Alpaperlur í Tíról

Dýrðleg eru Alpafjöllin í Austurríki og Þýskalandi sem skarta sínu fegursta á þessum árstíma. Þessi skemmtilega og ljúfa ferð hefst í bænum St. Johann í Tíról í Austurríki, inn á milli Keisarafjallanna og Kitzbüheler Horn. Þarna munu töfrandi skoðunarferðir og notalegar samverustundir mynda skemmtilegt samspil. Við upplifum kynngimagnaða fjallafegurð við Arnarhreiður Hitlers í Alpafjöllum Þýskalands og förum í siglingu á einu fegursta stöðuvatni í Evrópu, Königssee, út að hinni fallegu St. Bartholomä kapellu. Við höldum til fjalla og verður farið með tannhjólalest upp á Wendelstein fjallið en þaðan er mikilfenglegt útsýni sem oft hefur verið notað sem draumaumhverfi í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Farið verður niður með kláfi að Schliersee vatni en þar lætur fegurðin ekki á sér standa. Alltaf er skemmtilegt að koma til Kitzbühel í Tíról í Kitzbüheler Ölpunum en hann er einn þekktasti og vinsælasti bærinn í Austurríki. Förum upp á fjallið Kitzbüheler Horn en þaðan er ægifagurt útsýni. Bæjaraland tekur á móti okkur í bænum Straubing við Dóná en á leið þangað verður áð í lista- og menningarborginni München sem er sérstaklega lífleg og skemmtileg á þessum tíma árs. Sæludagarnir enda með trompi í Regensburg en þessi gamla borg á sér stórmerkilega sögu allt frá tímum Rómverja fyrir um 2000 árum og er komin á heimsminjaskrá UNESCO.

Verð á mann 248.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 59.200 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kláfur, Kitzbüheler Horn ca € 22.
 • Arnarhreiðrið ca € 20.
 • Sigling á Königssee vatni ca € 17.
 • Wendelstein tannhjólabraut & kláfur ca € 30. 
 • Sigling á Schliersee vatninu ca € 7. 
 • Tírólakvöld ca € 20.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. júlí | Flug til München & St. Johann í Tirol

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Austurríkis þar sem gist verður fimm nætur í bænum St. Johann í Tíról í Lukental dalnum inn á milli Keisarafjallanna og Kitzbüheler Horn sem er rómaður fyrir einstaka fjallafegurð.

30. júlí | Kláfur upp á Wendelstein & Schliersee vatnið

Í dag förum við að fjallinu Wendelstein í bæversku Ölpunum í Þýskalandi. Þar verður farið með tannhjólalest upp í 1838 m hæð þar sem við fáum notið til fulls fjallafegurðar landsins. Á toppnum er að finna Wendelsteinkircherl, þá vígðu kirkju sem liggur hæst allra í Þýskalandi, Wendelstein stjörnuskoðunarstöðina og auðvitað veitingastað með dásamlegu útsýni. Við gefum okkur góðan tíma hér til að njóta og skoða okkur um áður en farið verður niður með kláfi til Osterhofen. Þar ber við sjón Schliersee vatnið þar sem fegurðin lætur ekki á sér standa. Við ætlum að njóta þess að vera á þessum undurfagra stað inn á milli fjallanna og hér væri upplagt að skella sér í bátsferð á kristaltæru vatninu.

31. júlí | Dagur í St. Johann í Tíról & frjáls tími

Í dag ætlum við að njóta þess að vera í hinum dásamlega og líflega barokkbæ St. Johann í ljúfa Lukental dalnum inn á milli Keisarafjallanna og Kitzbüheler Horn. Í bænum hefur ávallt tíðkast mikil iðjusemi og er arðbærni bæjarins vel þekkt, en hann hefur lengi notið góðs af námuvinnslu eða frá því að keltneskur ættbálkur hóf að vinna kopar á svæðinu snemma á 4. öld.

Opna allt

1. ágúst | Arnarhreiðrið & Königssee vatnið

Stórbrotin upplifun er að aka um héraðið Berchtesgadener Land og Berchtesgadener Alpana í Þýskalandi þar sem Arnarhreiður Hitlers er staðsett. Martin Bormann lét byggja húsið og færa Hitler að gjöf frá ríkinu á 50 ára afmæli hans en Hitler sjálfur valdi tindinn Kehlstein í 1.834 m hæð sem byggingarstað. Við byrjum á því að fara upp með strætisvögnum og síðan er ferð með frægu messingklæddri lyftunni en það er alveg magnað að koma þarna upp í ólýsanlega fjallafegurðina. Eftir það verður ekið að Königssee vatninu sem þekkt er fyrir stórfenglega náttúrufegurð, en þetta kristaltæra stöðuvatn er einn eftirsóttasti ferðamannastaður Þýskalands. Hér verður farið í siglingu út að fallegu St. Bartholomä kapellunni frá 12. öld.

2. ágúst | Kitzbühel & Kitzbüheler Horn

Skemmtilegur dagur í Kitzbühel í Tíról sem er einn af þekktustu vetraríþróttabæjum Austurríkis. Á 16. og 17. öld blómstraði bærinn vegna kopar- og silfurvinnslu. Gamli bærinn státar af fallegum gömlum bindingsverkshúsum og Katharinen kirkjunni sem er í gotneskum stíl. Einnig er þar mikið úrval af fínum verslunum. Tækifæri gefst til að fara með kláfi upp á Kitzbüheler Horn sem er í 1.998 m hæð yfir sjávarmáli. Þar er veitingahús, kapella og stórkostlegt útsýni. Í kvöld njótum við skemmtilegs kvölds að hætti Tíróla með skemmtiatriðum, tónlist og dansi.

3. ágúst | St. Johann, München & Straubing

Nú kveðjum við þennan fagra stað eftir yndislega daga og stefnum á gömlu hertogaborgina, Straubing á Dónásléttunni, svokallað kornherbergi Bæjaralands en svæðið er einstaklega frjósamt. Á leiðinni þangað verður stoppað í München, höfuðstað Bæjaralands, sem er lífleg og skemmtileg borg og sér í lagi á þessum tíma. Helsta kennileiti borgarinnar er gotneska dómkirkjan með laukturnunum tveimur á Maríutorginu, svokölluð Frauenkirche, og svo fallega ráðhúsið. Við byrjum á því að fara inn í borgina þar sem gefin verður góður tími til að kanna miðbæinn á eigin vegum og fá sér hressingu. Eftir það verður ekið um helstu staði borgarinnar, t.d. að Ólympíusvæðinu sem var byggt fyrir Ólympíuleikana 1972, BMW byggingunni, þinghúsi Bæjaralands Maximilianeum, gamla og nýja Pinakothek listasafninu, Wittelsbacher brunninum og Viktualienmarkt, fyrrum bændamarkaði og aðalmarkaði borgarinnar. Að síðustu verður ekið til Straubing við Dóná þar sem gist verður í þrjár nætur á góðu hóteli.

4. ágúst | Ljúfur dagur í bænum Straubing & frjáls tími

Nú ætlum við að eiga góðan og skemmtilegan dag í Straubing við ána Dóná sem á sér aldargamla sögu frá tímum Rómverja og var einnig hluti af gömlu hertogadæmi. Jafnvel fyrstu ferðamennirnir sem komu hér á 19. öld voru yfir sig hrifnir af borginni. Bærinn er mjög fallegur, líflegur, einkar vinalegur og prýða hann margar glæstar byggingar og kirkjur. Við förum í stutta skoðunarferð um miðbæinn en eftir það gefst frjáls tími til að rölta um og njóta þessa yndislega bæjar. Hér er mikið af verslunum og skemmtileg kaffi- og veitingahús. Einnig eru þó nokkuð margir svokallaðir bjórgarðar (Biergarten) í borginni sem er eitt af séreinkennum Bæjaralands. Þar er hægt að kaupa sér þjóðlegan mat og drykk.

5. ágúst | Skemmtilegur dagur í Regensburg við Dóná

Regensburg er töfrandi en þessi gamla borg á sér stórmerkilega sögu allt frá tímum Rómverja fyrir um 2000 árum og er hún skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Við byrjum á að fara í létta skoðunarferð um borgina þar sem gengið verður að gamla ráðhúsinu og Haidplatz torginu en þar er hótelið Goldenes Kreuz frá 13. öld. Hér gistu konungar og keisarar á ferðum sínum fyrr á tímum. Við lítum á gamlar miðaldabyggingar, gömul turnhús aðalsmanna, Golíathúsið frá 13. öld og steinbrúna frægu. Stórfengleg er Dómkirkjan sem er eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar í Bæjaralandi, en þar er starfandi einn frægasti drengjakór landsins, Regensburger Domspatzen. Eftir skoðunarferð er um að gera að kanna borgina nánar á eigin vegum, njóta góðra veitinga og skoða mannlífið. Regensburg er líka ein af verslunarborgum Bæjaralands, svo hér er einnig hægt að líta inn til kaupmanna.

6. ágúst | Heimflug frá München

Eftir þessa sæludaga og yndislegu ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14:05 og er lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00