Vesen í Sarajevó

Um Sarajevó hefur verið sagt að vestrið mæti austrinu, enda voru múslimar, kristnir og gyðingar í borginni frá því á miðöldum. Hin margvíslegu menningaráhrif sjást hvert sem litið er! Á einu götuhorni er að finna tyrkneskan markað og á því næsta bosnískt kaffihús með ilmandi, sterku kaffi. Heillandi samsafn byggingarlistar, fjörmikið götulíf frá ýmsum heimshornum og fjölbreytt matargerð lýsa Sarajevó einstaklega vel. Það sem einkennir borgina hins vegar framar öðru eru fjöllin og skógi vaxnar hæðirnar allt um kring. Allt þetta gerir borgina og umhverfi hennar svo einstakt, heillandi og fallegt. Farið verður í göngur af mismunandi erfiðleikastigi þar sem við göngum fram á lítil þorp, förum á fjallstoppa og njótum fallegrar náttúru og stórkostlegs landslags. Ein gangan verður helguð minjum lengsta umsáturs evrópsks nútíma um Sarajevó í Bosníustríðinu á tíunda áratugnum, en það skyldi svo sannarlega eftir augljós ör í sögu landsins. Gist verður á vel staðsettu hóteli steinsnar frá gamla bænum í þessari frábæru borg sem er svo sannarlega þess virði að heimsækja.

Verð á mann 239.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 18.800 kr.


Innifalið

 • Áætlunarflug með Lufthansa Keflavík – München – Sarajevo.
 • Áætlunarflug með Lufthansa Sarajevo – München – Keflavík.
 • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
 • Akstur til og frá flugvelli í Sarajevo. 
 • Gisting í 8 nætur á góðu 3* hóteli í tveggja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hóteli.
 • Fjórir kvöldverðir.
 • Rútuferðir þrjá göngudaga.
 • Innlend leiðsögn í gönguferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll, leigubílaakstur eða almenningssamgöngur.
 • Hádegisverðir og fjórir kvöldverðir.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. tvisvar í viku síðustu sex vikurnar fyrir ferð eða gera eitthvað sambærilegt. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 75 mín. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. – 25. september │ Mæting í Leifsstöð & flug til Sarajevó

Flogið verður með Lufthansa til München kl. 01:05 aðfaranótt 25. september og þaðan áfram til Sarajevó. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför eða um kl. 22:45 þann 24. september. Lending í München kl. 06:50 að staðartíma. Flogið með Lufthansa áfram til Sarajevó, brottför kl. 11:05 og lent í Sarajevó kl. 12:25 að staðartíma.

Tillögur að dagleiðum 26. sept. – 2. okt.

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir sex göngudaga en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar eða í hvaða röð og fer það m.a. eftir veðri og aðstæðum. Að auki er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega.

1. Trebevic fjallið og stórkostlegt útsýni yfir Sarajevó

Við nýtum okkur almenningssamgöngur og förum svo með kláfnum sem var eyðilagður í Bosníustríðinu en endurbyggður og tekinn aftur í notkun árið 2018. Þetta er leiðin að bobsleðabrautinni þar sem keppt var á vetrarólympíuleikunum árið 1984. Gangan hefst eftir að við yfirgefum kláfinn og göngum um fallega skóga alla leið á Sofe tindinn (1629 m) þaðan sem er mjög fallegt útsýni yfir Sarajevó og fjöllin í kring. Á leiðinni göngum við á vegi sem var lagður í tíð austurrísk-ungverska keisaradæmisins, skoðum fjallaskála sem var byggður 1893 og í bakaleiðinni annan sem er heldur nýrri. Allan gönguhringinn förum við um þægilega stíga og njótum hins fallega umhverfis og tökum svo kláfinn aftur niður til Sarajevó.

 • Erfiðleikastig: miðlungserfið
 • Hækkun: 700 m
 • Göngutími: ca 5 klst.
Opna allt

2. Þorp og stríðsminjar í útjaðri Sarajevó

Í dag höldum við áfram að kynnast næsta nágrenni Sarajevó og tökum strætó í útjaðar hennar og göngum svo til baka um nokkur þorp og hæðir og endum í gamla bænum í Sarajevó. Við hefjum göngu í þorpinu Faletici og fylgjum stígum um opin svæði og skóga að fallega þorpinu Gornje Biosko. Þaðan göngum við um skógarstíga upp á Pjescana Ravan og þaðan niður til þorpsins Barice. Á leiðinni niður í átt að gamla bænum munum við skoða minnismerki og stríðsminjar úr Bosníustríðinu.

 • Erfiðleikastig: miðlungserfið
 • Hækkun: 550 m
 • Göngutími: 3,5 – 4,5 klst.

