Hjólað við Gardavatn

Gardavatn hefur lengi verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga og nú bjóðum við upp á hjólaferð við vatnið. Hið sægræna Gardavatn er stærsta stöðuvatn Ítalíu eða um 370 km2 og er það umvafið ægifögrum fjallgörðum. Þetta er einstakur staður þar sem gestir geta notið stórkostlegrar náttúrufegurðar í bland við bæði hreyfingu og afslöppun. Á hjólunum kynnumst við þessu hrífandi svæði á þægilegum hraða en hjólað verður í gegnum friðsæl þorp á borð við Valeggio og Borghetto. Við komum við í einum aðalvínræktar- og baðstrandarbæ Gardavatns, Bardolino, en á leiðinni þangað verða á vegi okkar frjósamar vínekrur og falleg ólífutré hvert sem litið er. Við hjólum til Verona og förum í skoðunarferð um miðborgina. Suma daga verður siglt eða farið með rútu aðra leiðina. Gist verður á 4* hóteli í útjaðri bæjarins Garda. Hótelið er með sundlaugargarði og sólbaðsaðstöðu, ásamt dásamlegri heilsulind þar sem gott er að láta líða úr sér eftir góðan hjóladag. 

Verð á mann í tvíbýli 236.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 29.700 kr.

 
Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallar í Mílanó og hótelsins við Gardavatn.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelinu.
 • Hjólaprógramm í 5 daga.
 • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
 • Bátsferð frá Peschiera til Garda.
 • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 26.300 kr. í 6 daga.
 • Leiga á rafhjóli 31.900 kr. í 6 daga.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 35 - 45 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flogið til Mílanó 10. júní 2019

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 10. júní. Brottför frá Keflavík kl. 13:55 en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 19:40 að staðartíma. Gera má ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á gististað taki um 3 klst. Þann 17. júní ferjar rúta okkur til Mílanó en þaðan verður flogið kl. 20:40. Lending á Íslandi kl. 22:55 að staðartíma.

Um svæðið

Gardavatnið eða Lago di Garda á móðurmálinu er stærsta stöðuvatn Ítalíu og liggur í skjóli Alpanna fyrir norðan og Pósléttunnar fyrir sunnan. Norðurbakkinn er umlukinn 2000 metra háum fjöllum, líkt og Monte Baldo fjallgarðinum á meðan lágsléttan við suðurbakkann tekur við. Gardavatnið er vinsæll ferðamannastaður og er norðurhlutinn einkar vinsæll á meðal klifur-, hjólreiða- og göngufólks. Í nágrenni vatnsins er ræktun ýmiskonar, m.a. ólífur og sítrónur við austur- og suðurbakkann og vín við norðurbakkann, en á meðal þekktra vínhéraða má nefna Bardolino og Valpolicella. Loftslagið við vatnið er miðjarðarhafsloftslag og er meðalhiti ársins á milli 13°C og 15°C. 

Tillaga að dagleiðum 11. – 16. júní

Hjalti Kristjánsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

Opna allt

Dagleið 1 | Vínekrurnar við Bardolino

Notalegur hjólatúr um vínekrurnar sem umlykja Gardavatnið og Bardolino. Svæðið er frægt fyrir vínframleiðslu sína og fallegu ólífutrén sem finna má allt í kring. Við þræðum litla bæi á leið okkar til Bardolino. Þessi fyrrum fiskibær er nú einn aðal vínræktar- og baðstrandarbær Gardavatns og er bæði líflegur og skemmtilegur heim að sækja.

 • Vegalengd: ca 45 km
 • Hækkun: 500 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 2 | Verona

Í dag verður hjólað til Veróna, elstu borgar Norður-Ítalíu þar sem farið verður í skoðunarferð með innlendan leiðsögumann í fararbroddi. Veróna er borg menningar og lista en frægust er hún sem sögusvið leikrits Shakespeare um Rómeó og Júlíu. Ekki missa af þriðja stærsta hringleikahúsi veraldar eða torginu Piazza delle Erbe með sínum fögru byggingum og minnisvörðum. Allur miðbær Veróna er skráður á heimsminjaskrá UNESCO og ekki að ástæðulausu. Farið verður með rútu frá Veróna aftur til Gardavatns.

 • Vegalengd: ca 38 km (möguleiki að lengja ferðina um 10 km)
 • Hækkun: 170 m
 • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

Dagleið 3 | Valeggio sul Mincio og Peschiera ásamt siglingu

Haldið verður í suðurátt og farið í gegnum nokkur dásamleg lítil þorp en þar má nefna Borghetto og Valeggio sem liggja á bökkum Mincio árinnar. Borghetto er lítill ævintýralegur bær þar sem m.a. má finna hina sögufrægu Visconti brú. Hún var byggð árið 1393 af hertoganum af Mílanó, að því er talið til að beina ánni Mincio í aðra átt og leggja þannig undir sig borgina Mantua. Brúin var byggð á aðeins tveimur árum en hún var tengd við best varðveitta kastala Ítalíu, Scaliger kastalann, og varð þá hluti af virkisvegg þorpsins. Í júní ár hvert bjóða þorpsbúar allt að 4000 manns til kvöldverðar á brúnni. Þorpið Valeggio er frægt fyrir heimagert tortellini og því sjálfsagt að nota tækifærið og bragða á því. Við gefum okkur tíma til að kanna þessa friðsælu smábæi og tökum svo bát aftur til baka.

 • Vegalengd: ca 45 km (möguleiki á að lengja ferðina um 15 km með því að sleppa bátsferðinni og hjóla til baka á hótel)
 • Hækkun: 100 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 4 | Valpolicella hæðirnar og vínsmökkun

Farið verður með rútu til San Pietro í Cariano, sögufrægs þorps í hjarta Valpolicella þar sem finna má leifar frá rómverskum tímum. Þaðan verður hjóluð falleg leið yfir hæðir Valpolicella en búið hefur verið á þessu svæði frá því á forsögulegum tímum. Mikið af fornmunum hafa fundist á svæðinu og eru margir þeirra varðveittir á safninu Museo Lapidario Maffeiano í Veróna, elsta almenna bókasafni í Evrópu. Hjólað verður fram hjá mörgum heillandi, litlum þorpum og má þar m.a. nefna Arbizzano, Parona og Valgatara. Svæðið er þekkt fyrir vínrækt og geta þeir sem vilja nýtt tækifærið og farið í vínsmökkun.

 • Vegalengd: ca 35 km (möguleiki að lengja ferðina um 20 km)
 • Hækkun: 570 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið til erfið

Dagleið 5 | Útsýnisferð yfir Gardavatnið

Frá hótelinu liggur leið okkar í hjólaferð sem býður okkur upp á frábært útsýni, m.a. yfir allt Gardavatnið. Hjólaður verður hringur þar sem fyrsta stopp er San Vigilio höfðinn. Þar er sjarmerandi lítill bær þar sem finna má sítrónualdingarð og mikinn fjölda sýprus- og ólífutrjáa. Það er ekki að undra að Winston Churchill hafi eytt fríum sínum á þessum dásamlega stað eftir að hann komst á eftirlaun. Áfram verður haldið og m.a. hjólað í gegnum lítil þorp og má þar nefna Torri del Benaco, Albisano og Marciaga.

 • Vegalengd: ca 35 km (möguleiki að lengja ferðina um 10 km)
 • Hækkun: 640 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið til erfið

Frídagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða, slappa af við sundlaugina eða kynna sér nágrenni Gardavatns á eigin vegum. Til dæmis er hægt að fara með bát til hins fagra bæjar Sirmione sem er einn af vinsælustu áningarstöðunum við Gardavatn. Þar má meðal annars finna glæsilegan kastala sem byggður var á 13. öld en Sirmione hefur verið í byggð síðan á steinöld.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel Poiano

Gist verður í 7 nætur á 4* hótelinu Hotel Poiano sem staðsett er í mörgum notalegum byggingum við Gardavatn. Kvöldverðir og morgunverðir eru í formi hlaðborðs. Á hótelinu er heilsulind þar sem hægt er að slaka á eftir útiveru dagsins. Þar má finna sundlaug, tyrkneskt gufubað, sánu og líkamsræktaraðstöðu. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Einnig er hótelið með legubekki á veröndinni við sundlaugina. Herbergin eru öll með svölum, sturtu, hárþurrku, loftkælingu, míníbar og öryggishólfi.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir