San Sebastian & Loire dalurinn

Sérlega ævintýraleg og ljúf ferð um Loire dalinn í Frakklandi og Baskahéruðin á Norður-Spáni sem einkennist af glæstum borgum, sjávarbæjum og dásamlegri náttúrufegurð. Fallegi bærinn Blois bíður okkar við ána Loire sem er lengsta á landsins. Loire dalurinn er oft nefndur blómagarður Frakklands og er hann þekktastur fyrir stórkostlegar hallir og kastala sem voru leiksvið konunganna í margar aldir. Við lítum við hjá Chambord höllinni sem er næststærsta höll Frakklands, skoðum hvítu Chenoncau vatnahöllina og hallargarðinn sem er einstakur. Baskahéruðin á Spáni taka síðan á móti okkur í allri sinni dýrð, m.a. í bænum San Sebastian þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna og virðum fyrir okkur perluhvítan sandinn á La Concha ströndinni við Biscay flóann. Við komum til líflegu borgarinnar Bilbao og skoðum hið fræga Guggenheimsafn. Njótum lífsins í bænum Biarritz sem er ein af strandperlum Frakklands en þetta fallega borgarstæði er á milli klettóttrar Atlantshafsstrandarinnar og Pýreneafjallanna. Einnig verður áð í litríka sjávarbænum San Pedro við Pasaia flóann. Það er dásamlegt að koma í miðaldavirkisbæinn Hondarribia og gaman að upplifa hverfið La Marina, skemmtilega litríkt sjávarhverfi utan borgarmúranna. Þessi glæsilega ferð endar í Madríd, höfuðborg Spánar, en á leiðinni þangað verður stoppað í miðaldaborginni Burgos sem er ein af mikilvægustu borgunum á Jakobsveginum.

Verð á mann 309.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 99.900 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður á hótelum.
 • Sjö kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, spilavíti og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Tveir kvöldverðir í San Sebastian.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Vatnahöllin Chenoncau ca € 15.
 • Snarl hjá vínbónda ca € 20.
 • Guggenheimsafnið ca € 25.
 • Hádegissnarl á tapasbar ca € 25.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. ágúst | Flug til Parísar & Blois í Loire dalnum

Brottför frá Keflavík kl. 7:25 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í París kl. 12:50 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Blois í Loire dalnum sem er rómaður fyrir fegurð og er blómlegt landbúnaðarhérað en lengsta á Frakklands, Loire, rennur um dalinn. Gist verður í þrjár nætur í miðbæ fallega bæjarins Blois.

5. ágúst | Chambord höllin, Chenoncau vatnahöllin & snarl hjá vínbónda

Í dag ökum við fram hjá ótal glæsihöllum á undurfagri leið um Loire dalinn sem stundum er nefndur blómagarður Frakklands. Þó dalurinn sé þekktastur fyrir hinar stórkostlegu hallir og kastala sem voru leiksvið konunganna í margar aldir hefur hann líka upp á ýmislegt annað að bjóða eins og vínekrur og ljúffenga matargerðarlist. Við ætlum að aka að hinni stórkostlegu Chambord höll sem er næststærsta höll Frakklands á eftir Versalahöll og gerum þar myndastopp. Síðan heldur ferð áfram suður að franska bænum Chenonceaux sem hefur að geyma glæsilega hvíta endurreisnarvatnahöll, Château de Chenonceau, en aðalbygging hennar er umvafin Cher ánni sem er hliðará Loire. Arkitektúr hallarinnar og bogaturnarnir eru hrífandi en hér ætlum við í skoðunarferð um höllina og garðinn sem er undurfagur. Eftir góðan tíma hér verður vínbóndi sóttur heim þar sem við fáum okkur snarl og auðvitað smökkum við afurðir bóndans. Þar er einn elsti vínkjallari dalsins sem er 145 ára gamall og var handgrafinn. Við ætlum einnig að kynnast vínframleiðslu bóndans á göngu um einn af vínökrum hans.

6. ágúst | Dagur í Blois & stutt rölt um elsta hluta borgarinnar

Í dag verður farið í skoðunarferð um skemmtilegu og litríku borgina Blois. Við förum í gönguferð um elsta hluta bæjarins en á 15. og 16. öld var borgin hallarborg og einn mikilvægasti verslunarstaður héraðsins. Eftir hádegi verður frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum og líta inn til kaupmanna borgarinnar. Einnig er hægt að fara í skoðunarferð um stórglæsilega kastalann sem prýðir borgina og var uppáhaldsbústaður Lúðvíks VII en kastalagarðurinn er einnig mjög fallegur.

Opna allt

7. ágúst | Loire dalurinn & San Sebastian í Baskalandi á Spáni

Eftir yndislega daga hér í Loire dalnum kveðjum við en nú verður ekið inn í Baskaland til San Sebastian við Biscay flóann. Bærinn er stundum kallaður perla Biscay flóans en nálægðin við Atlantshafið og svalt loftslagið dregur aðra íbúa Spánar til svæðisins á þessum árstíma. Hér verður gist í sex nætur á góðu hóteli. Á hótelinu er útisundlaug og líkamsræktarstöð en einnig er lítill kláfur frá hótelinu niður að ströndinni í átt að miðbænum. Frá ströndinni er miðbærinn í u.þ.b. 15 mín. göngufæri.

8. ágúst | Skoðunarferð & slökun í San Sebastian

San Sebastian og baðströnd hennar hefur verið einn þekktasti ferðamannastaður Baskalands allt síðan á 19. öld. Skeljalagað form La Concha strandarinnar gerir bæjarstæðið undurfagurt. Förum í skoðunarferð um elsta hluta borgarinnar þar sem við fetum m.a. í fótspor kvikmyndastjarna en ár hvert er haldin kvikmyndahátíð í borginni. Eftir hádegi verður frjáls tími til að njóta lífsins við töfrandi Biscay flóann og nota glæsilegu aðstöðuna við hótelið okkar. Kvöldverður á eigin vegum.

9. ágúst | Bilbao & Guggenheimsafnið

Bilbao er ein helsta hafnarborg Spánar. Eitt frægasta kennileiti borgarinnar er hið fræga Guggenheim listasafn sem hannað var af Frank Gehry. Farið verður í fróðlega skoðunarferð en söguleg arfleifð og menning sést vel á arkitektúrnum og glæsilegum byggingum sem skreyta elsta hluta borgarinnar. Við endum skoðunarferðina á að upplifa Guggenheimsafnið sem er alveg magnað. En auðvitað verður líka tími til að endurnærast á einum af vínbörunum eða tapasveitingastöðunum sem borgin er þekkt fyrir.

10. ágúst | Dásemdardagur í Biarritz & San Pedro við Pasaia flóann

Dásemdardagur í bænum Biarritz sem er einn af strandperlum Frakklands með eina frægustu baðströnd í heimi. Þetta fallega borgarstæði er á milli klettóttrar Atlantshafsstrandarinnar og Pýreneafjallanna í Baskalandi Frakklands. Skoðum okkur um í þessum sjávarbæ sem hefur í gegnum tíðina dregið til sín stjörnur og fyrirfólk. Aðdráttarafl svæðisins er meðal annars vitinn við ströndina og litla klettaeyjan Rocher de la Vierge sem á sér mikla sögu. Eftir skoðunarferðina er frjáls tími og upplagt að fá sér hressingu og kanna líf bæjarbúa á eigin vegum. Á leiðinni til baka verður stoppað í sjávarbænum San Pedro sem er mjög litríkur og skemmtilegur bær við Pasaia flóann með skærmáluðum húsum og skemmtilegum torgum.

11. ágúst | Miðaldavirkisbærinn Hondarribia & tapasbar

Í dag heimsækjum við miðaldavirkisbæinn Hondarribia og förum í skemmtilega skoðunarferð um þennan fallega bæ en hann státar sig m.a. af glæstum torgum og höllum fyrrum aðalsætta. Sjávarhverfið La Marina stendur fyrir utan borgarmúrana og er líklega elsti hluti Hondarribia með dæmigerðum, litríkum húsum og fallegri strandlengju. Eftir góðan tíma þar væri upplagt að snæða saman hádegissnarl á tapasbar.

12. ágúst | Frjáls dagur í San Sebastian

Yndislegur dagur í San Sebastian. Upplagt að skoða borgina betur á eigin vegum og njóta þess að hafa nægan tíma til að rölta um götur hennar, sýna sig og sjá aðra. Áhugasamir geta litið inn á kaupmenn og á eitthvert hinna fjölmörgu kaffi- og veitingahúsa. Einnig er hægt að nota aðstöðuna við hótelið sem er frábær, sóla sig og njóta útsýnis yfir La Concha ströndina. Kvöldverður á eigin vegum.

13. ágúst | San Sebastian, Burgos & heimflug frá Madríd

Nú er komið að því að kveðja San Sebastian, halda yfir hásléttuna og njóta nálægðar Cantabria fjallatindana. Áð verður í miðaldaborginni Burgos í sjálfsstjórnarhéraðinu Castile – León. Þetta er ein af mikilvægustu borgunum á Jakobsveginum. Hér hafa varðveist merk ummerki frá blómaskeiði borgarinnar á miðöldum. Eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar er dómkirkjan sem áhugavert er að skoða. Eftir góðan tíma þar heldur ferð áfram til Madrídar sem er höfuðborg Spánar og situr á miðjum Íberíuskaganum í 667 m hæð yfir sjávarmáli. Fallegur miðaldablær einkennir borgina og skreytt hús og byggingar frá Habsborgaratímanum vekja verðskuldaða athygli. Konungshöllin El Palacio Real er glæsileg og listasöfn borgarinnar eru víðfræg en þar fer El Prado fremst í flokki. Í Madríd snæðum við kvöldverð á eigin vegum. Eftir töfrandi og skemmtilega ferð verður ekið á flugvöll í Madríd og er brottför kl. 23:55 og lending í Keflavík kl. 02:15 að staðartíma, aðfaranótt 14. september.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00