Sumargleði í Portorož

23. júní – 2. júlí 2018 (10 dagar)

Náttúran í kringum Bled vatn er með sanni hrífandi fögur og lætur engan ósnortinn. Í ferðinni siglum við á fallegu vatninu út í eyjuna Blejski otok, njótum útsýnisins og heimsækjum þar einstaklega huggulega Maríukirkju sem á sér aldagamla sögu. Á leið okkar til Rósahafnarinnar eða Portorož, sem verður aðal áfangastaður ferðarinnar, skoðum við okkur um í hinum víðfrægu Postojna dropasteinshellum. Portorož er umvafin náttúrufegurð og  farið verður í töfrandi skoðunarferðir m.a í siglingu til sjávarþorpanna Izola og Piran, sem eru tvær af perlum Slóveníu. Komið verður til fallegu hafnarborgarinnar Tríeste á Ítalíu, þar sem þrír menningarheimar sameinast á heillandi hátt. Einnig verður farið yfir til Króatíu og staldrað við í bænum Poreč, sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Bær þessi er með elstu bæjum við ströndina, en þar er að finna hina áhugaverðu Euphrasius Basilíku frá 6. öld sem er varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Komið verður til listamannabæjarins Rovinj í Króatíu og vínbóndi heimsóttur í Pazin. Eftir ánægjulega og skemmtilega daga í Portorož endar þessi glæsilega ferð í bænum Sirmione við suðurenda Gardavatns á leið til Mílanó.

Verð á mann í tvíbýli 212.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.700 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar og vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling út í Blejski Otok eyju ca. € 13.
 • Aðgangseyrir í Maríukirkjuna ca. € 6.
 • Bled kastali ca. € 8.
 • Postojna dropasteinshellar ca. € 25.
 • Sigling til Piran og Izola ca. € 18.
 • Léttur hádegisverður í Pazin ca. € 15.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

23. júní | Flug til München & ekið að Bled vatni

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið að Bled vatni í Slóveníu sem er með fegurstu perlum Alpanna og þar gist í 3 nætur. 

24. júní | Eyjan Blejski Otok & Bled kastalinn

Eftir morgunverð höldum við í siglingu út í eyjuna Blejski Otok, en þar er huggulega Maríukirkjan með óskabjöllunni frægu. Þaðan verður síðan ekið upp að Bled kastalanum, miðaldakastala sem stendur í 139 m hæð á hamri við norðurbakka vatnsins. Kastalinn er talinn vera elsti kastali Slóveníu og er eitt mesta aðdráttarafl landsins. Þaðan gefur að líta stórkostlegt útsýni yfir svæðið. Síðdegis gefst einnig frjáls tími til að taka það rólega og njóta borgarinnar Bled og umhverfi hennar. 

25. júní | Sæludagur við Bled vatn

Frjáls dagur til að njóta þessa dýrlega umhverfis. Upplagt er að fara í göngu um vatnið og kanna umhverfið betur á eigin vegum, jafnvel bregða sér á kaffihús og smakka á sætum sérrétti svæðisins; Kremsnita. Einnig er hægt að nota aðstöðuna við hótelið og slaka á, en á hótelinu er prýðis heilsulind og boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi.

Opna allt

26. júní | Rósahöfnin & Postojna dropasteinshellarnir

Við yfirgefum Bled og ökum til Portorož í Slóveníu eða Rósahafnarinnar svokölluðu, þar sem gist verður í 6 nætur. Á leiðinni þangað verður komið til Postojna, en þar eru hinir víðfrægu dropasteinshellar. Þar er umhverfið mjög fallegt og hægt að skoða sig um í minjagripaverslunum, kíkja á veitingastaði og kaffihús ásamt því að skoða hellana. Við gefum okkur góðan tíma til að kanna svæðið og njóta.

27. júní | Sigling til Piran & Izola

Í dag verður sigling til sjávarþorpanna Izola og Piran, sem eru sannkallaðar perlur Istríastrandarinnar. Í Izola stígum við örstutt í land, en höldum svo ferðinni áfram til Piran, yndislegs bæjar sem áhugavert er að skoða. Þar fæddist fiðluleikarinn og tónskáldið Tartini, en minnisvarði um hann stendur á hinu glæsilega Tartini torgi. Eins er gaman að skoða Georgskirkjuna, sem stendur tignarleg á fallegum stað við ströndina. 

28. júní | Frjáls dagur í Portorož

Nú ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað og kanna umhverfið. Tilvalið er að nýta sér aðstöðu hótelsins til afslöppunar, en einnig er dásamlegt að ganga eftir strandlengjunni yfir til Piran. Í bænum kennir margra grasa menningar- og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum. Fararstjóri veitir að sjálfsögðu nákvæmari upplýsingar og ráðleggingar um áhugaverða staði til skoðunar.

29. júní | Dagur í Tríeste á Ítalíu

Í þessari heillandi borg Tríeste sameinast 3 menningarheimar. Staðreyndin er sú að borgin var í 600 ár undir yfirráðum Austuríkismanna og er á landamærum yfir til Slóveníu sem hafði mikil áhrif á þeirra menningu. Glæsilegar byggingar í barokk- og endurreisnarstíl prýða borgina, en einnig eru minjar frá tímum rómverja sem áhugavert er að skoða. Hér verður farið í skemmtilega skoðunarferð um borgina og eftir það verður tími til að njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Hvergi eru eins fjölbreyttir veitingarstaðir á þessum slóðum eins og í Tríeste.

30. júní | Dagsferð til Króatíu, Poreč & Rovinj

Á dagskránni í dag er heimsókn yfir til Króatíu þar sem bærinn Poreč, einn sá elsti við ströndina, tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Þar er að finna áhugaverða Euphrasius–Basiliku frá 6. öld sem fór á heimsminjaskrá UNESCO 1997. Nú heldur ferð áfram til Rovinj, sem er yndislegur listamannabær við Istríaströndina. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Við fáum okkur göngutúr upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu, en þaðan er glæsilegt útsýni yfir þessa litríku gömlu borg. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Við höldum ferðalaginu áfram til Pazin, þar sem við snæðum léttan hádegisverð hjá vínbónda. 

1. júlí | Slökun í Portorož

Dagur í slökun og rólegheitum. Upplagt að nota aðstöðuna við hótelið eða taka sundsprett í sjónum. Baðströndin er örfáum skrefum frá hótelinu og hluti strandarinnar tilheyrir því.  

2. júlí | Heimferð, Sirmione & Mílanó

Það er komið að heimferð eftir þessa yndislegu daga. Eftir morgunverð munum við aka til Mílanó, en á leiðinni þangað verður staldrað við í fallega bænum Sirmione við Gardavatn. Þaðan verður ekið út á flugvöll í Mílanó. Brottför þaðan kl. 20:40 og lent í Keflavík kl. 22:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir