14. - 23. september 2023 (10 dagar)
Ferðalag um Umbria og Toskana héruð á Ítalíu er svo sannarlega hrífandi upplifun enda er þetta svæði rómað fyrir töfra sína. Ferðin hefst í Perugia, sem sögð er vera fallegasta borg Umbria héraðs, og við kynnumst bæði henni og öðrum merkum stöðum í héraðinu nánar. Farin verður skoðunarferð til sögufrægu borgarinnar Arezzo og virkisbæjarins Cortona en frá honum er einstakt útsýni yfir Toskana héraðið. Heilum degi verður varið í Assisi, fæðingarstað heilags Frans. Þetta er í margra augum helgur staður því hér voru reglur heilags Frans og heilagrar Klöru stofnaðar. Við skoðum stórkostlega dómkirkju í bænum Orvieto og upplifum miðaldastemningu í Montepulciano. Við Adríahafið kynnumst við Gradara, einum vinsælasta ferðamannastað Ítalíu, og gistum í Pesaro þar sem við sjáum gullnar náttúrustrendur og fjölmargar sögulegar byggingar. Það er notalegt að hvílast í þessum bæ við hafið, rölta um og njóta áður en farin verður dagsferð til San Marínó. Þetta smáríki er vel þess virði að skoða en hér er m.a. stjórnarhöllin Basilica di San Marino og kastalinn La Rocca. Eftir ljúfa og viðburðaríka daga verður flogið heim frá Mílanó.