Páskar í Vínarborg & Salzburg
4. – 11. apríl 2023 (8 dagar)
Þessi glæsilega páskaferð hefst í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis við bakka Dónár, sem talin er með glæsilegustu borgum Evrópu. Glæstar byggingar skreyta borgina og munum við skoða helstu staði hennar svo sem Schönbrunn, eina íburðarmestu höll landsins með sínum dýrðlega garði, Hofburg hallarsvæðið, Stephans dómkirkjuna, Belvedere höllina og hið þekkta hús listamannsins Hundertwasser. Upplagt er að skella sér á tónleika í eitthvert hinna glæsilegu tónleikahúsa borgarinnar. Einnig verður farið til gömlu konungsborgarinnar Bratislava, höfuðborgar Slóvakíu sem státar af fögrum byggingum, höllum og kirkjum. Við ætlum líka að njótum þess að eiga ljúfa kvöldstund saman í vínræktarbænum Grinzing þar sem við ætlum að fá okkur að borða og eiga skemmtilega stund saman. Eftir góða daga í Vínarborg verður ekið til tónlistarborgarinnar Salzburg sem er fæðingarborg Mozarts og þykir vera einn af gimsteinum Evrópu. Við munum kynnast sögu hennar og helstu sérkennum en borgin er hvað þekktust fyrir byggingar í barokkstíl og var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996.