Á slóðir síðustu aftökunnar

Síðasta aftakan á Íslandi fór fram við Þrístapa í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi. Fararstjóri ferðarinnar er engin önnur en Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, sem stóð m.a. fyrir því að Lögfræðingafélag Íslands héldi réttarhöld og dæmdu á ný í máli Agnesar og Friðriks haustið 2017. Hún er sjálf frá Hvammstanga og er því öllum hnútum kunnug á svæðinu og söguna af Illugastaðamorðunum hefur hún þekkt alla ævi. Ferðin hefst með skoðunarferð um Hvammstanga og heimsóknum í Verslunarminjasafnið Bardúsu og Selasetrið. Sagðar verða sögur úr sveitinni og þegar tekur að kvölda gætum við séð seli í flæðarmálinu. Farið verður um Vatnsnesið og þekktir staðir úr sögu Agnesar og Friðriks heimsóttir, líkt og Þrístapar, Illugastaðir og Tjörn. Ökum Miðfjarðarhringinn svokallaða og heyrum sögur af Gretti sterka Ásmundarsyni og hinu óhuggulega Skárastaðamáli. Þá verður farið að leiði Skáld-Rósu sem einnig er þekkt undir nafninu Vatnsenda-Rósa. Þetta er sannkölluð söguferð og er óhætt að segja að Eyrún búi yfir einstakri frásagnargáfu sem fær að skína bjart í þessari spennandi ferð! 

Verð á mann í tvíbýli 69.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 7800 kr.


Innifalið

  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í tvær nætur.
  • Tveir morgunverðir á Hótel Laugarbakka.
  • Aðgangur að Selasetrinu 13. maí.
  • Kvöldverður á veitingastaðnum Sjávarborg 13. maí.
  • Þriggja rétta kvöldverður á Hótel Laugarbakka 14. maí.
  • Léttur hádegisverður á Hótel Laugarbakka 15. maí. 
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hádegisverður 14. maí. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. maí | Hvammstangi, Bardúsa & Selasetrið

Brottför frá Reykjavík kl. 13:00. Hefjum ferðina á akstri norður á Hvammstanga, stoppað í Staðarskála fyrir þá sem vilja fá sér hressingu. Þegar á Hvammstanga er komið heimsækjum við Verslunarminjasafnið Bardúsu og Selasetrið. Í Verslunarminjasafninu er varðveitt krambúð Sigurðar Davíðssonar sem var rekinn á fyrri hluta 20. aldar. Þá verða meðal annars sagðar sögur af frjósemistilraunum Jónasar Sveinssonar læknis og fleiru áhugaverðu úr þorpi þar sem norðanáttin víkur yfirleitt í kvöldhúminu. Í sama húsnæði og Selasetur Íslands er einnig vinsæll veitingastaður, Sjávarborg, þar sem við snæðum kvöldverð áður en haldið er að Hótel Laugarbakka þar sem gist verður næstu tvær nætur.

14. maí | Vatnsneshringurinn, Þrístapar - á slóðir síðustu aftökunnar

Að loknum morgunverði verður farið um Vatnsnesið og við fræðumst um þá atburði sem urðu til þess að Agnes og Friðrik voru hálshöggvin á Þrístöpum 12. janúar 1830. Farið verður að Illugastöðum þar sem Natan Ketilsson bjó og morðin áttu sér stað þann 14. mars 1828. Einnig verður stoppað á kirkjustaðnum Tjörn og leiði þeirra Agnesar og Friðriks skoðað, en það var ekki fyrr en 17. júní 1934 sem bein þeirra voru grafin þar. Stefnt er að því að kíkja inn í Katadal þar sem Friðrik bjó ásamt foreldrum sínum. Ef veður leyfir verður hægt að ganga að Hvítserki, hinum 15 metra háa kletti sem stendur í fjöruborðinu við Sigríðarstaðaós við austanvert Vatnsnes. Hádegisstopp verður á Víðigerði (North West Hotel) áður en við göngum að höggstaðnum á Þrístöpum. Á leiðinni um Vatnsnesið mun sögumaður eflaust ekki geta stillt sig um að segja sögur af fólki síðari tíma á þessu afskekkta útnesi. Komið verður á næturstað síðdegis og ferðalangar geta þá stungið sér í heita potta við Hótel Laugarbakka áður en kvöldverður er borinn fram á veitingastaðnum þar. 

15. maí | Miðfjarðarhringurinn & heimferð

Í dag verður Miðfjarðarhringurinn ekinn. Sagan af Gretti Ásmundarsyni á Bjargi í Miðfirði verður sögð en hann var kallaður Grettir sterki og má kalla hann útlaga Íslands. Eins heyrum við söguna af hinu óhuggulega Skárastaðamáli sem átti sér stað einungis fjórum áratugum eftir morðin á Illugastöðum. Þá verður legstaður Skáld-Rósu á Efra-Núpi heimsóttur, en sú er einnig þekkt undir nafninu Vatnsenda-Rósa og eru sumar vísna hennar enn alþekktar. Við snæðum hádegisverð á Hótel Laugarbakka og að honum loknum höldum við til Reykjavíkur.

Opna allt

Fróðleikur og lesefni fyrir ferð

Ætlar þú með á Vatnsnesið í vor? Þá er tilvalið að lesa eða hlusta á bókina Náðarstund í vetur en hana skrifaði Hannah Kent árið 2014 um mál Agnesar. 

Hér má finna upptöku frá „nýjum réttarhöldum“ sem Lögfræðingafélag Íslands stóð fyrir árið 2017 og fengu til liðs við sig einvala lið lögfræðinga sem sóttu, vörðu og dæmdu málið upp á nýtt og tvo leikara sem lásu upp úr málsskjölum. 

Hér má finna þátt frá sjónvarpsstöðinni N4 í þáttaröðinni Að norðan sem ber heitið Aftakan á Þrístöpum Agnes og Friðrik.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Eyrún Ingadóttir

Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, er fædd á Hvammstanga árið 1967. Hún er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1993 og diplóma í stjórnun- og starfsmannamálum frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2003. Hún starfar hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands og hefur frá árinu 2003 skipulagt og farið sem fararstjóri í ferðir sem félögin standa fyrir árlega. Meðal annars hefur hún farið til Suður-Afríku, Argentínu, Indlands, Georgíu, á Íslendingaslóðir í Kanada, Tyrklands (Istanbul), Eistlands, Víetnam og Kambódíu. 

Hótel

Hótel Laugarbakki

Hótel Laugarbakki er 3 stjörnu hótel á bökkum Miðfjarðarár í Vestur-Húnavatnssýslu. Á hótelinu eru 56 herbergi sem öll eru útbúin sjónvarpi, hárþurrku, baðvörum, sloppum og þráðlausri nettengingu. Gestir hafa aðgang að heitum pottum. Á hótelinu er veitingastaðurinn Bakki þar sem lögð er sérstök áhersla á að bjóða mat úr héraði en einnig er hægt að eiga notalega stund í setustofu barsins. Frá hótelinu er útsýni yfir Miðfjarðará, eina frægustu laxveiðiá landsins. Hótel Laugarbakki er staðsett í blómlegri sveit, umlukið fagurri náttúru.

Skoða Hótel Laugarbakka nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00