Trítlað og siglt á Mósel

Trítlað og siglt er skemmtileg ferð sem tengir á einstakan hátt saman kosti siglingar og fallega náttúru í gönguferðum um fegurstu fljótadali Þýskalands. Við siglum á fljótunum Saar, Mósel og Rín og förum daglega í 8 - 10 km langar gönguferðir. Flogið verður til Frankfurt og haldið inn í Móseldalinn til hins glæsilega bæjar Traben-Trarbach þar sem gist verður í 3 nætur. Förum þaðan í gönguferðir og tækifæri gefst til að skoða sig um, heimsækja söfn og fara í vínsmökkun. Höldum síðan til Saarlouis í Saardalnum og um borð í skipið MS Leonardo da Vinci þar sem gist verður í 4 nætur. Gengið verður um fjölbreytt landsvæði, s.s. vínakra, skóglendi og á stígum eftir hamraveggjum. Landslagið er stórkostlegt og útsýnið yfir bæi, ár, dali, vínakra og kastala ægifagurt og eins fáum við notið þess að sigla og virða fyrir okkur tilkomumikla fegurð þessara svæða. Skipsferðinni lýkur í Strassborg. Þessi ferð er fyrir alla sem hafa gaman af að hreyfa sig daglega í fallegri náttúru, sigla og njóta lífsins í góðum hópi. 

Verð á mann í tvíbýli á aðalþilfari 263.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli á aðalþilfari 53.500 kr.

Aukagjald á mann í tvíbýli fyrir káetu á efra þilfari 28.800 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Rútuferð til og frá flugvelli í Frankfurt.
 • Gisting í tveggja manna herbergi í 3 nætur á 3* hóteli í Traben-Trarbach.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelinu í Traben-Trarbach.
 • 5 daga fljótasigling með MS Leonardo da Vinci.
 • Gisting á skipinu MS Leonardo da Vinci í káetum með sturtu / salerni í 4 nætur.
 • Morgun-, hádegis- og kvöldverður alla daga um borð.
 • Drykkir með máltíðum á skipinu, vín, bjór, vatn og kaffi.
 • Allir drykkir á barnum um borð (fyrir utan drykki á sérseðli).
 • Hátíðarkvöldverður 9. september um borð í skipinu.
 • Gönguprógram.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
 • Tveir nestispakkar á gönguferðum við Mósel. 
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.
 • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

3. september │ Flug til Frankfurt – Traben Trarbach

Brottför frá Keflavík kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför og lending í Frankfurt kl. 13:00 að staðartíma. Á flugvellinum bíður okkar rúta sem keyrir okkur inn í Móseldalinn, til vínbæjarins Traben-Trarbach en þar verður gist í 3 nætur á góðu og vel staðsettu hóteli við ána Mósel. Héðan verður farið í nokkrar þægilegar gönguferðir og fallegt umhverfi við bæinn skoðað. Eftir komuna til Traben-Trarbach verður farið í stutta gönguferð um bæinn. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

4. september │ Vínekrur við Mósel

Bærinn Traben Trarbach er einkar glæsilegur miðaldabær með rómantískum götum og fallegum bindingsverkshúsum. Bærinn var mikilvæg miðstöð vínframleiðslu fyrir um 100 árum síðan og enn þann dag í dag bjóða vínframleiðendur bæjarins gesti velkomna að smakka á afurð sinni. Í dag verður farið í létta gönguferð um vínekrur, skóglendi og um leið fræðumst við um menningu við ána Mósel. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

Opna allt

5. september │ Bernkastel-Kues

Móseldalurinn og hæðirnar umhverfis Traben-Trarbach er kjörið svæði til gönguferða og hvers kyns útivistar. Í dag ætlum við að freista þess að ganga frá Traben-Trarbach til miðaldabæjarins Bernkastel en yfir honum tróna kastalarústir Landshut. Þar verður áð og hægt að fá sér hressingu. Útsýni yfir dalinn á þessari leið er stórkostlegt og hressingin að lokum verðskulduð. Hægt er að sigla til baka og í góðu veðri er það dásamlegur kostur. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu um kvöldið.

6. september │ Ekið til Saarlouis – Sigling með MS Leonardo da Vinci

Nú er komið að því að kveðja þennan yndislega bæ, Traben-Trarbach, og halda í siglingu um árnar Saar, Mósel og Rín. Við stoppum í Trier og í fallega bænum Saarburg, þar sem hægt er að fara í vínsmökkun ef tími gefst til. Ekið verður til Saarlouis þar sem skipið MS Leonardo da Vinci bíður okkar. Við munum gista fjórar nætur um borð í þessu glæsilega skipi í vel búnum káetum með tveimur rúmum og útsýnisglugga. Þjónað er til borðs í hádeginu og á kvöldin en á morgnana er hlaðborð. Á meðan á siglingu stendur eru flestir drykkir innifaldir bæði með mat og á barnum í gestasalnum. Uppi á sóldekki eru legustólar til reiðu. Þegar við höfum komið okkur fyrir hittum við ferðafélagana og áhöfn í móttökuathöfn og snæðum kvöldverð um borð. Á meðan á kvöldverði stendur leggur skipið frá höfn til Merzig en þangað verður komið seint um kvöldið.

