Ljósadýrð á Rín

7. - 14. september 2018 (8 dagar)

„Ljómar heimur, loga fagur“ verður sjálfsagt hægt að segja í þessari glæsilegu ferð um Rínar- og Móseldalinn. Samastaður okkar í ferðinni verður bæjarperlan Boppard við ána Rín. Bær þessi hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO í fjöldamörg ár. Við njótum hvers dags í þessari unaðslegu ferð og skoðum margt m.a. Koblenz, þar sem árnar Mósel og Rín mætast við hið svonefnda Deutsches Eck. Ekið verður um Rínardalinn, að klettinum Loreley og til Rüdesheim, eins vinsælasta ferðamannabæjar við ána. Einnig verður komið til Tríer sem er elsta borg Þýskalands, en þar er að finna merkilegar minjar frá tímum Rómverja. Vínbærinn Bernkastel Kues og fögur bindingsverkshús hans verða á vegi okkar, við heimsækjum gömlu höfuðborg landsins Bonn og Gutenberg borgina Mainz. Á leið okkar til heilsubæjarins Bad Neuenahr-Ahrweiler sjáum við frægu brúna í Remagen. Hápunktur ferðarinnar verður án efa Rhein in Flammen eða ljósadýrð á Rín, þegar farið verður i kvöldverðarsiglingu á Rín undir stórkostlegri  flugeldasýningu. Kastalar og virki svæðisins verða einnig lýst upp með logandi blysum á meðan við líðum eftir ánni framhjá bæjum á árbakkanum.

Verð á mann í tvíbýli 177.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 18.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður, utan einn, allan tímann á hóteli.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Ljósahátíðin á Rín, sigling, kvöldverður og flugeldasýning.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar aðrar en kvöldverðarsiglingin og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Svifkláfur í Rüdesheim ca. € 8.
 • Vínsmökkun í Boppard ca. € 10.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

7. september | Flug til Frankfurt - akstur til Boppard

Brottför frá Keflavík kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð amk 2 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:50 að staðartíma. Þaðan verður ekið til bæjarperlunnar Boppard í dalnum Obermittelrheintal, en bærinn og hans gersemar hafa í mörg ár verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Hér verður gist á góðu hóteli við ána Rín í 7 nætur. 

8. september | Dagur í Boppard & ljósadýrð á Rín

Við byrjum á að kanna okkar næsta nágrenni í bænum Boppard sem er einn þeirra fjölmörgu fornu, rómversku bæja sem standa á árbakka Rínar. Bærinn stendur í einu þekktasta Riesling vínhéraði dalsins. Við munum skoða St. Severus kirkjuna, minjar frá rómverskum kastala og sjá hina tignarlegu Kúrfurstahöll á bökkum árinnar. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími þangað til við höldum í kvöldverðarsiglingu á Rínarfljótinu. Við stígum upp í fljótabát með góðu útsýnisdekki og siglum eftir ánni Rín í átt að hinum fræga Loreley kletti, fram hjá köstulum, virkjum og bæjum upplýstum með logandi blysum. Á leiðinni njótum við stórkostlegrar flugeldasýningar sem heimamenn kalla „Rhein in Flammen“ eða ljósadýrð á Rín og gæðum við okkur á léttum kvöldverði um borð. 

9. september | Rínardalurinn, Loreley kletturinn & Rüdesheim

Í dag ökum við um Rínardalinn og kynnumst hans fegurstu stöðum nánar. Á leiðinni sjáum við heillandi landslag, kastala frá miðöldum, hugguleg þorp og munum líta hinn 132 m háa Loreley klett. Við stöldrum við í bænum Rüdesheim, sem er þekktur fyrir fallegu gömlu bindingsverkshúsin sín og líflegu götuna Drosselgasse. Þessi gata er heimsfræg fyrir einstakt andrúmsloft sem skapast þegar flutningur tónlistarmanna ómar frá fjölmörgum veitingahúsum götunnar. Tækifæri gefst fyrir áhugasama að fara með svifkláfi upp í vínhæðirnar fyrir ofan bæinn að minnisvarða sem byggður var seint á 19. öld til minningar um fyrri sameiningu Þýskalands. 

