Hjólað í Jórdaníu

Hér er boðið upp á spennandi hjólaferð í konungsríkinu Jórdaníu. Strax við komuna til Amman er ljóst að við erum komin í makalausan, fornan menningarheim. Amman er ein elsta borg í heimi en þar hefur fólk búið síðan á bronsöld. Við ætlum að kynnast landi og þjóð eins og kostur er með skipulögðum dagsferðum vítt og breitt um landið. Í einni slíkri ferð verður farið til hinnar merku borgar Jerash og þar gengið um fornar götur og stræti áður en haldið er til Anjara en þaðan er hjólað um skógi vaxið svæði að Zarqa ánni en bíblíunafn hennar er Jabbok. Við förum í rútuferð suður til Madaba en áður en þangað er komið er áð við fjallið Nebo. Þennan dag er svo hjólað til Dauðahafsins. Við komum til borgarinnar Karak og hjólum þaðan um sveitahéruð uns komið er til Dana, náttúruverndarsvæðis sem er engu líkt. Hér skiptast á berar, ljósar klappir, gróðursæl dalverpi og eyðimörk. Annan dag er hjólað frá Shobak kastala sem byggður var árið 1115 og tilheyrir svokallaðri kastalaröð krossferðanna í Jórdaníu. Leiðin þennan dag liggur til litlu Petru milli Dana og Petra fjalla en þaðan er einstakt útsýni yfir Jórdaníudal. Sumar hjólaleiðirnar eru um eyðimörk þar sem skiptast á sandsteinahæðir og fjöll og sendið undirlendi, sannarlega framandi landslag. Við endum í Aqaba við Rauðahafið.

Verð og nánari upplýsingar væntanlegt

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórður Höskuldsson

Þórður Höskuldsson er fæddur árið 1966, er viðskiptafræðingur en ferðalög hafa lengi verið áhugamál hans. Eitt af þeim farartækjum sem nýst hafa á þessum ferðalögum er reiðhjólið, en þar fara saman hæfilegur hraði, snerting við umhverfið og þægilegur ferðamáti. Þórður á að baki fjölda ferða sem hjólandi fararstjóri í ferðum með erlenda gesti á Íslandi og með Íslendinga á framandi slóðum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00