Haustfegurð við Rín

3. - 8. október 2017 (6 dagar)

Í þessari rómantísku haustferð verður haldið til Wiesbaden sem stendur á bökkum Rínar, rétt vestur af Frankfurt. Wiesbaden er mjög falleg borg, sem býr yfir merkri sögu og mikilfenglegum byggingum. Ekki má gleyma því að hún er með vinsælustu verslunarborgum Þýskalands. Við njótum dags í Heidelberg sem er ein elsta háskólaborg Þýskalands og komum til Rüdesheim, eins vinsælasta ferðamannabæjar við Rín. Þar ferjar kláfur okkur upp í vínhæðirnar fyrir ofan bæinn að Niederwald minnisvarðanum. Á siglingu eftir ánni Rín gefst okkur færi á að sjá einstaka náttúrufegurð og sögufræga staði við bakka árinnar á leið okkar til Koblenz sem stendur á einum fallegasta stað Þýskalands, Deutsches Eck þar sem árnar Mósel og Rín mætast.

Verð á mann í tvíbýli 124.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 18.900 kr.


Innifalið

 • 6 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelinu.
 • Tveir kvöldverðir á veitingahúsum í Wiesbaden.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir á söfn, í kláf, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þrír kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling frá Rüdesheim til St.
 • Goarshausen ca. € 20.
 • Kláfur í Rüdesheim ca. € 10.
 • Heidelberg höllin € 7.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

3. október | Flug til Frankfurt & Wiesbaden

Brottför frá Keflavík kl. 7:25 og lending í Frankfurt kl. 12:50 að staðartíma. Rúta flytur okkur til fallegu borgarinnar Wiesbaden. Seinnipartinn er frjáls tími og upplagt að rölta um glæsilegan miðbæinn og kanna umhverfið. Gist verður í 5 nætur á hóteli í miðbænum.

4. október | Rüdesheim & sigling á Rín

Í dag verður ekið til bæjarins Rüdesheim, sem þekktur er fyrir gömul og falleg bindingsverkshús og skemmtilegar, þröngar götur svo sem Drosselgasse sem iðar af mannlífi. Farið verður í stutta ferð með kláfi upp vínhæðirnar sem liggja fyrir ofan bæinn, að Niederwald minnisvarðanum, en þaðan er einstaklega fallegt útsýni yfir Rínardalinn. Eftir góðan tíma í Rüdesheim verður farið í ca. 2 tíma siglingu á Rín. Í siglingunni sjáum við ógleymanlegt landslag vínakra og kastala frá miðöldum. Komið verður að landi í vínbænum St. Goarshausen rétt hjá hinum 132 m háa Loreley kletti. Einmitt þessi hluti Rínardalsins var settur á heimsminjaskrá UNESCO vegna fjölda miðaldakastala sem er að finna á leiðinni.

5. október | Skoðunarferð um Wiesbaden & frjáls tími

Í dag verður farið í skemmtilega skoðunarferð um borgina Wiesbaden sem er höfuðborg Hessen. Borgina einkenna glæsilegar byggingar frá nýliðnum öldum, hallir og herragarðar, en hún er jafnframt kunn fyrir heilsuböð og hið glæsilega Casino sem staðsett er í miðbænum. Að skoðuninni lokinni verður frjáls tími til að rölta um miðbæinn, kíkja í verslanir eða setjast á kaffihús og fylgjast með mannlífinu. Um kvöldið er sameiginlegur kvöldverður á veitingastað í miðbænum.

Opna allt

6. október | Dagur í Heidelberg

Eftir morgunverð ökum við til Heidelberg sem er ein elsta háskólaborg Þýskalands. Borgin stendur á bökkum árinnar Neckar sem setur svip á þennan glæsilega gamla bæ. Miðbærinn er einstaklega glæsilegur með gömlum byggingum og fallegri dómkirkju og ekki skemmir rómantík Heidelberg hallarinnar sem trónir yfir borginni. Eftir skoðunarferð gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum áður en haldið verður aftur til Wiesbaden.

7. október | Frjáls dagur í Wiesbaden

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til þess að skoða Wiesbaden eftir eigin hentisemi, líta inn til hinna fjölmörgu kaupmanna borgarinnar og á skemmtileg kaffi- og veitingahús. Í bænum kennir margra grasa menningar og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum. Um kvöldið njótum við sameiginlegs kvöldverðar á einum veitingastað borgarinnar.

8. október | Heimferð frá Frankfurt

Að loknum morgunverði verður ekið til Frankfurt. Brottför þaðan er kl. 14:00 og lent verður í Keflavík kl. 15:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært skoðunarferðir milli daga eftir því sem þörf þykir, þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Heidelberg kastali

Heidelberg kastali

Wiesbaden

Wiesbaden

Wiesbaden

Wiesbaden

Wiesbaden

Wiesbaden

Horft yfir Rín

Horft yfir Rín

Rüdesheim

Rüdesheim

Cochen kastali

Cochen kastali

Eltz kastali

Eltz kastali

Lorely klettur

Lorely klettur

Heidelberg kastali
Wiesbaden
Wiesbaden
Wiesbaden
Horft yfir Rín
Rüdesheim
Cochen kastali
Eltz kastali
Lorely klettur

Fararstjórn

Sigrún Sól Ólafsdóttir

Sigrún Sól Ólafsdóttir er fædd árið 1968 á Selfossi þar sem hún ólst upp en lagðist snemma í ferðalög víða um heim en festi svo rætur við Elliðavatn þar sem hún býr ásamt þremur sonum sínum. Sigrún er leikkona, leikstjóri og leiðsögumaður að mennt og starfaði við leiklist í mörg ár. Hún lauk mastersnámi í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2012 og fór í framhaldsnám í menningarsamskiptum til Berlínar í Þýskalandi árið 2012 - 2013. Hún rekur nú eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í námskeiðshaldi og leikaravali fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Sigrún starfar einnig sem leiðsögumaður á Íslandi, bæði með ensku og þýskumælandi ferðamenn.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir