Hjólað í Jórdaníu

Hér er boðið upp á spennandi hjólaferð í konungsríkinu Jórdaníu. Strax við komuna til Amman er ljóst að við erum komin í makalausan, fornan menningarheim. Amman er ein elsta borg í heimi en þar hefur fólk búið síðan á bronsöld. Við ætlum að kynnast landi og þjóð eins og kostur er með skipulögðum dagsferðum vítt og breitt um landið. Í einni slíkri ferð verður farið til hinnar merku borgar Jerash og þar gengið um fornar götur og stræti áður en haldið er til Anjara en þaðan er hjólað um skógi vaxið svæði að Zarqa ánni en bíblíunafn hennar er Jabbok. Við förum í rútuferð suður til Madaba en áður en þangað er komið er áð við fjallið Nebo. Þennan dag er svo hjólað til Dauðahafsins. Við komum til borgarinnar Karak og hjólum þaðan um sveitahéruð uns komið er til Dana, náttúruverndarsvæðis sem er engu líkt. Hér skiptast á berar, ljósar klappir, gróðursæl dalverpi og eyðimörk. Annan dag er hjólað frá Shobak kastala sem byggður var árið 1115 og tilheyrir svokallaðri kastalaröð krossferðanna í Jórdaníu. Leiðin þennan dag liggur til litlu Petru milli Dana og Petra fjalla en þaðan er einstakt útsýni yfir Jórdaníudal. Sumar hjólaleiðirnar eru um eyðimörk þar sem skiptast á sandsteinahæðir og fjöll og sendið undirlendi, sannarlega framandi landslag. Við endum í Aqaba við Rauðahafið. 

Verð á mann 549.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 57.700 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Áætlunarflug með Icelandair: Keflavík – München. 
 • Áætlunarflug með Royal Jordania: München – Amman – Kaupmannahöfn.
 • Áætlunarflug með Icelandair: Kaupmannahöfn – Keflavík.
 • Flugvallarskattar fyrir alla ferðina.
 • Akstur til og frá flugvelli í Amman. 
 • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu í loftkældri rútu.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Gisting í 9 nætur í tveggja manna herbergi með baði á 4 - 5* hótelum samkvæmt landsmælikvarða.
 • Gisting í 2 nætur í Bedúínatjaldbúðum með sameiginlegri snyrtiaðstöðu. 
 • 11 morgunverðir, 3 hádegisverðir og 10 kvöldverðir. 
 • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt ferðalýsingu.
 • Leiga á 21 gíra fjallahjóli fyrir 7 hjólaferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Vatn og ávestir í hjólaferðum.
 • Vegabréfsáritun.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Þjórfé fyrir erlenda staðarleiðsögumenn og rútubílstjóra. 
 • Aðrar máltíðir en þær sem taldar eru upp í ferðalýsingu. 
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu reyndu hjólafólki í ágætu formi. Dagleiðirnar spanna um 30 - 60 km og eru allt frá því að vera á sléttlendi yfir í hæðótt umhverfi þar sem einhverjar hækkanir og lækkanir koma við sögu. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir hana.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. október │ Flug frá Keflavík til München & Amman

Brottför frá Keflavík kl. 07:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 12:05 að staðartíma (+ 1 klst.). Fljúgum áfram til Amman kl. 16:15. Áætlaður lendingartími kl. 22:10 að staðartíma (+ 2 klst.). Eftir reglubundið eftirlit verður ekið rakleiðis á hótelið þar sem við gistum í 2 nætur.

 • Kvöldmatur

29. október │ Forna borgin Jerash & Gadara

Eftir morgunverð förum við með rútu til borgarinnar Jerash og skoðum óvenju vel varðveittar rústir forna hluta hennar. Þá höldum við til Umm Qais eða hinnar fornu Gadara en í góðu veðri er frábært útsýni alla leiðina til fjallsins Hermon og Galíleuvatns. Hér hefst fyrsta hjólaferðin okkar, stuttur hringur í kringum Umm Qais. Förum með rútu aftur til Amman.

 • Dagleið: ca 12 km
 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

30. október │ Skoðunarferð um Amman & Dauðahafið

Í dag verður farið í skoðunarferð um höfuðborg Jórdaníu, Amman. Heimsækjum borgarvirki Amman, Jabal al-Qal'a, þaðan sem er frábært útsýni yfir borgina, og rómverska leikhúsið í hjarta borgarinnar. Í vesturhluta borgarinnar hefst síðan hjólaferð dagsins til Iraq al-Amir í Jórdandal. Við heimsækjum fyrrum höll Qars El-Abd sem hrundi að hluta í jarðskjálfta. Við hjólum að mestu niður á við að Kafrain stíflunni og áfram að Dauðahafinu sem liggur 423 m undir sjávarmáli og er þar með lægsta stöðuvatn jarðar. Dauðahafið hefur löngum verið þekkt fyrir græðandi áhrif á húðina en það er ríkt af bæði salti og steinefnum. Saltmagnið er tíu sinnum hærra en í Miðjarðarhafinu og því getur maður látið sig fljóta, án þess að sökkva! Þetta ætlum við auðvitað að prófa. Gistum 1 nótt hér við Dauðahafið.

 • Dagleið: ca 41 km
 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur
Opna allt

31. október │ Kerak – Nebo fjallið

Söguríka fjallið Nebo er upphafspunktur hjólaferðar dagsins. Nebo fjall er minningarstaður Móses, þaðan sem hann á að hafa séð Landið helga í fyrsta sinn. Héðan hjólum við til borgarinnar Kerak og njótum á leiðinni þangað stórkostlegs útsýnis yfir Dauðahafið. Gistum 1 nótt í Kerak.

