30. ágúst - 6. september 2021 (8 dagar)
Það er ævintýri líkast að ferðast um Alpafjöllin í Sviss og Ítalíu og ekki síðra að dvelja við annað stærsta vatn Ítalíu, Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Við kynnumst sögu og litskrúðugu menningarlífi þessara landa sem hrífa með sér hvern þann sem þangað kemur. Við hefjum ferðina á Ítalíu í ljúfa bænum Stresa sem stendur við vatnið Lago Maggiore. Þaðan siglum við til Isola Bella, hjarta Borromee eyjanna, þar sem við sjáum glæsilega höll í fögrum lystigarði og við heimsækjum einnig eyjuna Isola dei Pescatori. Töfrandi fjallabærinn Sion bíður eftir okkur í Wallis, einni af kantónum Sviss. Á leiðinni stoppum við í bænum Täsch og förum í stutta lestarferð inn í hinn þekkta fjallabæ Zermatt við rætur fjallsins Matterhorn en þaðan er útsýnið yfir á Matterhorn hreint stórfenglegt. Við toppum þessa glæsilegu ferð með því að koma til bæjarins Chamonix sem stendur við rætur hæsta fjalls Vestur-Evrópu, Mont Blanc. Frá miðbæ Chamonix gengur kláfur upp í 3.842 m hæð á Aiguille du Midi og þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Mont Blanc og dalinn fyrir neðan. Endum ferðina í fallega bænum Montreux í Sviss sem var mikið aðdráttarafl rithöfunda, tónlistar- og annarra listamanna á 19. öld vegna einstaks ævintýraljóma sem bærinn var sveipaður. Allar götur síðan hefur hann dregið til sín hina ríku og frægu og er nú einn vinsælasti ferðamannabærinn við Genfarvatn.