7. september │ Merzig – Saarburg – Felsenweg

Um morguninn verður siglt frá Merzig til Saarburg en meðan á morgunverði stendur njótum við siglingarinnar um frægu Saar slaufuna sem myndar smáeyjar þar sem líf villtra fugla blómstrar. Seinnipart morguns komum við að landi í Saarburg. Þessi rómantíski bær, fyrrum aðsetur kjörfurstanna af Trier en nú miðstöð vínverslunar í Saarlandi, liggur í Dreiländereck eða einmitt þar sem löndin Þýskaland, Frakkland og Lúxemborg mætast. Hér hefjum við fyrstu gönguferðina okkar og höfum með okkur góðan nestispakka. Gangan er um 10 km löng og rúta ekur okkur upp að rómversku virki að nafni Klause Kastel sem stendur á himinháum kletti yfir Saardalnum. Þaðan er gengið á stíg með fram hamraveggjum, yfir tún og um skóglendi til baka til Saarburg en stoppað til að njóta útsýnisins yfir dalinn. Skipið leysir landfestar á meðan við njótum hádegisverðar og siglum í fögru landslagi Móseldalsins sem umvefur okkur þennan dag. Slökun uppi á dekki eða í setustofu skipsins MS Leonardo da Vinci fram að kvöldverði.

8. september │ Cochem – Valwiger Berg – Koblenz

Njótið morgunverðar um borð í skipinu. Fyrir hádegi verður komið að landi í Cochem en þennan dag fáum við tækifæri til að skoða hið stórkostlega landslag miðju Móseldalsins í göngu um svæðið. Ganga dagsins er u.þ.b. 11 km. Við fylgjum voldugum klettaveggjum Brauselay, þröngum göngustígum umkringdum vínökrum og kemur fjölbreytileiki náttúrunnar okkur oft á óvart. Við njótum ægifagurs útsýnis yfir þennan fallega dal. Komum að pílagrímskirkju heilagrar Maríu og Magdalenu þar sem er að finna hæsta punktinn í þessari göngu. Göngum eftir fjallshrygg Valwiger Berg fjallsins sem myndaðist í einni Mósel slaufunni. Njótum stórfenglegs útsýnis til Reichsburg kastalans og yfir Móseldalinn. Áfram haldið niður svolítinn bratta til baka til skips. Hádegisverður á skipinu. Eftir matinn fáum við tækifæri til að slaka á og njóta útsýnisins á meðan við siglum niður Mósel. Seint um kvöldið verður lagt að landi í Koblenz þar sem árnar Rín og Mósel mætast.

9. september │ Rínardalurinn – Rheinsteig – Rüdesheim

Á meðan á morgunverði stendur verður siglt áfram um eitt af fallegustu landsvæðum Evrópu, um Rínardalinn til Rüdesheim. Siglt er hjá hinum sögufræga Loreley kletti, höllum og köstulum sem tróna uppi á klettasyllum og hæðum. Eftir morgunverð skellum við okkur í gönguskóna. Við göngum Rínarveginn, Rheinsteig, sem er ca 9 km ganga. Gengið á mjóum stígum og svifið yfir vínökrum Rüdesheim í stólalyftu, upp að minnismerkinu Niederwald. Þaðan er fagurt útsýni yfir ána Rín. Göngum áfram með fram skóginum og njótum útsýnisins. Gengið verður í gegnum skóginn Niederwald og niður til Rüdesheim og mætum við til hádegisverðar á skipinu. Eftir hádegi njótum við siglingarinnar í rómantíska Rínardalnum og siglum fram hjá virkjum og kastölum. Nú leggur MS Leonardo da Vinci af stað í átt að Strassborg. Um kvöldið bíður okkar hátíðarkvöldverður, tónlist og dans.

10. september │ Strassborg – heimferð

Eftir yndislega siglingu og gönguferðir kveðjum við áhöfnina í Strassborg og höldum til Frankfurt. Brottför frá Frankfurt kl. 17:35 og lending í Keflavík kl. 19:15.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Hótel

Park-Hotel Traben-Trarbach

Park-Hotel er 3* hótel staðsett í hjarta Traben-Trarbach. Hótelið býður upp á þægileg herbergi með baði/sturtu, sjónvarpi, míníbar, hárþurrku og þráðlausu interneti. Hægt er að snæða morgunverð út á verönd þar sem er fallegt útsýni yfir ánna Mósel.

Vefsíða hótelsins.

Skip

MS Leonardo da Vinci

Skipið MS Leonardo da Vinci er í eign franska skipafélagsins CroisiEurope og var tekið í notkun árið 2003 og allt endurnýja árið 2011. Skipið er 105 metra langt, 11 metrar á breidd og með 72 káetum á tveimur þilförum. Á skipinu er að finna setustofu með bar og glæsilegum veitingastað. Á sóldekkinu eru sæti og legubekkir. Allar káeturnar eru með glugga, sjónvarpi, hárblásara, öryggishólfi og baðherbergi með sturtu. 

Hér má sjá myndir og lesa nánar um skipið.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00