Króatískar strendur & Alpafjöll
4. - 15. október 2021 (12 dagar)
Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð sem hefst í þýska bænum Bad Reichenhall sem er hvað þekktastur fyrir heilsulindir. Þá tekur listamannabærinn Rovinj í Króatíu á móti okkur með suðrænum blæ en á leiðinni þangað verður komið við í grænu borginni Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. Heimsækjum hinn einstaklega töfrandi bæ Poreč, einn elsta bæ Istríastrandarinnar, en þar er m.a. að finna hina áhugaverða basilíku sem kennd er við himnaför Maríu. Basilíkan sem er frá 6. öld er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Á leið okkar til Poreč verður áð hjá Limski Kanal og komið við hjá vínbónda í Pazin. Sunnarlega við Istríaströndina er hin merka borg Pula sem er lífleg og hrífandi með ægifagra strönd og margar fornar og glæstar byggingar en borgin varðveitir einnig merka menningarsögu. Dásamleg sigling verður farin út í eyjuna Brijuni þar sem við kynnumst nýrri hlið á Tító, fyrrum leiðtoga Júgóslavíu. Síðustu dögum ferðarinnar eyðum við í Alpafjöllunum í Austurríki, í fjallaþorpinu Filzmoos í Salzburgerlandi. Þaðan verður m.a. farið til Salzburgar, hinnar miklu tónlistarborgar sem er ein af perlum landsins. Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur við Dachstein fjöllin og farið verður með kláf upp á Dachstein jökulinn, þar sem við skoðum m.a. íshelli, lítum á ótrúlegar höggmyndir og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis.