Sunnlenskar sveitir með Hófý

Suðurlandið bíður okkar með stórbrotna náttúru, fjölda sagna og spennandi áfangastaði í þessari skemmtilegu ferð með okkar einu sönnu Hófý. Óhætt er að segja að hjarta Hófýjar hafi lengi slegið á Suðurlandi, en hún bjó í Skálholti með fjölskyldu sinni til fjölda ára og er því öllum hnútum kunnug á þeim fallega stað. Sunnlenskar sveitir búa yfir mikilli fegurð, fjölbreytni í náttúrufari og gríðarlegu aðdráttarafli. Þess verðum við svo sannarlega aðnjótandi í ferðinni okkar. Ekinn verður hinn frægi Gullni hringur, njótum útsýnisins ofan við Almannagjá, virðum fyrir okkur hinn mikla Gullfoss og komum að hverasvæðinu við Geysi. Við heimsækjum Efstadal við Laugarvatn, Friðheima í Reykholti og smáspunaverksmiðjuna Uppspuna í Ásahreppi, allt framúrskarandi og spennandi fyrirtæki sem hafa verið byggð upp með mikilli ástríðu og eljusemi. Suðurlandið býr yfir ríkri sögu prestsetra, víkinga og ekki síst merkilegra kvenna sem voru langt á undan sinni samtíð! Upplifðu íslenska náttúru á kærkomnu ferðalagi í frábærum félagsskap og afslöppun í fallegri sveit. 

Verð á mann 69.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 9.900 kr.


Innifalið

 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í tvær nætur. 
 • Tveir morgunverðir á Hótel Læk. 
 • Tveggja rétta kvöldverður á Hótel Læk 30. apríl.
 • Þriggja rétta kvöldverður á Hótel Læk 1. maí.
 • Heimsókn í Laugabúð á Eyrarbakka.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið/valfrjálst

 • Hádegisverðir.
 • Þjónustugjald Gestastofunnar á Þingvöllum (u.þ.b. 500 – 1.000 kr.).
 • Heimsókn í Friðheima (u.þ.b. 1.200 kr.).
 • Heimsókn í Uppspuna, (u.þ.b. 800 kr.).
 • Aðgangur í Ægissíðuhellana með leiðsögn (u.þ.b. 3.200 kr.).
 • Aðgangur í Íslenska bæinn með leiðsögn (u.þ.b. 1.600 kr.).
 • Aðgangur í Húsið (u.þ.b. 500 kr.). 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

30. apríl | Þingvellir, Efstidalur, Gullfoss og Geysir, Friðheimar & Skálholt

Brottför úr Reykjavík að morgni dags. Ekið verður um Mosfellsdal og Þingvelli þar sem stoppað verður við Hakið, hraunstapa syðst í Almannagjá, sem myndar eins konar hak milli Hestagjár og Kárastaðastígs. Tækifæri gefst til að heimsækja Gestastofuna á Þingvöllum. Þaðan liggur leiðin að Efstadal við Laugarvatn þar sem við fáum notið einstakrar upplifunar á þessu fjölskyldurekna kúabúi, gisti- og veitingastað. Á Efstadal eru framleiddar ýmsar afurðir sem merktar eru „Beint frá býli“, svo sem ís, skyr og fetaostur. Einnig bjóða þau upp á sitt eigið nautakjöt á veitingastaðnum. Hér verður snæddur hádegisverður og tilvalið að gæða sér á heimagerðum ís í eftirrétt! Eftir hádegisverð verður ekið að Gullfossi og Geysi þar sem við stoppum og fáum að sjálfsögðu að heyra söguna um Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fossinum. Höldum leið okkar áfram að Friðheimum í Reykholti, fjölskyldureknu fyrirtæki, þar sem ræktaðir eru tómatar allan ársins hring. Hittum þar fyrir eigendur staðarins og fáum kynningu á því frábæra starfi sem þar er unnið og hver veit nema við fáum að smakka gómsæta tómata. Heimsækjum því næst Skálholt, einn merkasta menningar- og sögustað Íslands og biskupssetur síðan 1056. Síðan verður ekið að Hótel Læk á Rangárvöllum þar sem gist verður í 2 nætur í fallegu umhverfi með útsýni til Heklu og Eyjafjallajökuls.

1. maí | Uppspuni, Anna frá Moldnúpi, Seljalandsfoss & hellarnir við Hellu

Byrjum daginn á því að heimsækja smáspunaverksmiðjuna Uppspuna í Ásahreppi. Hjá Uppspuna er hægt að fá handprjónaðar peysur og garn úr tandurhreinni og fallegri ull í bestu mögulegu gæðum. Ullin, sem er unnin úr sauðfé eigenda Uppspuna og hefur fengið sérstakan gæðastimpil frá Icelandic Lamb, er spunnin í einstaklega mjúkt band sem er vandfundið annars staðar. Ekið verður í áttina að Eyjafjöllum og fáum við að kynnast sögunni af Önnu frá Moldnúpi sem var íslenskur rithöfundur og þekktur ferðasagnahöfundur. Einna þekktust er bókin hennar Fjósakona fer út í heim. Á Hótel Önnu er einnig að finna mikið af fallegu handverki og vefnaði Önnu. Eftir hádegisverð ökum við að hinum 65 metra háa og einstaklega fallega Seljalandsfossi – og þá er gott að geta smeygt sér í góða regnkápu ef áhugi er fyrir því að ganga á bak við fossinn. Þá lítum við í hellana við bæinn Ægissíðu á Hellu. Þar fáum við að heyra söguna um landnámið fyrir landnám! Höldum aftur á hótel, borðum saman góðan kvöldverð og njótum kvöldstundarinnar.

2. maí | Urriðafoss, Íslenski bærinn, Eyrarbakkakirkja & Laugabúð

Eftir morgunverð ökum við að Urriðafossi, einum vatnsmesta fossi landsins, en þar fellur lengsta á landsins, Þjórsá, fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns. Mikil náttúrufegurð allt umlykjandi og hér er svo sannarlega hægt að sækja kraft fyrir daginn. Heimsækjum menningarsetrið Íslenska bæinn að Austur-Meðalholtum þar sem við fáum kynningu á íslenskum torfbæjum. Þar bíður okkar einstök upplifun í einum fárra varðveittra torfbæja landsins. Næst höldum við að Eyrarbakka. Skoðum hina fallegu og hlýlegu Eyrarbakkakirkju sem var vígð árið 1890. Altaristaflan er mesti dýrgripur kirkjunnar, en höfundur hennar er Louise Danadrottning, eiginkona Kristjáns IX konungs sem gaf hana kirkjunni árið 1891. Þar fáum við svo að fræðast um kaupmanninn Guðlaug Pálsson sem rak verslun á Eyrarbakka í 76 ár. Hægt verður að líta inn í Laugabúð sem er nefnd eftir honum. Verslunin hefur verið endurgerð og færð til þess horfs sem hún var árið 1919. Skemmtileg upplifun að kíkja hér inn. Einnig gefst tækifæri til að líta inn í Húsið á Eyrarbakka, elsta íbúðarhús úr timbri á Suðurlandi og í hópi elstu húsa landsins. Endum daginn í Þorlákshöfn þar sem Hófý einmitt bjó um tíma. Fáum okkur hressingu á veitinga- og menningarhúsinu Hendur í höfn áður en haldið verður heim.

Fararstjóri getur breytt dagskrárliðum eftir veðri og aðstæðum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Hótel

Hótel Lækur

Hlýlegt fjölskyldurekið sveitahótel á bænum Hróarslæk á Rangárvöllum, skammt frá suðurjaðri hinna miklu hrauna sem runnið hafa öðru hverju í árþúsundir frá eldfjallinu Heklu sem blasir hér við augum. Herbergi með sérbaðherbergi, matsalur og setustofa með fallegu útsýni. Góð staðsetning til skoðunarferða um suðurlandsundirlendið. 

Lesa meira um Hótel Læk.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00