Namibía - land hinna huguðu

Komdu með í ævintýraför um Namibíu þar sem við kynnumst hrjóstrugum en heillandi heimi eyðimerkursandanna og öðlumst innsýn í menningu og dýralíf þessa sérstæða lands.

Fjölskrúðuga menningu er að finna í strjálbýlu landinu sem nær yfir rúmlega 800.000 km2 en þar búa ólíkir ættbálkar hver með sína siði og venjur. Yndislegi strandbærinn Swakopmund tekur á móti okkur umkringdur Namib eyðimörkinn úr þremur áttum en þýskra áhrifa gætir í bænum sem var byggður undir lok 19. aldar á þeim tíma sem Namibía var þýsk nýlenda. Við höldum inn í eyðimörkina til Sossusvleis þar sem rauðar sandöldurnar teygja sig hátt til himins og skapa stórkostlega sýn þar sem þær ber við bláan himininn. Leið okkur liggur í Etoshi þjóðgarðinn með sínu fjölskrúðuga dýralífi, bæði stórra dýra sem smárra. Í þessum fjölbreytta hópi sem telur um 340 tegundir fugla og 114 tegundir spendýra, má m.a. sjá fíla, nashyrninga, ljón, gíraffa, hlébarða og sebrahesta sem skapa magnþrungið sjónarspil þegar þau safnast saman við lindirnar í þjóðgarðinum. 

Verð á mann í tvíbýli 599.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 77.800 kr.

 
Innifalið

 • Áætlunarflug með Icelandair: Keflavík – Frankfurt – Keflavík.
 • Áætlunarflug með Air Namibia: Frankfurt – Windhoek – Frankfurt.
 • Flugvallaskattar fyrir alla ferðina.
 • Akstur til og frá flugvelli í Windhoek.
 • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu í loftkældri rútu.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Tvær jeppasafaríferðir í Etosha þjóðgarðinum.
 • Gisting í 12 nætur í tveggja manna herbergjum á góðum milliklassa hótelum, samkvæmt landsmælikvarða.
 • Sjá í ferðalýsingu hvaða máltíðir eru innifaldar.
 • Enskumælandi staðarleiðsögn.
 • Töskuburður á hótelum.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Þjórfé fyrir erlendan staðarleiðsögumann og rútubílstjóra.
 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. apríl | Flug til Frankfurt

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 og lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Þaðan verður flogið til Namibíu í næturflugi, brottför kl. 20:10 og lending í Windhoek kl. 06:30 að staðartíma þann 14. apríl. Næturflugið tekur ca. 10,5 klst.

14. apríl | Komið til Windhoek

Við lendum á Windhoek Hosea Kutako flugvelli í Windhoek, höfuðborg Namibíu kl. 06.30. Að loknu hefðbundnu eftirliti og skoðun er hópnum safnað saman og hann fluttur á hótel í borginni. Eftir hádegi verður skoðunarferð um borgina. Hún er í 1.700 m yfir sjávarmáli og stækkar ört. Íbúum hefur fjölgað jafnt og þétt vegna stöðugs flutnings fólks frá hinum ýmsu héruðum landsins og er fjöldi þeirra nokkuð yfir 300 þúsund. Eftir skoðunarferð getum við slakað á við sundlaugina eða rölt um og skoðað nánasta umhverfið.

Gisting 1 nótt.

 • Kvöldmatur

15. apríl | Windhoek – Sossusvlei Lodge

Við kveðjum höfuðborgina að loknum góðum morgunverði og stefnum í átt að Gamsberg en það er eitt hæsta fjall landsins, tæpir 2.400 metrar. Brátt tekur við magnaður fjallvegur og þegar hæsta kafla hans er náð er útsýnið stórkostlegt. Gróður er eðlilega kyrkingslegur í svo mikilli hæð, lágir runnar víðast og ýmsar grastegundir má helst finna innan um flatar klappir, stöku kletta og sand. Leiðin niður skarðið er tilkomumikil, vegurinn hlykkjast niður hlíðarnar, það styttist í hádegismat. Við komum til Solitaire sem er smábyggð við rætur fjallgarðsins. Hér finna allir eitthvað við sitt hæfi, gott að fá sér hressingu áður en lagt verður í lokaáfanga dagsferðarinnar. Að lokinni áningu er stefnan tekin á Sossusvlei Lodge en þangað liggur leiðin um eyðimörk sem einkennist á misháum sandöldum sem eru á bilinu 80 til 110 metrar á hæð. Við komum á náttstað um miðjan dag og því gefst tækifæri til að hvílast við sundlaug staðarins eða rölta aðeins um nánasta umhverfi hótelsins. Þegar húmar að kvöldi lýsa gullnir sólargeislar himininn og rökkur læðist yfir eyðimörkina allt um kring þegar við setjumst saman til borðs og njótum kvöldverðarins.

