu að næturlagi. 

10. apríl | Sigling á Miðjarðarhafi til Livorno & Innsbruck

Morgunverður mun snæddur á skipinu áður en lagt er að bryggju í Livorno á Ítalíu. Þegar allir hafa komið sér fyrir í rútunni munum við aka upp í fjalldýrðina í Ölpunum, til Innsbruck í Tíról þar sem gist verður síðustu 2 nætur ferðarinnar.

11. apríl | Dagur í Innsbruck í Tíról

Innsbruck er höfuðstaður Tíról og stendur í fögrum fjallasal. Elsti hluti borgarinnar er mjög heillandi, en Innsbruck var ein af borgum Habsborgaranna, einnar þekktustu konungsættar Evrópu. Blómatími borgarinnar var á 15. öld undir stjórn Maximilian I af Habsborg. Hann lét byggja húsið með gullþakinu, sem alltaf vekur mikla hrifningu, en það stendur við eitt fallegasta torgið í Tíról. Borgin var á þeim tíma jafnframt ein af menningar- og listaborgum landsins. Farið verður í stutta skoðunarferð um borgina, en eftir hana verður hægt að kanna borgina á eigin vegum, líta inn til kaupmanna í Maria-Theresien-Straße eða setjast niður á kaffihús.

12. apríl | Heimferð frá München

Eftir þessa góðu daga, er ferðin á enda. Að morgunverði loknum ökum við til München og fljúgum þaðan heim. Brottför er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir