Páskar á Mallorca

Fegurstu perlur Mallorca verða sóttar heim í þessari glæsilegu ferð sem hefst í Barcelona, höfuðborg Katalóníu á Spáni. Þar eigum við saman góðan dag og skoðum þekktustu kennileiti borgarinnar áður en haldið verður með ferju yfir til Mallorca. Eyjan Mallorca, sem er úti fyrir austurströnd Spánar, er stærsta og í augum margra fallegasta eyjan af Baleareyjunum. Í hinni heillandi höfuðborg Palma má m.a. finna Santa María dómkirkjuna sem er meistaraverk gotneskrar byggingalistar og kastalann Castell de Bellver. Við förum í ógleymanlega siglingu frá Porto Cristo um hina hrífandi og frægu Drach dropasteinshella og höldum í Mondragó náttúrugarðinn þar sem orkídeur og villtir ólífu-, furu- og eikarskógar taka á móti okkur. Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur á leið til Valldemossa sem er einn elsti bær Mallorca og stendur hæst í hlíð Tramuntana fjallanna en fjöllin eru á heimsminjaskrá UNESCO. Við skoðum afar áhugaverðan fornleifauppgröft frá bronsöld og heimsækjum miðalda smábæina Artá og Alcudia en í þeim síðarnefnda má sjá borgarmúra bæði frá miðöldum og endurreisnartímanum. Bærinn Sollér er staðsettur í hjarta Valle de las Naranjas eða Appelsínudalnum og hér heimsækjum við appelsínu- og sítrónuplantekru og fræðumst um ræktun svæðisins. Við höldum einnig til Fornalutx sem hefur unnið til nokkurra verðlauna sem fallegasta þorp Spánar en þar má finna náttúrusteinshús sem eru svo dæmigerð fyrir Mallorca. Eftir dásamlega páskadaga á Mallorca verður siglt aftur til Barcelona þaðan sem flogið verður heim.

Verð á mann 449.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 74.400 kr.


Innifalið

  • 13 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
  • Ferja til og frá Mallorca. 
  • Aðgangseyrir á Mallorca samkvæmt ferðalýsingu:
  • Miðaldakastalinn Castell de Bellver.
  • Sigling um Drach dropasteinshellana.
  • Heimsókn í ólífuolíu myllu og á bodega vínbar í bænum Deiá.
  • Rómverska leikhúsið Pollentina.
  • Heimsókn á appelsínu- og sítrónuplantekru.
  • Aðgangur í La Sagrada Familia kirkjuna í Barcelona.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur önnur en talin eru upp undir innifalið.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. mars | Flug með Play til Barcelona

Brottför frá Keflavík kl. 15:30. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 20:50 að staðartíma. Haldið á hótel í Barcelona þar sem gist verður í tvær nætur.

25. mars | Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí og glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er forn og saga hennar merkileg en fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera dvölina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell en þessi verk Gaudí eru öll komin á heimsminjaskrá UNESCO. Gotneska hverfinu má ekki gleyma og kirkjunni við hafið sem er dásamleg og margir þekkja úr bók Ildefonso Falcones. Við förum og skoðum La Sagrada Familia kirkjuna og einnig verður tími til að kanna líf bæjarbúa og líta inn á líflega kaupmenn borgarinnar.

26. mars | Ferjusigling til Mallorca

Í dag siglum við með ferju frá Barcelona yfir til Mallorca. Næstu tíu nætur dveljum við á 4* hóteli í 100 m fjarlægð frá Playa de Palma ströndinni. Á hótelinu er notaleg heilsulind með sundlaug, heitum potti og gufubaði. Herbergin eru með loftkælingu og verönd.

Opna allt

27. mars | Höfuðborgin Palma

Glæsilegur dagur í heillandi höfuðborginni Palma með sínum gullnu ströndum og hrífandi márískum og gotneskum arkitektúr. Santa María dómkirkjan, sem oft er kölluð La Seu, er glæsilegt meistaraverk gotneskrar byggingalistar og rís hátt sem tákn borgarinnar við Palma flóann. Við hlið hennar er Almudanína höllin, fyrrum vígi Mára, sem þjónar nú konungshjónunum við opinber tækifæri. Á göngu okkar um líflegar götur borgarinnar sjáum við falleg stórhýsi og mikilfengleg torg en við förum einnig eftir þröngum götum fyrrum gyðingahverfisins El Call. Rétt utan við borgina rís miðaldakastalinn Castell de Bellver en þar er stórkostlegt útsýni yfir borgina.

28. mars | Drach hellarnir í Porto Cristo & Mondragó náttúrugarðurinn

Í dag verður haldið í Drach dropasteinshellana í bænum Porto Cristo sem eru einn vinsælasti ferðamannastaður Mallorca. Hellarnir byrjuðu að myndast fyrir um 11 milljónum ára, þeir eru um 1.200 m langir og þar sem þeir eru dýpstir eru þeir um 25 m neðanjarðar. Í hellunum er líka eitt stærsta neðansjávarvatn heims, Martel vatnið, og á siglingunni umleikur okkur ólýsanleg fegurð sem er heilt ævintýri að upplifa. Næst verður áð í miðbæ Porto Cristo sem er heillandi sjávarþorp sem hefur haldið vel upprunalegum sjarma sínum. Á gangi um bæinn má sjá gömul steinhús, glæsileg setur og bátaflotann í höfninni. Síðasti áfangastaður dagsins er Mondragó náttúrugarðurinn þar sem finna má afar fjölbreytt landslag og gróður. Hér eru m.a. villtir ólífu-, furu- og eikarskógar, orkídeur, s‘Amarador tjörnin og stórbrotin strandlengja. Í lok dags gefst tækifæri til að smakka á matvælum úr héraði á veitingastað.

29. mars | Valldemossa & Deià

Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur á leið til Valldemossa sem er einn elsti bær Mallorca og stendur hæst í hlíð Tramuntana fjallanna en fjöllin eru á heimsminjaskrá UNESCO. Valldemossa er ein af perlum eyjunnar og einn vinsælasti ferðamannabærinn með sínum þröngu, hlykkjóttu götum og miðalda andrúmslofti. Sagan segir að pólska tónskáldið Fédéric Chopin og elskhugi hans, rithöfundurinn George Sand, hafi eytt einum vetri í Royal Carthusian klaustrinu og dvölin hafi verið innblástur fyrir bók Sand, Vetur á Mallorca. Hér er einnig að finna San Bartomeu kirkjuna og höll Sancho konungs. Við gefum okkur góðan tíma hér til að kanna litskrúðugt líf bæjarbúa. Leið okkar heldur áfram norður til heillandi þorpsins Deià sem hefur í gegnum tíðina laðað að sér fjölda listamanna og áhugaverðra einstaklinga sem er ekki að furða þar sem umhverfið er draumkennt. Náttúran í kring er gróskumikil og það er gaman að rölta um steinlagðar götur þessa fallega bæjar. Við endum daginn á heimsókn í ólífuolíu myllu og á bodega vínbar þar sem gaman er að bragða á framleiðslu svæðisins.

30. mars | Frjáls dagur

Nú eru rólegheit og slökun á dagskrá hjá okkur í dag. Vel má njóta sólar við sundlaugina og eins nýta sér alla aðstöðu hótelsins.

31. mars | Frjáls dagur

Við höldum áfram að slaka á í dag. Göngutúr eftir strandlengjunni svíkur engan og svo má ekki gleyma að fá sér sundsprett í Miðjarðarhafinu við fallegustu strendur eyjunnar.