Gisting 2 nætur.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur
Opna allt

16. apríl | Sossusvlei Lodge

Við erum árla á fótum þennan morgun, komin á ról fyrir dögun því hugmyndin er að fara út í eyðimörkina til að upplifa fyrstu sólargeislana leika um sandöldurnar. Sjónarspil gullins sands og dökkra skugga morgunsins er engu líkt. Léttur göngutúr upp á eina ölduna til að upplifa þessa einstöku dagrenningu, rölta svo áfram að Deadvlei sem er þurr og litlaus tjarnarbotn á þessum árstíma. Misþykkir trjástofnar standa upp úr sprungnum leirbotninum, hér finnst ekkert líf en myndefnið er dæmalaust. Allt um kring blasa við gullnar sandöldur, baðaðar í morgunsólinni. Við fáum hressingu, nokkurs konar miðmorgunmat, eftir þessa mögnuðu upplifun. Áfram heldur för og við komum til Sesriem Canyon, gljúfri, sem geymir vatnsból, einn fárra staða í eyðimörkinni. Ekki útilokað að hér sé eitthvað dýralíf. Það er nokkuð liðið dags þegar við snúum til baka á náttstað eftir ævintýralegan dag.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

17. apríl | Sossusvlei Lodge - Swakopmund

Við kveðjum þennan sælureit árla dags eftir góðan morgunverð og ökum í vestur í átt að Atlantshafi. Við komum til hafnarbæjarins Walvis Bay, lítill en snotur bær við hafið með rúmlega 60 þúsund íbúa. Hér verður skoðað. Við förum að lóni sem er verndarsvæði ýmissa fuglategunda svo sem flamingóa og pelikana. Selir skjóta upp kollinum og hnísur stökkva í öldurnar, svæðið er einhvers konar vin milli eyðimerkur og sjávar. Kynnum okkur saltvinnslu á einum stað áður en við höldum áfram á ákvörðunarstaðinn, Swakopmund sem er annar hafnarbær. Áður en komið er á hótel er ekið um bæinn sem skartar allmerkilegum byggingum, sumar hverjar aldargamlar. Þjóðverjar eiga heiðurinn á uppbyggingu á þessum stað en þeir voru athafnasamir seint á 19. öld á þessum slóðum. Bærinn varð til árið 1896 og bjuggu þýskir innflytjendur hér nokkuð fjölmennir lengi vel. Þess vegna heyrist þýska enn á stræti og torgum. Við skráum okkur á hótel og þeir sem hug hafa á skoðunarferðum heimamanna ættu að grípa tækifærið það sem eftir lifir dags og finna eitthvað spennandi til að skoða af landi, hafi eða úr lofti. Kvöldmatur á eigin vegum.

Gisting í 2 nætur.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur

18. apríl | Swakopmund – Frjáls dagur

Nafnið Swakopmund er dregið úr máli innfæddra, xwaka merkir flóðhestur og op er á. Í dag gefst tækifæri til að skoða staðinn og allt það sem hann hefur upp á að bjóða. Þeir sem bókuðu skoðunarferð drífa sig af stað, aðrir sem ekkert sérstakt hafa í huga geta gengið eftir ströndinni, skoðað byggðarsafn eða sædýrasafn, litið við á einhverju hinna fjölmörgu kaffihúsa og kíkt á kaupmenn. Þegar líður á daginn er rétt að huga að kvöldverði, finna einhvern ákjósanlegan veitingastað og njóta kvöldsins yfir einhverjum gómsætum rétti heimamanna.

 • Morgunmatur

19. apríl | Swacopmund - Twyfelfontein

Að loknum morgunverði er lagt af stað snemma dags og byrjað á að aka norður eftir ströndinni. Tígulegar öldur Atlantshafsins skella á ströndinni og minna á ógnarkraft hafsins en á hina hönd birtist eyðimörkin á ný, þurr og sendin. Við heimsækjum sellátur á einum stað, ótrúlegur fjöldi sela samankominn á þessum stað. Kveðjusund rennur upp skömmu síðar þar sem veð breytum stefnu, skiljum Atlandshafið eftir fyrir aftan okkur og stefnum á hæsta tind Namibíu, Brandberg, sem er rúmlega 2.500 metrar á hæð. Ökum hjá þessu magnaða fjalli í héraði þar sem dafna ýmsar tegundir eyðimerkurjurta og dýrategundir eins og fílar og nashyrningar. Að loknum hádegisverði ökum við til Twyfelfontein, sem þekkt er fyrir afar merkar steinaristur, listaverk sem San ættbálkurinn gerði fyrr á öldum. Svæðið allt er þeim heilagt.

Gisting 2 nætur.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

20. apríl | Damaraland – Dagsferð

Að loknum morgunverði er skoðunarferð um héraðið. Gamalt nafn á landinu hér er Damaraland og er dregið af ættbálknum Damara sem hér bjuggu. Ferðin tekur um fjórar stundir og við hverfum aftur í tímann þegar við skoðum fornar steinristur og lærum heilmikið um það mannlíf sem eitt þreifst á þessum stað. Hér er margt að skoða, merkar fornminjar, sérstakt landslag og áhugavert dýralíf því fílar eru algengir á þessum slóðum svo og nashyrningar og auðvitað ýmsar smærri tegundir. Að lokinni einkar áhugaverðri skoðunarferð er snúið til baka og að loknum léttum hádegsiverði gefst tími til að skoða eitt og annað á eigin vegum. Þeim sem þyrstir í frekari skoðunarferðir í dag skal bent á náttúruskoðunarferð heimamanna síðdegis.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur

21. apríl | Etosha þjóðgarðurinn

Í dag verður enn farið á nýjar slóðir, þessi dagur að mestu leyti helgaður villtum dýrum Afríku. Við tökum stefnu í austur þar sem einstakur þjóðgarður bíður okkar. Í þessum heimshluta hafa dýr merkurinnar þraukað öldum saman, lært á duttlunga náttúrunnar, veður og vinda. Etosha þjóðgarðurinn er vin í mikilli eyðimörk fyrst og fremst vegna vatnsbóla sem sjaldan eða aldrei þorna. Þangað leita dýrin í brennandi hita bæði til að kæla sig og líka til að svala þorsta, hundruð ólíkra tegunda spendýra standa hlið við hlið í sömu erindum. Við skoðum þennan einstaka stað, gefum okkur góðan tíma til að kynnast hegðun dýranna og taka myndir. Við komum síðdegis til náttstaðar okkar, Okaukuejo Camp, sem er nærri einu vatnsbólanna. Þar er ótrúleg upplifun að sitja úti við sólarlag og fylgjast með villtum dýra undirbúa sig fyrir nóttina.

Gisting 3 nætur.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

22. & 23. apríl | Skoðunarferðir um Etosha þjóðgarðinn

Næstu tvo daga nýtum við vel til að skoða þjóðgarðinn nánar og af nógu er að taka. Hér fer saman merkileg jarðfræði, ótrúleg náttúruundur og svo einstakt dýralíf. Garðurinn er um 22.000 km2 að stærð og verða dagsferðir næstu tvo daga á ólíka staði. Byrjum hvorn dag snemma til að ná dýrunum á ferðinni áður en þau láta undan sólarhitanum og skríða í skugga. Etosha þjóðgarðurinn er einn merkilegasti þjóðgarðurinn í sunnaverðri Afríku með ótrúlega margar tegundir villtra dýra. Hér finnast m.a. ljón, fílar, nashyrningar, sebrahestar, gíraffar, antilópur, blettatígrar auk um 340 tegunda fugla svo ekki veitir af tveimur dögum til að kynnast þessu öllu. Dagsferðum lýkur tímanlega til að undirbúa notalega stund úti við til að fylgjast með dýrunum við vatnsbólin. Hádegisverður er snæddur báða daga í skoðunarferðunum en kvöldverður er á eigin vegum.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur

24. apríl | Etosha Pan - Okahandja

Enn og aftur erum við snemma á fótum til þess að fylgjast með dýrunum í morgunkulinu. Í dag er förinni heitið til Etosha Pan, sem er sérstakur staður í þjóðgarðinum og minnir í raun um margt á pönnu því botn þessa láglendis er svo þurr, nánast skrælnaður. Samt finnast hér dýr sem einhvern veginn draga fram lífið og hafa aðlagst þessum sérstöku aðstæðum. Stöku skugga á hreyfingu bregður fyrir sjónir, þar er dýr á ferð í fjarska. Við kveðjum síðan þjóðgarðinn stórkostlega og ökum í snotran lítinn bæ, Otjiwarongo, þar sem verður snætt á einhverjum veitingastað. Eftir hádegið höldum við áfram til Okahandja sem er nálægt Windhoek en þar verður gist rétt fyrir utan bæinn í 2 nætur.

Gisting 2 nætur.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

25. apríl | Okapuka búgarður – Frjáls dagur

Það styttist í ferðalok og því verður ljúft að geta tekið því rólega en ferðalangar geta ráðstafað þessum lokadegi að vild. Heimamenn bjóða upp á ferðir í opnum bílum að bústað sjaldgæfara tegunda sem vert er að gefa gaum. Þá er boðið upp á fjallaferð og sólsetursferð.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

26. apríl | Heimferð

Frjáls tími fram eftir degi. Rýma þarf herbergin um hádegi, en hótelið getur geymt farangur okkar áfram. Síðdegis verður haldið á flugvöllinn í Windhoek. Brottför með næturflugi til Frankfurt kl. 21:50 að staðartíma og lendum við í Frankfurt kl. 08:15 næsta dag, 27. apríl. Flugið til tekur um 10,5 klst.

 • Morgunmatur

27. apríl | Frankfurt & flug heim

Lent í Frankfurt kl. 08:15 um morguninn. Flogið áfram heim kl. 13:25 að staðartíma og áætluð lending í Keflavík kl. 16:00.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00