 • Dagleið: ca 46 km
 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

1. nóvember | Litla Petra

Eftir morgunverð verður farið með rútu til Shoubak þar sem hjólaferð dagsins hefst. Hjólum til Siq al-Barid sem í daglegu tali er kölluð Litla Petra. Borgin var áður blómleg miðstöð verslunar og mikilvæg stöð vatnsforða fyrir úlfaldalestir. Við skoðum Al Beidah, eina elstu byggð í heimi, sem tekur á móti okkur með fornum musterum sínum, vatnsbólum og veggmyndum. Höldum þaðan með rútu til Petru og göngum að Treasury og virðum dýrðina fyrir okkur yfir tebolla. Gistum í 2 nætur á hóteli í Petru.

 • Dagleið: ca 40 km
 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

2. nóvember | Forna borgin Petra

Hin forna borg Petra sem liggur hálffalin, djúpt í klettagljúfri, í vindblásnu landslagi í Suður-Jórdaníu, er einn merkasti og dýrmætasti staður sem skráður er á heimsminjaskrá UNESCO og er eitt af sjö nýju undrum veraldar. Petra er arfleifð Nabateanna, iðins þjóðflokks sem settist að á þessu svæði fyrir meira en 2000 árum síðan. Ávallt var dáðst að Nabateum fyrir fágaða menningu, tilkomumikinn arkitektúr og margslungið hugvit þegar kom að hönnun og byggingu stíflna og skurða. Við tökum daginn í að kanna þennan stórkostlega stað, ganga í gegnum hlykkjótt klettagöng til frægustu byggingar Petru, Al Khazneh eða Treasury, eins og hún er kölluð á ensku, en hún er á ótrúlegan hátt meitluð í klettaveggi líkt og rómverska leikhúsið og aðrar byggingar og helgistaðir Nabateanna. Þegar við höfum skoðað þetta helsta ætti að gefast tími til að skoða örlítið meira á eigin vegum eða fara jafnvel í hefðbundið Hammam sem er tyrkneskt bað.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

3. nóvember | Eyðimerkurtöfrar

Eftir rútuferð eftir hinum forna þjóðvegi konunganna komum við til Rajef í um 1500 m hæð, sveiflum okkur í hnakkinn og hjólum til Wadi Araba og njótum mikilfengleika eyðimerkurinnar allt um kring. Þá verður haldið með rútu í tjaldbúðir í eyðimörk Wadi Rum þar sem bíður okkar kvöldverður sem snæddur verður undir stjörnuhimni! Gistum tvær nætur í Bedouin tjaldbúðum sem er einstök upplifun!

 • Dagleið: ca 51 km
 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

4. nóvember | Wadi Rum

Á slóðum úlfaldalesta Nabatea, könnum við þessar kyngimögnuðu, hlykkjóttu, rósrauðu og ósnortnu sandöldur Wadi Rum. Hjólum einnig um vegaslóða á þéttum eyðimerkursandinum og mun eyðimörkin án efa heilla okkur líkt og hún heillaði Arabíu Lawrence. Förum aftur í tjaldbúðirnar og gistum aðra nótt á þessum töfrandi stað.

 • Dagleið: ca 59 km
 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

5. nóvember | Aqaba

Síðasta hjólaferðin okkar leiðir okkur aftur í gegnum heillandi eyðimörkina. Rútan flytur okkur síðan til Aqaba. Hjólum síðustu kílómetrana á hótelið. Gistum 2 nætur í Aqaba við Rauðahafið.

 • Dagleið: ca 38 km
 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

6. nóvember | Rauðahafið

Í Aqaba, einu hafnarborg Jórdaníu, ætlum við að eyða síðasta deginum og upplifa umhverfið við Rauðahafið. Slökum á og njótum sólarinnar, hitans og sjávargolunnar. Hér gefst okkur tækifæri til að kíkja í verslanir í gamla bænum eða synda í sjónum á meðal kóralrifjanna eða jafnvel snorkla. Aqaba ber með sér afslappað andrúmsloft smábæjar en íbúar telja þó um 80.000.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

7. nóvember │ Aqaba – Amman

Ökum í rólegheitum til Amman og berjum hjólaleið okkar augum frá öðru sjónarhorni. Frjáls tími fram að sameiginlegum kvöldverð.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

8. nóvember │ Heimferð

Þá er komið að heimferð. Leggjum af stað frá hóteli eftir morgunverð og förum út á flugvöll. Brottför frá Amman til Kaupmannahafnar kl. 09:45 og lendum kl. 13:40 að staðartíma. Fljúgum áfram til Íslands kl. 20:05. Lendum í Keflavík kl. 22:30 að íslenskum tíma.

 • Morgunmatur

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórður Höskuldsson

Þórður Höskuldsson er fæddur árið 1966, er viðskiptafræðingur en ferðalög hafa lengi verið áhugamál hans. Eitt af þeim farartækjum sem nýst hafa á þessum ferðalögum er reiðhjólið, en þar fara saman hæfilegur hraði, snerting við umhverfið og þægilegur ferðamáti. Þórður á að baki fjölda ferða sem hjólandi fararstjóri í ferðum með erlenda gesti á Íslandi og með Íslendinga á framandi slóðum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00