1. apríl | Fornleifauppgröftur á Ses Païsses & smábærinn Artá

Dagurinn hefst á heimsókn í fornleifauppgröft frá bronsöld þar sem við dáumst að híbýlum og menningarsvæðum um 3000 ára gamallar byggðar. Ses Païsses er einn mikilvægasti og best varðveitti fornleifastaðurinn á Baleareyjunum en hann er staðsettur á hæð og umkringdur fornum eikartrjám og glæsilegum steinvegg. Höldum áfram til smábæjarins Artá þar sem við göngum um gamla bæinn og dáumst að virkismúrum frá 17. öld sem byggðir voru til að vernda bæjarbúa fyrir árásum vígamanna. Hér er sannarlega þess virði að ganga 180 þrep upp á hæð þar sem finna má Santuari Sant Salvador helgidóminn sem byggður var á 15. öld en þaðan er frábært útsýni. Upplagt er að fá sér snarl á einum af mörgum veitingastöðum á Plaza del Conquistador og drekka í sig andrúmsloft bæjarins.

2. apríl | Cape Formentor & Alcudia

Í dag höldum við á nyrsta punkt Mallorca, Cape Formentor, þar sem við skoðum vita og njótum stórbrotins útsýnis yfir hafið og fjöllin í kring. Höldum því næst áfram til litla bæjarins Alcudia þar sem stór hluti miðalda borgarmúranna er enn varðveittur en hægt er að greina tvær raðir af veggjum, eina frá miðöldum og aðra frá endurreisnartímanum, sú fyrri hefur þó varðveist mun betur. Á bak við þessa stórkostlegu víggirðingu liggur sögufrægur miðbærinn með sínum heillandi steinsteyptu götum og fjölda halla með glæsilegum endurreisnargluggum. Nokkrir af áhugaverðustu stöðum bæjarins eru Sant Jaume og Santa Ana kirkjurnar og einu ósnortnu rústir rómversks leikhúss á Mallorca.

3. apríl | Sóller, Fornalutx & heimsókn á appelsínu- og sítrónuplantekru

Bærinn Sollér er fyrsti áfangastaður dagsins en hann er fallegur bær í hjarta Valle de las Naranjas eða Appelsínudalnum en hér er mikil appelsínu- og sítrónurækt. Upphaf velmegunar bæjarins má rekja til byrjunar 19. aldar en þá hófst appelsínu- og sítrónuútflutningur yfir til Frakklands. Um svipað leyti fóru margir þangað í leit að vinnu og komu síðan með auð sinn til bæjarins og reistu fallegar byggingar í Art Nouveau stíl sem prýða Sóller. Í bænum má einnig finna fallegar byggingar sem hannaðar voru af Joan Rubió i Bellver sem var lærisveinn Gaudí, þar ber hæst framhlið kirkjunnar og Banco del Sóller byggingin. Annað heillandi þorp sem við lítum á er Fornalutx en þetta 700 íbúa þorp hefur unnið til nokkurra verðlauna sem fallegasta þorp Spánar. Hér má finna náttúrusteinshús sem eru svo dæmigerð fyrir Mallorca og ef þú gengur eftir þröngum, steinlögðum götum bæjarins er næsta víst að þú munt rekast á falleg torg. Við endum á daginn á heimsókn á appelsínu- og sítrónuplantekru þar sem við lærum allt um sögu appelsínutrjánna frá Sollér.

4. apríl | Frjáls dagur

Í dag er upplagt að skoða sig betur um á eigin vegum og njóta þess að hafa nægan tíma til að rölta um, sýna sig og sjá aðra. Áhugasamir geta litið inn á kaupmenn og á eitthvert hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa. Einnig er hægt að nota aðstöðuna við hótelið.

5. apríl | Heimferð

Nú er komið að því að kveðja Mallorca eftir yndislega daga og ógleymanlega upplifun. Siglum frá höfninni í Palma yfir til Barcelona og eftir komu þangað verður ekið á flugvöllinn en brottför frá Barcelona er kl. 22:10 og lending í Keflavík kl. 00:45 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00




Póstlisti