24. mars - 5. apríl 2024 (13 dagar)
Fegurstu perlur Mallorca verða sóttar heim í þessari glæsilegu ferð sem hefst í Barcelona, höfuðborg Katalóníu á Spáni. Þar eigum við saman góðan dag og skoðum þekktustu kennileiti borgarinnar áður en haldið verður með ferju yfir til Mallorca. Eyjan Mallorca, sem er úti fyrir austurströnd Spánar, er stærsta og í augum margra fallegasta eyjan af Baleareyjunum. Í hinni heillandi höfuðborg Palma má m.a. finna Santa María dómkirkjuna sem er meistaraverk gotneskrar byggingalistar og kastalann Castell de Bellver. Við förum í ógleymanlega siglingu frá Porto Cristo um hina hrífandi og frægu Drach dropasteinshella og höldum í Mondragó náttúrugarðinn þar sem orkídeur og villtir ólífu-, furu- og eikarskógar taka á móti okkur. Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur á leið til Valldemossa sem er einn elsti bær Mallorca og stendur hæst í hlíð Tramuntana fjallanna en fjöllin eru á heimsminjaskrá UNESCO. Við skoðum afar áhugaverðan fornleifauppgröft frá bronsöld og heimsækjum miðalda smábæina Artá og Alcudia en í þeim síðarnefnda má sjá borgarmúra bæði frá miðöldum og endurreisnartímanum. Bærinn Sollér er staðsettur í hjarta Valle de las Naranjas eða Appelsínudalnum og hér heimsækjum við appelsínu- og sítrónuplantekru og fræðumst um ræktun svæðisins. Við höldum einnig til Fornalutx sem hefur unnið til nokkurra verðlauna sem fallegasta þorp Spánar en þar má finna náttúrusteinshús sem eru svo dæmigerð fyrir Mallorca. Eftir dásamlega páskadaga á Mallorca verður siglt aftur til Barcelona þaðan sem flogið verður heim.