Dvergríkið Andorra & Spánn

25. ágúst – 1. september 2019 (8 dagar)

Glæsileg vikuferð til dvergríkisins Andorra og Tossa de Mar á Spáni þar sem við kynnumst mannlífi og merkri sögu lítillar þjóðar í Pýreneafjöllunum og njótum sólar á gylltri Costa Brava ströndinni, sem er rómuð fyrir fegurð.

Ferðin hefst í Barcelona, höfuðborg Katalóníu, en þaðan stefnum við á Andorra og eigum ljúfa daga í höfuðborginni Andorra la Vella og nærliggjandi sveitum. Fjallafegurðin er einstök hvert sem litið er og í borginni má finna úrval verslana og veitingastaða. Þegar ekið er um sveitir landsins svífur sveitarómantíkin yfir og á vegi okkar verða töfrandi bæir, sem margir hverjir eiga sér merka sögu. Við dveljum einnig í Tossa de Mar en þar er að finna dulúðlegan klettabæ, Vila Vella, sem við munum að sjálfsögðu skoða. Við förum í töfrandi siglingu til Lloret de Mar eins vinsælasta ferðamannabæjarins á Costa Brava ströndinni. Síðasta daginn höldum við í skoðunarferð um Barcelona, þá yndislegu heimsborg sem varðveitir margar magnaðar byggingar. Að skoðunarferðinni lokinni gefst tími til að njóta borgarinnar eða skoða sig betur um áður en ekið verður út á flugvöll.

Verð á mann í tvíbýli 188.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 37.300 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með WOW flugi og flugvallaskattar.
 • Ein ferðataska 20 kg og ein taska í handfarangri 0-5 kg.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling til Lloret de Mar ca. € 15.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. ágúst | Flug til Barcelona

Brottför frá Keflavík kl. 15:45. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 22:15 að staðartíma og gist verður í Barcelona fyrstu nóttina. 

26. ágúst | Dvergríkið Andorra

Við ökum fallega leið til dvergríkisins Andorra í austanverðum Pýreneafjöllunum. Furstadæmið Andorra var stofnað árið 1278 til að sætta átök milli biskupsins af Urgell og greifans af Foix. Í dag stjórnar biskupinn af Urgell Andorra ásamt forseta Frakklands. Við gistum tvær nætur á góðu hóteli í miðbæ höfuðborgarinnar Andorra la Vella sem er í 1029 m hæð og er sú höfuðborg Evrópu sem stendur hvað hæst yfir sjávarmáli. Bærinn er mjög líflegur og mannlífið blómstrar.

27. ágúst | Skoðunarferð í Andorra

Við hefjum daginn á fróðlegri skoðunarferð um borgina með heimamann í fararbroddi. Í Andorra, sem liggur í hjarta voldugra Pýreneafjallanna, búa um 85.000 manns. Sveitasjarminn er hér allsráðandi og á leið okkar um sveitir landsins verða á vegi okkar töfrandi bæir sem búa yfir langri og merkri sögu. Öllu þessu kynnumst við nánar sem og menningu þessarar smáþjóðar. Eftir hádegi gefst tími til að rölta um borgina Andorra la Vella og kanna umhverfið nánar á eigin spýtur. Upplagt er að líta inn til kaupmanna en verslanir í borginni eru um 1.500 talsins með nánast allt sem hugurinn girnist.

Opna allt

28. ágúst | Tossa de Mar á Costa Brava ströndinni

Nú kveðjum við Andorra og fjöllin og stefnum til strandar. Þar bíður okkar miðaldabærinn Tossa de Mar sem stendur við hina glæsilegu Costa Brava strönd á Spáni. Hér munum við gista í fjórar nætur á góðu hóteli.

29. ágúst | Útimarkaður & ganga í Tossa de Mar

Það er líf og fjör í Tossa de Mar þennan morgun en þá er mjög skemmtilegur útimarkaður rétt við hótelið okkar sem upplagt er að skoða. Gaman er að rölta um í gamla bænum þar sem mikið er af skemmtilegum verslunum og veitingastöðum. Eftir hádegi verður farið með fararstjóra upp í elsta hluti bæjarins, klettabæinn Vila Vella sem er umkringdur borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Að koma þar inn er eins og að ferðast aftur í tímann og í raun er ótrúlegt að enn sé búið í gömlu húsunum innan virkisveggjanna. Frá Vila Vella er stórkostlegt útsýni yfir klettaströnd Tossa. Að göngunni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna umhverfið á eigin vegum en þar má meðal annars finna margar áhugaverðar litlar verslanir. Í nágrenni hótelsins eru minjar frá rómverskum búðum sem vert er að skoða.

30. ágúst | Töfrandi sigling til Lloret de Mar

Farið verður í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög huggulegur og skemmtilegur bær sem gaman er að rölta um. Þar er að finna fallegu kirkjuna Sant Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í skemmtilega göngu eftir ströndinni upp að miðaldavirki frá 10. öld. Að lokinni skoðunarferð um bæinn kemur rútan og nær í hópinn en á leið okkar til baka verður stoppað á markaði þar sem okkur verður boðið upp á vínsmökkun, pylsur og fjölmargar tegundir af salamí. 

31. ágúst | Dagur í slökun og rólegheit

Ljúfur dagur í slökun og rólegheitum. Nú er upplagt að nota þessa frábæru aðstöðu við hótelið eða líta inn í lokkandi og skemmtilegar verslanir bæjarins. Einnig hægt að kanna umhverfið betur á eigin vegum og fá sér göngu með ströndinni sem er einstaklega fögur.

1. september | Heimsborgin Barcelona & heimferð

Nú er komið að því að kveðja þennan yndislega stað við Costa Brava ströndina. Eftir morgunverð verður ekið til heimsborgarinnar Barcelona, höfuðborgar Katalóníu sem er með fegurstu borgum álfunnar. Borgin er þekkt fyrir verk arkitektsins Gaudi en glæsilegar byggingar hans og annarra skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og með merkilega sögu en ásýnd hennar og gestrisni íbúanna gera heimsóknina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia og húsin Casa Battló og Casa Milá. Eftir skoðunarferð um borgina verður frjáls tími til að kíkja á kaupmenn og skoða sig betur um í borginni. Upplagt er að borða kvöldverð á notalegum veitingastað í borginni áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför frá Barcelona er kl. 23:15 og lending í Keflavík kl. 02:05 þann 2. september.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Soffía Halldórsdóttir

Soffía Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Svarfaðardal. Hún lauk kennaraprófi í einsöng og tónmennt frá Tónlistarskólanum í Reykjavík á árunum 1991-92 og kenndi síðan tónmennt við grunnskóla Reykjavíkur í nokkur ár. Soffía hugðist taka sér frí frá kennslu í eitt ár og fór til Prag, þar sem hún stundaði nám í tékknesku við Karlsháskólann. Dvölin í Prag varð öllu lengri en áætlað var í fyrstu eða samtals ellefu ár, en Soffía flutti aftur heim til Íslands haustið 2009.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir