Namibía - land hinna huguðu

Komdu með í ævintýraför um Namibíu sem er sagt vera eitt öruggasta land Afríku. Þar kynnumst við hrjóstrugum og heillandi heimi eyðimerkursandanna og öðlumst innsýn í sögu, menningu og dýralíf þessa sérstæða lands. Í strjálbýlu landinu sem nær yfir rúmlega 800.000 km2 er að finna fjölskrúðuga menningu en þar búa ólíkir ættbálkar hver með sína siði og hefðir.

Við hefjum ferðina á því að halda inn í Namib eyðimörkina til Sossusvlei þar sem rauðar sandöldur teygja sig eins langt og augað eygir. Við förum í strandbæinn Swakopmund sem stendur við Suður-Atlandshafið og er umkringdur Namib eyðimörkinni úr þremur áttum. Bærinn, sem var byggður undir lok 19. aldar, þegar Namibía var þýsk nýlenda, er sagður þýskari en sjálft Þýskaland. Þar fá ferðalangar innsýn inn í ótrúlegt lífríki eyðimerkurinnar sem nærist á hafþoku sem leggst yfir á nokkurra daga fresti. Að því loknu verður farið norður á bóginn, til töfrastaðarins Twyfelfontein í Damaralandi, og skoðaðar ævafornar hellaristur Búskmanna, steingervingaskóg sem á engan sinn líka og lifandi safn Damaraættbálksins þar sem við kynnumst menningu og fornum lifnaðarháttum þessarar þjóðar. Að síðustu liggur leið okkar í Etosha þjóðgarðinn með sínu fjölskrúðuga dýralífi en þar má m.a. sjá fíla, nashyrninga, ljón og gíraffa. Það er engu líkt að sitja í ljósaskiptunum við vatnsbólið og sjá dýrin safnast saman við lindina og drekka. Þá stendur tíminn kyrr. Namibía er með stórkostlega náttúru, dásamlega villibráð og dramatíska sögu regnbogaþjóðar. Þaðan fer enginn ósnortinn.

Verð og nánari upplýsingar væntanlegt

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00