Út í Eyjar með Kristínu Jóhanns
14. - 16. maí 2021 (3 dagar)
Víst er fagur Vestmannaeyjabær og Eyjamenn svo sannarlega höfðingjar heim að sækja eins og við fáum að upplifa í þessari ferð. Kristín Jóhannsdóttir verður fararstjóri okkar en hún er uppalin og búsett í Vestmannaeyjum, hefur lengi séð þar um ferða- og markaðsmál og er nú forstöðukona gosminjasafnsins Eldheima. Hún þekkir því hvern krók og kima í Eyjum. Eyjaklasinn Vestmannaeyjar samanstendur af 15 eyjum og 30 skerjum og dröngum en Heimaey er eina eyjan þar sem búið er allt árið um kring. Við siglum með Herjólfi og komum mátulega til að eiga góða kvöldstund á veitingastaðnum Einsa Kalda þar sem Einsi Kaldi sjálfur matreiðir fyrir okkur þriggja rétta kvöldverð. Vestmannaeyjar hafa upp á margt að bjóða og munum við meðal annars fara í Stórhöfða, Eldfell og Herjólfsdal. Heimsókn í safnið Eldheima er ógleymanleg upplifun sem lætur engan ósnortinn. Eldheimar er safn minninga um eldgos í Vestmannaeyjum, Surtseyjargosið árið 1963 og Heimaeyjargosið árið 1973. Í Eldheimum snæðum við kvöldverð og hver veit nema við upplifum þessa einstöku Eyjastemningu sem svo margir þekkja með lifandi tónlist og nokkrum alþekktum Eyjaslögurum. Við endum ferðina á sögugöngu um Skansinn sem reistur var seint á 16. öld til þess að verja eyjarnar og er í dag vinsæll viðkomustaður enda útsýni þar einstakt og áhugaverðar söguslóðir á hverju horni.