Opna allt

10. september | Töfrandi dagur í Koblenz

Ekið verður til Koblenz sem stendur við hið svokallaða Deutsches Eck, eitt fallegasta horn  Þýskaland, þar sem árnar Mósel og Rín mætast. Borgin er með elstu borgum landsins og spannar saga hennar rúmlega 2.000 ár. Gaman er að skoða elsta hluta miðbæjarins, en þar má m.a. finna fallegar kirkjur, þröngar götur og heillandi gömul hús. Eftir skoðunarferð verður frjáls tími til að kanna mannlíf borgarinnar á eigin vegum.

11. september | Tríer & Bernkastel –Kues í Móseldalnum

Dagurinn hefst á skemmtilegri skoðunarferð um Tríer sem er elsta borg Þýskalands. Þar er að finna merkilegar minjar frá tímum Rómverja. Keisarinn Ágústus stofnaði borgina, Augusta Treverorum á 16. öld f. Kr. eftir sigur sinn á Keltum sem þá voru fyrir í borginni. Það er margt að sjá í þessari fallegu borg, töfrandi kirkjur, fagrar byggingar í barokkstíl og borgarhliðið Porta Nigra frá 2. öld e. Kr. Að lokinni skoðunarferð verður frjáls tími til að skoða sig betur um í borginni á eigin vegum. Við snúum aftur í vínhéraðið og heimsækjum fallegan vínbæ við ána Mósel, Bernkastel-Kues. Þessi miðaldabær er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins en falleg bindingsverkshús setja einstakan svip sinn á bæinn. 

12. september | Bonn, Remagen & Bad Neuenahr-Ahrweiler

Ekið verður um hið svokallaða sjö fjalla svæði og til Bonnar, gömlu menningar- og höfuðborgar Vestur-Þýskalands. Bonn er fæðingarborg sjálfs Ludwig van Beethoven og er minning þessa mikla tónskálds í hávegum höfð með merku safni, minnsvarða og ýmsum kennileitum í borginni. Frá Bonn verður ekið um Remagen hérað, en þar er fræga brúin yfir Rín, sem Ameríkanar fóru yfir í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, en það varð mikilvægur áfangi í að ljúka stríðinu og hörmungunum sem því fylgdi. Við endum daginn í heilsubænum Bad Neuenahr-Ahrweiler, en þar gefst kostur á að  skoða sig um og fá sér hressingu. Í bænum eru tvö merkileg söfn sem áhugasamir geta kíkt við á, annarsvegar safnið um neðanjarðarbyrgi kalda stríðsins, en í birginu var innréttað heilt neðanjarðarríki með öllu búnaði, tækjum, tólum og vistum til þess að valin hópur mikilvægs fólks gæti dvalið þar ef kæmi til kjarnorkustyrjaldar. Hitt safnið geymir minjar um sögu Rómverja í Suður-Evrópu.

13. september | Boppard, Mainz & vínsmökkun

Eftir ys og þys undanfarinna daga er komið að kærkominni hvíld. Fram að hádegi er hverjum frjálst að njóta dvalarinnar á hótelinu, dást að fegurð Rínar á göngu eða kynnast bænum Boppard á eigin spýtur. Um hádegi verður ekið til Mainz sem oft er kölluð borg Gutenberg og hefur hún upp á margt að bjóða. Hér verður gefinn frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum. Á leiðinni til baka verður áð hjá vínbónda í nágrenni Boppard. Þar kynnumst við framleiðslunni og geta áhugasamir fengið að bragða á afurð vínbóndans.

14. september | Heimferð frá Frankfurt

Nú er komið að heimferð eftir dásamlega daga. Eftir morgunverð verður ekið til Frankfurt. Flug þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:35 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði til milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk Magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Frei Universität í Berlín.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir