Í Borgarfjörðinn með Gísla

Borgarfjörður er þekktur fyrir einstaka náttúrufegurð en ekki síður ríka sögu sem hreinlega drýpur af hverju strái. Í þessari ferð fáum við að upplifa nokkrar af náttúruperlum Borgarfjarðar og sögur sem eiga uppruna sinn af svæðinu sem má með sanni segja að sé sögusvið flestra Íslendingasagna. Sögumaðurinn er enginn annar en Gísli Einarsson, Borgfirðingur. Farið verður að minnismerki Jóns Vídalín biskups í Biskupsbrekku, náttúrulauginni Krosslaug í Lundarreykjadal og í sögugöngu í Borgarnesi. Heimsækjum stærsta gúrkuframleiðanda á Íslandi að Laugalandi og fáum að smakka einstakan gúrkudrykk. Hvítársíðuhringurinn verður ekinn og Geitfjársetrið á Háafelli heimsótt, en einnig verður farið að hinum fögru Hraunfossum svo fátt eitt sé nefnt. Komum að hinu sögufræga Reykholti, heimkynnum Snorra Sturlusonar, þar sem er að finna merkar fornminjar og tóftir af miklum miðaldabæ. Lítum við í brugghúsi Steðja sem framleiðir samnefndan eðalbjór. Hallgrímskirkja í Saurbæ verður heimsótt og farið á Hernámssetrið á Hlöðum. Skemmtileg ferð í góðum hópi þar sem náttúran og sagan leika dúett á vordögum.

Verð á mann 64.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 9.900 kr.


Innifalið

 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í tvær nætur.
 • Tveir morgunverðir á Hótel Varmalandi.
 • Tveggja rétta kvöldverður á Hótel Varmalandi 22. apríl.
 • Þriggja rétta kvöldverður á Hótel Varmalandi 23. apríl.
 • Heimsókn í Garðyrkjustöðina að Laugalandi, ásamt gúrkudrykk. 
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir.
 • Aðgangseyrir á Samgöngusafnið (u.þ.b. 1000 kr.).
 • Aðgangseyrir á Geitfjársetrið (u.þ.b. 1500 kr.).
 • Bjórsmökkun, Brugghús Steðja, (u.þ.b. 1.000 kr.).
 • Aðgangseyrir á Hernámssetrið (u.þ.b. 1500 kr.).

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

22. apríl | Biskupsbrekka – Krosslaug – Samgöngusafnið – Borgarnes – Garðyrkjustöðin að Laugalandi

Brottför úr Reykjavík kl. 09:00. Ekið verður yfir Mosfellsheiði og síðan Uxahryggjarleið þar sem stoppað verður við Biskupsbrekku. Þar er minnismerki eftir Pál á Húsafelli um Jón Vídalín biskup sem lést þar á ferðalagi er hann var á leið til jarðarfarar mágs síns. Komum að Krosslaug í Lundarreykjardal, en þessi náttúrulaug er eins og lítil útgáfa af Snorralaug þar sem þingmenn létu skíra sig á leið til þings. Ökum niður í Borgarnes þar sem við snæðum hádegisverð. Þá verður Samgöngusafnið í Brákarey heimsótt þar sem má sjá og skoða marga fornbíla frá síðustu öld sem allir eiga sína sögu. Farið verður í sögugöngu í Borgarnesi, en bærinn er afar mikilvægur í sögu Íslands og kom hann mikið við sögu við landnám. Endum daginn í Garðyrkjustöðinni að Laugalandi, stærsta gúrkuframleiðanda landsins, og fáum að smakka einstakan gúrkudrykk. Gist verður í 2 nætur á Hótel Varmalandi.

23. apríl | Geitfjársetrið – Húsafell – Hraunfossar – Reykholt – Steðji

Eftir morgunverð verður hinn svokallaði Hvítársíðuhringur ekinn, upp Hvítársíðu, Kalmanstungu og niður í Húsafell. Stoppað verður á Geitfjársetrinu á Háafelli og geiturnar hennar Jóhönnu heimsóttar. Fjölskyldan rekur verslun beint frá býli og þar er hægt að fá ýmsar geitaafurðir, baðvörur, krem, sápur, skinn og handverk. Hádegisverður snæddur á svæðinu. Tækifæri gefst til að ganga inn í Bæjargil, vítt
og djúpt gil þar sem finnst sérstætt rauð- og bláleitt grjót. Stoppum við hina fögru Hraunfossa sem renna úr lækjum um 900 m leið úr Hallmundarhrauni. Ökum niður í Reykholtsdal og komum að Reykholti sem er hvað þekktast fyrir að vera heimkynni Snorra Sturlusonar, fræðimanns og höfundar Snorra-Eddu. Göngum að Snorralaug og hlustum á sögur af þessum merka manni. Áður en haldið verður til baka á hótel verður farið í Brugghús Steðja þar sem við fáum að smakka eðalbjórinn Steðja.

24. apríl | Saurbær – Hernámssetrið – draugasögur

Að loknum morgunverði verður ekið um Skorradal, um Geldingadraga og niður í Hvalfjörð. Stoppum við Saurbæ og lítum inn í Saurbæjarkirkju sem í raun heitir Hallgrímskirkja og er helguð minningu Hallgríms Péturssonar, sóknarprests í Saurbæjarprestakalli á árunum 1651-1669. Þá verður Hernámssetrið á Hlöðum heimsótt þar sem við fáum að upplifa einstaka og merkilega sögu hernámstímans á Íslandi á árunum 1940 – 1945. Eftir hádegishressingu verður ekið fram hjá fjallinu Þyrli, en nafnið er tilkomið af miklum sviptivindum við fjallið. Þyrill kemur einnig við sögu í Harðarsögu og Hólmverja en þar kemur einnig fyrir draugur sem við fáum hugsanlega sögur af!

Fararstjóri getur breytt dagskrárliðum eftir veðri og aðstæðum.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Hótel

Hótel Varmaland

Hótel Varmaland opnaði árið 2019 eftir umfangsmikla endurbyggingu og endurnýjun á Húsmæðraskólanum við Varmaland sem var teiknaður af Guðjóni Samúelssyni og upphaflega reistur árið 1946. Við endurbæturnar var sögu staðarins blandað við þægilega og nútímalega hönnun svo úr varð glæsilegt hótel í hjarta Borgarfjarðar þar sem tilvalið er að slaka á í fallegu umhverfi og náttúru.

Skoða Hótel Varmaland nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00