Normandí & París

15. - 22. september 2017 (8 dagar)

Í þessari dásamlegu ferð liggur leið okkar um hið heillandi Normandíhérað og heimsborgina París. Við gistum í tveimur borgum á bökkum Signu, Rouen (Rúðuborg) og París. Rouen er sögufræg borg prýdd ýmsum merkum byggingum t.d. gömlum bindingsverkshúsum. Þaðan höldum við í skoðunarferðir að hvítum björgum Étretat, yndislega listamannabænum Honfleur við Signuósa og klettaeyjunni frægu Mont St. Michel, sem er ein af perlum Frakklands. Á leið til Parísar stoppum við í Giverny og sjáum þar hús og garð málarans fræga Claude Monet, sem hér málaði m.a. Vatnaliljurnar. Í París verður farið í áhugaverðar skoðunarferðir um helstu staði borgarinnar eins og Eiffelturninn, Louvre safnið, Sigurbogann, Champs Elysées, Notre Dame kirkjuna og Concorde torgið. Einnig verður boðið upp á skemmtilega gönguferð að Sacré Coeur um Montmartre listamannahverfið.

Verð á mann í tvíbýli 199.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 68.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í 7 nætur.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Klaustrið á Mont Saint-Michel € ca. 8.
 • Hús og garður Claude Monets ca. € 8.
 • Vínsmökkun ca. € 15.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

15. september | Flug til Parísar & Rouen

Brottför frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 12:55 að staðartíma. Þaðan verður ekin um tveggja tíma leið til Rouen sem er höfuðborg Efra Normandí. Rouen er hafnarborg við árbakka Signu og á sér sögu langt aftur í aldir. Þetta var mikilvæg borg á tímum rómverja, en einnig á miðöldum þegar réttarhöldin yfir Jóhönnu af Örk fóru hér fram. Gist verður fjórar nætur á góðu 4* hóteli í miðbænum.

16. september | Étretat & Honfleur

Við hefjum daginn á skoðunarferð til ferðamannabæjarins Étretat. Ströndin umhverfis þennan  bæ er fræg fyrir fagurlega formuð kalksteinsbjörg sem hafa verði vinsælt myndefni listmálara í gegnum tíðina. Við röltum um Étretat, hér er margt að skoða. Síðan verður ekið til Honfleur sem er litríkur og líflegur hafnarbær við ármynni Signu. Honfleur hefur einnig verið vinsælt myndefni impressjónista, þar á meðal Monet og Boudin. Mörg góð veitinga- og kaffihús eru við heillandi mjóar göturnar. Upplagt að fá sér hádegishressingu en eftir það verður farið í stutta skoðunarferð um borgina. Á heimleiðinni væri hægt að líta við hjá vínbónda.

17. september | Mont Saint Michel eyjan

Farið verður dagsferð til hinnar töfrandi Mont Saint Michel eyju sem er sannarlega ein af perlum landsins. Eyjan er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Frakklands þótt einungis búi þar um 70 manns, hún er aðeins um 900 m að ummáli og rís 80 m eins og tindur upp úr sjónum. Í kringum eyjuna er munurinn á milli sjávarfalla hvað mestur í heiminum. Klaustur hefur verið hér á eyjunni frá árinu 966 og endurspeglar litli bærinn húsagerðarlist svæðisins einkar vel. Áhugavert er að skoða kirkjuna og klaustrið, en einnig eru skemmtilegar verslanir og veitingastaðir á eyjunni.

Opna allt

18. september | Dagur í Rouen & frjáls tími

Nú tökum við daginn rólega. Að loknum góðum morgunverði höldum við í skoðunarferð um  Rouen, en Victor Hugo nefndi hana í ljóði borg hinna hundrað kirkjuturna. Frægustu byggingarnar eru án nokkurs vafa dómkirkjan sem listmálarinn Claude Monet málaði í ótal útgáfum, stóra klukkan Gros-Horloge sem sýnt hefur tímann og gang himintungla langt aftur í aldir sem og kirkjan sem helguð er Jóhönnu af Örk, en hún stendur þar sem Jóhanna var brennd á báli. Hér er einnig mikið um gömul og skrautleg bindingsverkshús. Eftir skoðunarferðina verður góður tími til að skoða sig um á eigin vegum í þessari áhugaverðu borg. Beaux-Arts listasafnið hefur einstök meistaraverk til sýnis og keramíksafnið þykir búa yfir áhugaverðum postulínsmunum.

19. september | Giverny & París

Rouen er kvödd eftir góða daga. Á leið okkar til Parísar verður staldrað við í litla bænum  Giverny, en þar bjó málarinn frægi Claude Monet. Húsið sem hann bjó í og gróðursæli garðurinn þar sem hann málaði vatnaliljurnar eru núna safn honum til heiðurs. Í húsinu má sjá muni sem listamaðurinn safnaði, s.s. japönsk prentverk og keramík. Monet hafði mikinn áhuga á garðrækt og er garðurinn algjör draumaveröld. Hann skapaði garðinn sjálfur með því að velja til ræktunar blóm sem hann kaus að mála og lagði áherslu á óvenjulegar samsetningar sem heilluðu hann til að hann hefði fyrirmyndir allt árið. Í París gistum við í þrjár nætur á góðu 4* hóteli í göngufæri við Louvre safnið og Notre Dame kirkjuna. Einnig er stutt í verslanir.

20. september | Montmartre & Sacré Coeur kirkjan

Í dag förum við í gönguferð um Montmartre listamannahverfið sem stendur uppi á 101 m  hárri hæð yfir Signu. Uppi á hæðinni er að finna skjannahvítu sandsteinskirkjuna Sacré Coeur og gefur þaðan að líta einstaklega fallegt útsýni yfir borgina. Í gönguferðinni fáum við örlitla innsýn inn í andrúmsloftið sem hér ríkti þegar hverfið var aðal listamannahverfi Parísar og listamenn á borð við Renoir, Picasso, Braque, Juan Gris stigu sín fyrstu skref í listinni. Á Place du Tertre torginu verðum við vitni að portrett málurum að störfum. Eftir gönguferðina gefst hverjum og einum tími til að spóka sig um í borginni á eigin vegum.

21. september | Heillandi skoðunarferð um París

Í þessari einstöku borg er óendanlega margt sem heillar, en hún er sannkölluð háborg lista og menningar. Í fylgd staðarkunnugs leiðsögumanns skoðum við allt það helsta sem gerir París að einum eftirsóknasta ferðamannastað heims. Við virðum fyrir okkur tignarlegan Eiffelturninn, Louvre safnið, Sigurbogann, Champs-Elysées, Notre Dame kirkjuna og Concorde torgið. Eftir skoðunarferðina er tilvalið að setjast á kaffi- eða veitingahús á fallegum stað í borginni og njóta mannlífsins.

22. september | Heimferð frá París

Eftir glæsilega ferð yfirgefum við Frakkland. Brottför frá París kl. 14:10 og lending í Keflavík kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Étreat

Étreat

Honfleur

Honfleur

Mont Saint Michel eyjan

Mont Saint Michel eyjan

Mont Saint Michel

Mont Saint Michel

Rouen

Rouen

Blóm í Giverny

Blóm í Giverny

Notre Dame kirkjan

Notre Dame kirkjan

Montmartre

Montmartre

Eiffel turninn, París

Eiffel turninn, París

Klassískur franskur réttur, sniglar

Klassískur franskur réttur, sniglar

Étreat
Honfleur
Mont Saint Michel eyjan
Mont Saint Michel
Rouen
Blóm í Giverny
Notre Dame kirkjan
Montmartre
Eiffel turninn, París
Klassískur franskur réttur, sniglar

Fararstjórn

Laufey Helgadóttir

Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður býr og starfar í París og Reykjavík. Hún er íslenskum ferðamönnum að góðu kunn, en hún hefur starfað sem fararstjóri í París árum saman og leiðsagt Íslendingum um sjónvíddir og kima borgarinnar. Hún er öllum hnútum kunnug i borginni og þekkir hana betur en margur annar. Laufey vinnur einnig við leiðsögn á Íslandi fyrir erlenda ferðamenn á sumrin, en ásamt því hefur hún skrifað greinar um myndlist, unnið við að skipuleggja sýningar, en hún var m.a. sýningarstjóri íslenska skálans í Feneyjum árin 2003 og 2005.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir