Hjólað við Balatonvatn

Balatonvatn í Ungverjalandi er afar vinsæll sumardvalarstaður. Við þetta stærsta stöðuvatn Evrópu eru yndislegar strandir og snotrar smábátahafnir, en vínvaxnir hólar, skóglendi og græn engi einkenna landslagið allt um kring. Mikil hefð er fyrir heilsulindum í Ungverjalandi þar sem fólk dvelur sér til hressingar og endurnæringar og við munum einmitt dvelja í einum slíkum bæ, Balatonfüred, sem stendur við hið undurfagra Balatonvatn. Þar verður gist á notalegu 4* hóteli með sundlaugargarði og sólbaðsaðstöðu, ásamt dásamlegri heilsulind þar sem gott er að láta líða úr sér eftir góðan hjóladag. Á hjólunum kynnumst við þessu hrífandi svæði á þægilegum hraða. Við sjáum frjósamar vínekrur, fornar kirkjur og friðsæl þorp. Á heimleiðinni verður farið til Búdapest þar sem fjölmargar glæsilegar byggingar, torg og brýr verða á vegi okkar í þessari tvískiptu borg, annars vegar hallarhverfinu Buda og hins vegar borgarhverfinu Pest. Hér er svo sannarlega margt að sjá og upplifa.

Verð á mann 219.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 44.400 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Wizz Air og flugvallarskattar. 
 • Ferðir á milli flugvallar og hótela.
 • Akstur frá Balatonfüred til Búdapest. 
 • 6 nætur í tveggja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hóteli í Balatonfüred.
 • 1 nótt í tveggja manna herbergi með baði í Búdapest. 
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • 6 kvöldverðir á hóteli í Balatonfüred.
 • Hjóladagskrá. 
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 24 gíra hjóli 14.400 kr. í 5 daga.
 • Leiga á rafhjóli 33.700 kr. í 5 daga.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Bátsferðir á vatninu.
 • Lestarferð með hjólin ca € 10.
 • Hádegisverðir.
 • Kvöldverður í Búdapest.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 50 - 70 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkrar lengri dagsferðir og festa kaup á gelhnakk eða hjólabuxum. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð hér heima áður en haldið verður utan. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flug til Búdapest

Flogið verður með Wizz air til Búdapest þann 3. september. Brottför frá Keflavík kl. 10:00 en mæting í Leifsstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Búdapest kl. 16:25 að staðartíma. Gera má ráð fyrir að rútuferðin frá flugvellinum á hótelið í Balatonfüred taki um 2 klst. 

Tillögur að dagleiðum 4.– 8. september

Anna Sigríður Vernharðsdóttir fararstjóri er reynd hjóla- og útivistarkona og mun hún skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 hjóladaga sem fararstjóri getur raðað eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykja áhugaverðir að heimsækja.

1. Tihany skagi

Hjólað verður á bökkum þessa stærsta stöðuvatns Evrópu, með hólum og hæðum. Græn engi mæta hér blágrænu vatninu, inn á milli er skóglendi og efst á Tihany skaganum ber turna Benediktínaklaustursins við himinn. Í klaustrinu er að finna merkar 1000 ára gamlar minjar en þaðan er einnig stórkostlegt útsýni yfir vatnið. Úti á skaganum eru hús fiskimanna sem eru undir minjavernd. Leiðin er öll mjög aflíðandi en upp að klaustrinu er 900 m löng brekka.

 • Vegalengd: ca 30 km
 • Erfiðleikastig: létt
Opna allt

2. Vínhæðirnar í Badacsony

Eftir góðum hjólreiðavegum komum við að vínfjallinu Badacsony. Þetta gamla eldfjall er þakið vínökrum og allan hringinn er að finna skemmtilegar vínkrár með útsýni yfir vatnið. Hér eru ræktaðar sjaldgæfar tegundir þrúga og má þar nefna hinn svokallaða gráa munk sem er af sömu ætt og hið fræga „pinot gris“. Farið verður með lest aftur til Balatonfüred.

