Á slóðir síðustu aftökunnar
13. - 15. maí 2021 (3 dagar)
Síðasta aftakan á Íslandi fór fram við Þrístapa í Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu þann 12. janúar 1830 þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi. Fararstjóri ferðarinnar er engin önnur en Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, sem stóð m.a. fyrir því að Lögfræðingafélag Íslands héldi réttarhöld og dæmdu á ný í máli Agnesar og Friðriks haustið 2017. Hún er sjálf frá Hvammstanga og er því öllum hnútum kunnug á svæðinu og söguna af Illugastaðamorðunum hefur hún þekkt alla ævi. Ferðin hefst með skoðunarferð um Hvammstanga og heimsóknum í Verslunarminjasafnið Bardúsu og Selasetrið. Sagðar verða sögur úr sveitinni og þegar tekur að kvölda gætum við séð seli í flæðarmálinu. Farið verður um Vatnsnesið og þekktir staðir úr sögu Agnesar og Friðriks heimsóttir, líkt og Þrístapar, Illugastaðir og Tjörn. Ökum Miðfjarðarhringinn svokallaða og heyrum sögur af Gretti sterka Ásmundarsyni og hinu óhuggulega Skárastaðamáli. Þá verður farið að leiði Skáld-Rósu sem einnig er þekkt undir nafninu Vatnsenda-Rósa. Þetta er sannkölluð söguferð og er óhætt að segja að Eyrún búi yfir einstakri frásagnargáfu sem fær að skína bjart í þessari spennandi ferð!