6. – 13. september 2022 (8 dagar)
Töfrandi ferð um Móseldalinn þar sem rómantík og náttúrufegurð lætur engan ósnortinn. Við dveljum í elstu borg Þýskalands, Tríer, hinni öldnu borg Rómverja sem er rík af sögu og fornminjum. Bestu dæmin um stórveldistímann er hliðið Porta Nigra og Kaiserthermen, baðhús Rómverja. Heillandi ferðir verða frá Tríer, m.a. til bæjarins Bernkastel-Kues sem er andlit Móseldalsins og er rómaður fyrir falleg bindingsverkshús og blæ miðaldanna. Einnig verður komið til bæjarins Rüdesheim sem er alger perla við ána Rín í Rínardalnum. Þaðan er hægt að fara með kláfi yfir vínhæðir og upp að minnisvarða um sameiningu Þýskalands. Borgin Koblenz verður heimsótt, yndisleg borg sem stendur við ármót Mósel og Rín sem mætast við hið svokallaða Deutsches Eck. Þá verður farið í skemmtilega siglingu á Mósel. Einnig verður komið til fallega bæjarins Idar Oberstein en hann á sér áhugaverða sögu um gimsteina og státar af fögrum kastala sem gnæfir sem kóróna yfir bænum. Við trompum þessa glæsilegu ferð í stórhertogadæminu Lúxemborg sem flestir Íslendingar þekkja. Þar upplifum við töfra þessarar borgar sem á sér yfir 1000 ára sögu og menningu.