3. Tindurinn Kom á Visocica fjalli

Við förum um austurhlíðar Visocica fjalls, sem tilheyrir Bjelimici fjallgarðinum, og á tindinn Kom (1778 m) og hugsanlega einnig á tindinn Crveni kuk (1733 m). Útsýni er mikið á þessum slóðum, ekki mikið af trjám en töluvert af blómum og bláberjum. Við keyrum fram hjá þorpinu Sinanovici og fáeina kílómetra í viðbót að Oštra Bara og hefjum göngu þar í 1600 m hæð. Á toppnum er fallegt útsýni til fjalla eins og til Treskavica, Zelengora, Crvanj og Velez. Í bakaleiðinni kemur til greina að fara á tindinn Crveni kuk. Rútuferð að upphafsstað göngu eru tæpir 50 km. 

 • Erfiðleikastig: miðlungserfið - meira krefjandi ef einnig er gengið á Crveni kuk. 
 • Hækkun: 400 m - 550 m á tindinn Crveni kuk. 
 • Göngutími: ca 3,5 klst. - 4,5 klst. með tindinum Crveni kuk. 

4. Studeni Potok dalurinn og Umoljani þorpið

Við hefjum göngu í hinu fallega þorpi Umoljani og stoppum við Sedrenik lindirnar sem þorna aldrei. Þaðan göngum við að Orlovac og njótum útsýnis yfir Rakitnica gljúfrið, þorpið Bobovica og fjöllin Treskavica (2088 m), Bjelasnica (2067 m) og norðurhlíðar fjallsins Visocica. Þaðan förum við um Studeni Potok dalinn, skoðum Gradina þorpið og endum aftur í Umoljani þorpinu þar sem við fáum okkur hádegismat á einum af veitingastöðunum. Á leið aftur til Sarajevó stoppum við í Dolovi og skoðum merkilega bauta- og minningarsteina frá miðöldum en slíkir steinar voru algengir í Bosníu áður en Ottómanveldið náði völdum í landinu. Hugsanlega verður einnig stoppað til að skoða stríðsminjar og skíðabrautir frá Ólympíuleikunum 1984.
Rútuferð að upphafsstað göngu eru u.þ.b. 45 km.

 • Erfiðleikastig: létt
 • Hækkun: 200 m
 • Göngutími: ca 4 klst.

5. Krvavac

Krvavac tindurinn er 2062 m að hæð og næst hæsti tindurinn á Bjelasnica fjallgarðinum. Við hefjum göngu í 1300 m hæð og göngum um hlíðar þar sem furutré eru algeng sjón og upp á gróðurvana Greda hásléttuna (1750 m) og þaðan upp á topp. Þaðan er sérstaklega gott útsýni til austurs og fjallanna í suðri þar á meðal í átt að Lukomir og fjallinu Prenj, alls Bjelasnica fjallgarðsins og fjallahringsins umhverfis Sarajevó. Þetta flokkast sem krefjandi ganga enda er hækkunin 900 m og göngutími er áætlaður sjö klukkutímar. Tökum rútu og keyrum um 50 km að upphafsstað göngu.

 • Erfiðleikastig: krefjandi
 • Hækkun: 900 m
 • Göngutími: ca 7 klst.

6. Brestovac tindurinn í nágrenni Sarajevó

Síðasta göngudaginn förum við aftur um útjaðar Sarajevó. Við tökum strætó til þorpsins Barice (950 m) og inn á Mrkovici svæðið þar sem við komum við í fjallaskálanum Cavljak. Þaðan förum við í fjallgöngu með viðkomu á tindinum Brestovac (1413 m) og eftir fjallshrygg með Orlovac tindinum og förum þaðan niður að Borovac svæðinu og endum í Nahorevo þorpinu þaðan sem við tökum aftur strætó í bæinn.

 • Erfiðleikastig: meðalerfið
 • Hækkun: 500 m
 • Göngutími: ca 4,5 - 5 klst.

3. október

Í dag verður haldið heim og er brottför frá Sarajevo kl. 13:05 og lent í München kl. 14:30. Fljúgum áfram til Keflavíkur kl. 22:15 og lendum þar kl. 00:10 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Einar Skúlason

Einar Skúlason er fæddur í Kaupmannahöfn 1971. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá HÍ og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg.

Hann hefur unnið við markaðsstörf á nokkrum stöðum, var framkvæmdastjóri Alþjóðahússins og kynningarstjóri Fréttablaðsins en hefur síðustu ár starfrækt gönguklúbbinn Vesen og vergang og gönguappið Wapp-Walking app. Í tengslum við gönguklúbbinn hefur Einar verið leiðsögumaður og fararstjóri í hundruðum ferða innanlands og erlendis.

Einar skrifaði jafnframt tvær bækur um gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur.

Hótel

Hotel Hecco Sarajevo

Gist verður á Hotel Hecco Sarajevo, 3* hóteli í um 10 mínútna göngufæri við gamla bæinn og Baščaršija torgið. Herbergin eru búin baðherbergi með sturtu, þráðlausu interneti, sjónvarpi og loftkælingu. Veitingastaður og bar er á hótelinu. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00