 • Vegalengd: ca 50 km
 • Erfiðleikastig: létt

3. Veszprém

Áfram hjólum við milli hóla og hæða á vatnsbakkanum og förum í gegnum nokkur þorp þar til komið er til borgarinnar Veszprém. Þessi heillandi borg á sér langa sögu, enda settist fyrsta fólkið í Ungverjalandi að á þessum aðlaðandi slóðum. Klassískur byggingarstíll og gamlar kirkjur einkenna þessa líflegu háskólaborg og hér er mikið um menningu og listir. Við gefum okkur tíma til að kanna bæinn nánar og líta á mannlífið en hjólum svo sömu leið til baka.

 • Vegalengd: ca 56 km
 • Erfiðleikastig: Miðlungserfitt

4. Balatonkenese - Siófok – hjól & sigling

Í dag hjólum við til Siófok, en Siófok er einn vinsælasti sumardvalarstaðurinn við vatnið, sérstaklega meðal ungs fólks. Á göngugötunni með fram vatninu er mikið um líflegar krár og skemmtistaði. Hjólað verður austur fyrir vatnið, á fáförnum vegum í gegnum litla bæi, m.a. Balatonkenese, en frá bæjunum Balatonkenese og Akarattya má líta alla lengd vatnsins. Í Siófok verður hægt að fá sér hádegisverð en svo siglum við til baka til Balatonfüred.

 • Vegalengd: ca 50 km
 • Erfiðleikastig: létt

5. Dörgicse – Balatonakali

Haldið verður í suðurátt fram hjá nokkrum býlum og á þessari leið okkar komum við endurtekið að hrífandi útsýnisstöðum. Í Dörgicse mætast fornar rústir og haganlega uppgerð sumarhús og mynda rómantíska heild. Hér er upplagt að taka pásu, rölta aðeins um og jafnvel líta á gamla vínkjallara. Á bakaleiðinni hjólum við um þorpin Balatonakali, Balatonudvari og Aszófö.

 • Vegalengd: ca 51 km
 • Erfiðleikastig: miðlungserfitt

9. september | Búdapest

Þennan dag kveðjum við Balatonfüred og höldum til Búdapest strax að loknum morgunverði. Þetta styttir leiðina á flugvöllinn næsta dag töluvert og gefur okkur kleift að kanna þessa fögru borg. Borgarhlutarnir tveir, hallarhverfið Buda og borgarhverfið Pest sem Dóná skilur að eru tengdir saman með fjölda voldugra og fallegra brúa sem setja svo sannarlega svip sinn á borgina. Hér er margt að sjá og upplifa. Kvöldverður á eigin vegum.

10. september | Heimflug

Í dag förum við frá Búdapest snemma dags út á flugvöll, en brottför flugs er kl. 06:40. Lending á Íslandi kl. 09:15 að staðartíma. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hlaup, sund, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Hótel

Hotel Flamingó Wellness és Konferencia

Gist verður í 6 nætur á 4* Flamingó Wellness és Konferencia Hotel í bænum Balatonfüred, við norðurströnd Balaton vatnsins. Við vatnið er sérsvæði sem tilheyrir hótelinu, lítil sandströnd, legustólar á grasflötinni beint við vatnið og útilaugar ásamt heitum pottum. Á innisvæðinu eru mismunandi laugar og nuddpottar og dásamleg heilsulind með eimbaði, sánu, saltbaði og líkamsræktaraðstöðu. Boðið er upp á ýmsar heilsu- og snyrtimeðferðir gegn gjaldi. Herbergin eru öll með svölum, baði/sturtu, hárþurrku, loftkælingu, síma, flatskjá og öryggishólfi. Kvöldverðir og morgunverðir eru í formi hlaðborðs. 

Vefsíða hótels

Mercure Hotel Korona

Gist verður síðustu nóttina í Búdapest á hótelinu Mercure Budapest Korona. Hótelið er vel staðsett í hjarta borgarinnar, í fallegu umhverfi við ána Dóná, stóru markaðshöllina, stærsta bænahús gyðinga í Evrópu og frægar krár, byggðar í gömlum húsarústum. Herbergin eru notaleg, með baði/sturtu, hárþurrku, míníbar, öryggishálfi, sjónvarpi og þráðlausu neti. 

Vefsíða hótels

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00