Sigling frá Pétursborg til Moskvu

Í þessari sérlega spennandi ferð til Rússlands gefst einstakt tækifæri til að skoða það helsta sem þetta stórbrotna land hefur upp á að bjóða. Gist verður allar næturnar um borð í huggulega fljótaskipinu MS N. Chernichevsky og verða skoðunarferðir farnar frá því.

Flogið verður til Helsinki og ekið til Pétursborgar. Borgin er ótvírætt miðstöð menningar og lista í Rússlandi en margir telja hana eina fallegustu borg í heimi. Í Pétursborg munum við skoða Vetrarhöllina og virki Péturs og Páls svo eitthvað sé nefnt. Eftir áhugaverða daga siglum við með fljótaskipi áleiðis til höfuðborgarinnar Moskvu. Á leið okkar þangað skoðum við ýmsa áhugaverða og sögufræga staði, s.s. Kizhi eyjuna, Yaroslavl, Goritsy, Uglich og Mandrogi. Við dveljum í Moskvu í tvo daga og skoðum það merkilegasta sem borgin hefur upp á að bjóða. Saga Rússlands er heill heimur ævintýra og um leið og við skoðum landið fáum við að skyggnast inn í þá forvitnilegu veröld.

Verð á mann 348.800 kr. í tveggja manna káetu á miðju þilfari.

Aukagjald fyrir einbýli 33.700 kr. 

Aukagjald fyrir delux káetu á aðal þilfari er 17.800 kr. á mann í tvíbýli.
Ekki er hægt að fá einbýli á aðal þilfari.

Aukagjald fyrir delux káetu á efra þilfari er 36.000 kr. á mann í tvíbýli.
Ekki er hægt að fá einbýli á aðal þilfari.

Innifalið

 • 10 daga ferð
 • Allt flug og flugvallarskattar samkvæmt ferðalýsingu.
 • Rútuferð frá Helsinki til Pétursborgar.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Sigling með fljótaskipinu MS N. Chernichevsky frá Pétursborg til Moskvu.
 • Gisting í tveggja manna káetum með baði.
 • Morgunverður.
 • 10 kvöldverðir.
 • 9 hádegisverðir.
 • 1 glas af rauðvíni, hvítvíni eða safa með kvöldverði.
 • 1 vatnsflaska daglega (0,33l).
 • Kynning á vodka drykkjuvenjum í Rússlandi.
 • Staðarleiðsögn.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Vegabréfsáritun til Rússlands.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. ágúst | Flug til Helsinki og ekið til Pétursborgar

Flug með Icelandair frá Keflavík kl. 7:30. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2 klst. fyrir brottför. Lending í Helsinki kl. 13:50 að staðartíma. Ekið verður með rútu til Pétursborgar. Ferðin tekur um 5 klst. og verður stoppað á leiðinni til að fá sér hressingu. Þegar við komum til Pétursborgar stígum við um borð í skipið okkar MS N. Chernichevsky og komum okkur vel fyrir í káetum. Þar bíður okkar kvöldverður.

25. ágúst | Vetrarhöllin & Hermitage safnið

Eftir morgunverð verður haldið í skoðunarferð um borgina þar sem við skoðum m.a. virki Péturs og Páls en þar voru allir meðlimir Rómanov ættarinnar grafnir. Eiginlega má rekja upphaf borgarinnar til virkisins sem Pétur mikli lét reisa. Eftir hádegisverð verður farið í Vetrarhöllina sem var byggð á árunum 1754–1762 og var heimili rússnesku keisaranna. Höllin hýsir í dag Hermitage safnið, sem er annað mesta listaverkasafn í heimi og geymir um 3 milljónir listmuna. Við skoðum safnið, sem státar m.a. af verkum eftir Rembrant og Picasso.

26. ágúst | Pétursborg

Að morgunverði loknum munum við skoða Pétursborg örlítið betur, áður en við leysum landfestar og siglum áleiðis til Moskvu.

Opna allt

27. ágúst | Mandrogi & frjáls tími

Komið verður til bæjarins Mandrogi sem er mjög vinsæll ferðamannastaður á vatnaleiðinni milli Pétursborgar og Moskvu. Í Mandrogi gefst frjáls tími fram eftir degi en þar er hægt að skoða Vodkasafnið, forna rússneska byggingarlist, lítinn dýragarð og fleira áhugavert.

28. ágúst | Kizhi eyjan

Nú verður komið til sögufrægrar eyjar í Onegavatni sem heitir Kizhi og er ákaflega spennandi áfangastaður. Eyjan er 7 km löng, hálfur kílómetri á breidd og er umkringd 5.000 eyjum sem eru af öllum stærðum og gerðum. Við skoðum skemmtilegt byggðasafn þar sem við kynnumst betur rússneskri byggingarlist, sjáum kirkju heilags Lazarus og annað áhugavert. Við dveljum í nokkrar klukkustundir á eyjunni og siglum því næst áleiðis til Goritsy. 

29. ágúst | Goritsy

Þegar við leggjum að landi í þorpinu Goritsy munum við stíga upp í rútu og keyra til bæjarins Kirillov en þar búa um 8.000 manns. Bærinn var stofnaður á 14. öld og hefur því að geyma mikla sögu. Hér er margt forvitnilegt að sjá, m.a. klaustrið St. Cyril sem liggur við Siverkoye vatnið ásamt áhugaverðu íkonasafni.

30. ágúst | Yaroslavl

Þennan dag siglum við áfram á mesta stórfljóti Rússlands, Volgu, til borgarinnar Yaroslavl. Borgin er ein af perlum Rússlands og hér munum við gefa okkur góðan tíma til að skoða það helsta. Borgin var stofnuð árið 1010 og býr yfir afar fallegum kirkjum frá 17. öld. Marga háskóla er að finna í borginni. 

31. ágúst | Uglich

Í dag komum við til bæjarins Uglich en þar búa um 40 þúsund manns. Við skoðum virki bæjarins og hlýðum á fallegan kirkjusöng. Hér kynnumst við sögunni af yngsta syni Ívans grimma en hann hét Dimitry prins og var myrtur af óvinum keisarans í þessum bæ. Saga Rússlands er mjög áhugaverð og vekur mann til umhugsunar á þessum áhugaverða stað. Þennan dag sem og fleiri í ferðinni munum við fá innsýn í þessa stórbrotnu sögu.

1. september | Moskva

Að loknum morgunverði höldum við í skoðunarferð um Moskvu. Við skoðum St. Basil dómkirkjuna, Rauða torgið og Kreml. Til gamans förum við einnig í verslunarmiðstöð enda má glögglega fá innsýn í líf borgarbúa með því að kíkja þar við. Komið verður aftur til skips um kvöldið. Áhugasamir geta farið í skoðunarferðir og leikhúsferðir á vegum skipafyrirtækisins, s.s. Moskva að nóttu, skoðunarferð í hina frægu neðanjarðarlest Moskvuborgar, þjóðdansasýning o.fl.

2. september | Moskva

Í dag höldum við áfram að kanna Moskvuborg. Íbúar borgarinnar telja um 11 milljónir en á stór-Moskvusvæðinu búa tæpar 15 milljónir sem gerir borgina að þeirri stærstu í Evrópu. Moskva er miðstöð samgangna í lofti, á landi og á vatnaleiðum. Borgin er einnig miðstöð stjórnmála og menningar allra landsmanna.

3. september | Heimferð um Helsinki

Eftir morgunmat er farið á flugvöllinn í Moskvu og flogið til Helsinki kl. 10:45 en þar er lent kl. 12:35 að staðartíma. Flogið áfram með Icelandair kl. 15:35 og lent í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pétur Óli Pétursson

Pétur Óli Pétursson er sérfróður um Pétursborg og Rússland. Hann hefur búið í mörg ár í borginni og er einn fárra Íslendinga á þessum slóðum, en þar á hann og rekur fyrirtæki. Hann hóf fyrir mörgum árum, eiginlega fyrir tilviljun, að taka á móti íslenskum hópum og vinna sem fararstjóri. Í dag er Pétur Óli án efa þekktasti íslenski fararstjórinn í Pétursborg. 

Skip

MS Chernyshevsky

Skipið MS Chernyshevsky var smíðað árið 1987 og gert upp árið 2017. Skipið er 129 m á lengd, í því eru 154 káettur sem eru allar með glugga, sérbaðherbergi, ísskáp og loftkælingu. Um borð er einnig að finna veitingastað, danssal, 2 bari, minjagripaverslun, sauna, sólbaðsstofu, þvottaþjónustu og sóldekk.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00