Bilbao & Bordeaux

Sérlega skemmtileg ferð um Spán og Frakkland sem einkennist af glæstum borgum, sjávarbæjum og dásamlegri náttúrufegurð.

Við hefjum ferðina í Madríd, höfuðborg Spánar, ferðumst um Baskahéraðið á Norður-Spáni og njótum nærveru Cantabria fjalla á leið til Burgos, einnar sögufrægustu borgar á hinum þekkta Jakobsvegi. Í líflegu borginni Bilbao skoðum við hið fræga Guggenheimsafn og ökum með ströndinni til San Sebastian, þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna og virðum fyrir okkur perluhvítan sandinn á Bahía de la Concha ströndinni við Biscaya flóann. Frá Bordeaux, höfuðborg Aquitania héraðsins, verður haldið í töfrandi siglingu en frá ánni skín borgin eins og glitrandi perla. Siglt verður til Blays en þar skoðum við stjörnulagað virki frá tímum Lúðvíks fjórtánda. Á leið okkar til Orléans, höfuðborgar Loire héraðsins, verður áð í Tours og í Villandry skoðum við Villandryhallargarðinn; einn fegursta hallargarð Frakklands. Í dagsferð frá Orléans skoðum við Chambord höllina, eina af tilkomumestu og stærstu höllum landsins, og heimsækjum einnig fallega bæinn Blois við Loire fljótið.

Verð á mann í tvíbýli 324.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 119.900 kr.


Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður.
 • 9 kvöldverðir.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Tveir kvöldverðir í Orléans.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, spilavíti og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Guggenheimsafnið ca € 25.
 • Sigling á Garonne ánni ca € 40.
 • Chambord höll ca € 15.
 • Villandry garðurinn ca € 11.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

15. september | Flug til Madríd

Brottför frá Keflavík kl. 16:15. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Madríd kl. 22:20 að staðartíma. Í Madríd verður gist í tvær nætur á hóteli í miðborginni. 

16. september | Skoðunarferð um Madríd

Madríd er höfuðborg Spánar og situr á miðjum Iberíuskaganum í 667 m hæð yfir sjávarmáli. Fallega skreytt hús og byggingar frá Habsborgaratímanum vekja verðskuldaða athygli. Við byrjum á að fara í skoðunarferð um áhugaverðustu staði borgarinnar en síðan gefst góður tími til að njóta þess sem borgin hefur upp á bjóða á eigin vegum. Listasöfn borgarinnar eru víðfræg og er El Prado þar fremst í flokki. Einnig er áhugavert að virða fyrir sér glæsilegu konungshöllin El Palacio Real. Loks er einstaklega gaman að rölta um þessa líflegu borg og njóta spænskra veitinga á spennandi kaffihúsum, börum eða veitingahúsum. Kaupmennirnir láta heldur ekki sitt eftir liggja. Kvöldverður á eigin vegum.

17. september | Madríd, Burgos & Bilbao

Nú kveðjum við Madríd og höldum út á hásléttuna með fjallatindana við sjóndeildarhringinn. Áð verður í miðaldaborginni Burgos í sjálfsstjórnarhéraðinu Castille-León. Þetta er ein af sögufrægustu borgunum á Jakobsveginum. Hér hafa varðveist merk ummerki frá blómaskeiði borgarinnar á miðöldum. Eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar er dómkirkjan sem áhugavert er að skoða. Farið verður í stutta skoðunarferð og eftir það verður gefinn tími til að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa. Ekið verður áfram til hafnarborgarinnar Bilbao í Baskahéraði þar sem gist verður í fjórar nætur á góðu hóteli í miðbænum. 

Opna allt

18. september | Bilbao & Guggenheimsafnið

Bilbao er iðnaðarborg og ein helsta hafnarborg Spánar. Eitt frægasta kennileiti borgarinnar er hið fræga Guggenheim listasafn sem hannað var af Frank Ghery. Farið verður í fróðlega skoðunarferð en söguleg arfleið og menning sést vel á arkitektúr og glæsilegum byggingum sem skreyta elsta hluta borgarinnar. Við endum skoðunarferðina á Guggenheimsafninu en eftir það er tilvalið að endurnærast á einum af vínbörunum eða tapas veitingastöðunum sem borgin er þekkt fyrir.

19. september | Skoðunarferð til San Sebastian

Í ferð dagsins liggur leið okkar meðfram fallegri strönd til San Sebastian við Biscaya flóann. San Sebastian bærinn er svo sannarlega réttnefndur perla flóans en baðströndin Bahía de la Concha hefur verið einn þekktasti ferðamannastaður Baskahéraðs allt frá 19. öld. Lögun strandarinnar minnir á skel og gerir bæjarstæðið undurfagurt. Við förum í skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna sem dvelja hér ár hvert meðan á kvikmyndahátíð stendur. Að skoðunarferðinni lokinni gefst tími til að njóta lífsins og skoða sig betur um í borginni.

20. september | Frjáls dagur í Bilbao

Frídagur í Bilbao. Upplagt að skoða borgina betur á eigin vegum og njóta þess að hafa nægan tíma til að rölta um götur hennar, sýna sig og sjá aðra. Áhugasamir geta litið inn á kaupmenn og á eitthvert hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa.

21. september | Biarritz & Bordeaux

Nú kveðjum við Spán eftir ljúfa og yndislega daga og förum til Frakklands. Ekin verður fögur leið með ströndinni inn til Biarritz í Frakklandi. Þetta heillandi borgarstæði er á milli klettóttrar Atlandshafsstrandarinnar og Píreneafjallanna í Baskalandi, en fegurð strandarinnar er efni í heilt myndaalbúm. Skoðum okkur um í þessum forna sjávarbæ sem áður dró til sín stjörnur og fyrirfólk. Upplagt að fá sér þar hressingu áður en ferð heldur áfram til Bordeaux, þar sem gist verður í þrjár nætur.

22. september | Sigling á Garonne & Blaye virkið

Nú gefst kostur á að fara í dásamlega siglingu á Garonne ánni þar sem við njótum þess að horfa á borgina og náttúrufegurðina í Bordeaux vínhéraðinu. Siglt verður til Blaye þar sem farið verður í land og gefst færi á að að fara í fróðlega skoðunarferð um stjörnulaga virkið Zitadell sem hannað var af Vauban, virkisbyggingameistara Lúðvíks XIV Frakklandskonungs. Einnig gefst tími til að rölta um í bænum Blaye. Síðan verður siglt til baka til Bordeaux.

23. september | Skoðunarferð í Bordeaux & frjáls tími

Bordeaux er höfuðborg samnefnds héraðs. Frá ánni skín borgin eins og glitrandi perla og við könnum borgina nánar. Í Bordeaux eru klassískar byggingar áberandi en þær leystu bindingsverkshúsin af hólmi á 18. öld. Þessar klassísku byggingar unnu borginni sess á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig er að sjá gotnesk meistaraverk í borginni, eins og St. Andre dómkirkjuna og hennar fíngerðu turna. Að lokinni skoðunarferð gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum og upplagt að líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir.

24. september | Villandry garðurinn, Tours & Orléans

Frá Bordeaux verður haldið til Orléans en á leiðinni þangað verður stoppað við Villandry höllina í Loire dalnum þar sem við skoðum garðinn, sem er alveg einstakur. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Tours, höfuðborgar Touraine héraðsins við ána Loire. Tours er borg heilags Martins sem var uppi á fjórðu öld en hann var tekinn í dýrlingatölu og varð borgin vinsæll pílagrímsstaður eftir andlát hans. Borgin var einnig þekkt fyrir silkivefnað á 15. og 16. öld en þá voru þar um 800 vefstólar og 20 þúsund vefarar. Hér verður ljúft að rölta inn í miðborg fá sér hádegishressingu áður en ekið verður til Orléans þar sem gist verður í þrjár nætur á góðu hóteli í miðborginni.

25. september | Skoðunarferð í Orléans

Orléans höfuðborg Loire héraðsins er á dagská hjá okkur í dag. Borgin er ein af gömlu háskólaborgunum með einkar litskrúðugt mannlíf. Nafn borgarinnar er órjúfanlega tengt nafni Jóhönnu af Örk, meyjarinnar frá Orléans. Hún kom þeim til bjargar þegar Englendingar sátu um borgina og enn er haldið upp á sigurdaginn 8. maí. Farið verður í góða skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar sem er með hrífandi gömul bindingsverkshús og þar er tákn borgarinnar, Cathedrale Ste-Croix dómkirkjan, sem er óskaplega falleg. Eftir þessa áhugaverðu skoðunarferð verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum.

26. september | Chambord & Blois

Ótal glæsihallir og kastalar verða á leið okkar í dag og við vöndum valið og skoðum það helsta. Byrjum á því að fara í hina stórkostlegu Chambord höll sem er næststærsta höll Frakklands á eftir Versalahöll. En við ætlum líka að gefa okkur tíma í fallegu borginni Blois við ána Loire. Við förum í töfrandi göngu um elsta hluta bæjarins en í bænum er stórglæsilegur kastali sem var uppáhaldsbústaður Lúðvíks 7. Kastalagarðurinn er líka dýrðlegur. Á 15. og 16. öld var borgin hallarborg og einn mikilvægasti verslunarstaður héraðsins.

27. september | Heimflug frá París

Eftir töfrandi og skemmtilega ferð verður ekið á flugvöll í París. Brottför frá París kl. 14:10 og lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steingrímur Gunnarsson

Steingrímur Gunnarsson er einn af okkar reynsluboltum í fararstjórn, enda hefur hann ferðast og dvalið langdvölum í ólíkum löndum, eins og t.d. Austurríki, Kína, Bólivíu, Giunea-Bissasu, Noregi og Spáni. Löndin sem hann hefur heimsótt erum komin yfir 80 talsins, og því má segja að hér sé maður með mikla reynslu í farteskinu þegar að ferðalögum kemur. Tungumál, saga og mismundandi landshættir hafa alltaf heillað hann og hafði töluverð áhrif á námsval hans, en Steingrímur er með cand.mag í tungumálum og bókmenntum frá Háskólanum í Osló ásamt mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum frá University of Salford og Celta nám frá University of Cambridge. Einnig má nefna kennsluréttindi frá Háskóla Íslands ásamt réttindum sem leiðsögumaður á Íslandi. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir