San Sebastián & Loire dalurinn
10. - 22. júní 2023 (13 dagar)
Sérlega ævintýraleg og ljúf ferð um Baskahéruðin á Norður-Spáni og Loire dalinn í Frakklandi sem einkennist af glæstum borgum, sjávarbæjum og dásamlegri náttúrufegurð. Ferðin byrjar í Madríd, höfuðborg Spánar, þar sem fallega skreytt hús og byggingar frá Habsborgaratímanum vekja verðskuldaða athygli. Baskahéruðin á Spáni taka á móti okkur í allri sinni dýrð, m.a. í bænum San Sebastian þar sem við fetum í fótspor kvikmyndastjarna og virðum fyrir okkur perluhvítan sandinn á La Concha ströndinni við Biscay flóann. Á leiðinni þangað verður stoppað í miðaldaborginni Burgos sem er ein af mikilvægustu borgunum á Jakobsveginum. Frá San Sebastían förum við til líflegu borgarinnar Bilbao og skoðum hið fræga Guggenheimsafn. Njótum lífsins í bænum Biarritz sem er ein af strandperlum Frakklands en þetta fallega borgarstæði er á milli klettóttrar Atlantshafsstrandarinnar og Pýreneafjallanna. Það er dásamlegt að koma í miðaldavirkisbæinn Hondarribia og gaman að upplifa hverfið La Marina, skemmtilega litríkt sjávarhverfi utan borgarmúranna. Fallegi bærinn Blois bíður okkar síðan við ána Loire sem er lengsta á landsins. Loire dalurinn er oft nefndur blómagarður Frakklands og er hann þekktastur fyrir stórkostlegar hallir og kastala sem voru leiksvið konunganna í margar aldir. Við lítum við hjá Chambord höllinni sem er næststærsta höll Frakklands, skoðum hvítu Chenoncau vatnahöllina og hallargarðinn sem er einstakur.