Annecy & Tossa de Mar

Dásamleg ferð um frönsku Alpana, Katalóníu á Spáni og Provence hérað í Suður-Frakklandi. Við lendum í Zürich en höldum rakleitt til borgarinnar Annecy við samnefnt vatn en hún er sannkölluð perla frönsku Alpanna. Hér njótum við þess að skoða okkur um og hægt er að fara í töfrandi siglingu á Annecy vatni. Nú bíður Katalónía á Spáni eftir okkur en við ökum fagra leið og stefnum á huggulega strandbæinn Tossa de Mar á Spáni, sem býr yfir merkum minjum og fornum borgarmúrum í hinum dulúðlega klettabæ Vila Vella. Við förum í dagsferð til glæsilegu heimsborgarinnar Barcelona og í yndislega siglingu til Lloret de Mar við Costa Brava ströndina og njótum lífsins á þessum dýrðarstað. Nú heldur ferð áfram til gömlu rómversku borgarinnar Orange í Provence héraði í Frakklandi en á leiðinni þangað bregðum við okkur til Figueres, fæðingarbæjar Salvador Dalí og skoðum safn með ævintýralegu verkunum hans. Frá Orange verður farið til sögulega bæjarins Arles og ævintýralega klettabæjarins Les Baux þaðan sem útsýnið er stórkostlegt. 

Verð á mann 269.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 62.600 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Leikhúsið Orange ca € 10. 
 • Salvador Dalí safnið í Figueres ca € 12. 
 • Sigling til Lloret de Mar ca € 22. 
 • Sigling á Annecy vatni ca € 15. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. október | Flug til Zürick & Annecy, perla frönsku Alpanna

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 13:05 að staðartíma. Ekin verður fögur leið um Sviss og inn í frönsku Alpana til Annecy. Líkt og Feneyjar er þessi glæsilega borg lögð fallegum síkjum sem gefa borginni einstakan blæ. Hér gistum við í tvær nætur á góðu hóteli í miðbænum en þaðan er örstutt í verslanir og að vatninu.

21. október | Dagur í Annecy & skoðunarferð

Að loknum morgunverði höldum við í gönguferð um Annecy sem er ein elsta borg frönsku Alpanna. Borgin er eins og gimsteinn í kórónu fjallanna sem umlykja hana. Staðsetning hennar við vatnið og síkin sem renna inn í borgina gera hana að undursamlegum stað. Yfir bænum gnæfir aldagömul höll og eru mörg húsanna í borginni frá 16. - 18. öld. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími til að kanna borgina betur á eigin vegum. Áhugasamir geta farið í heillandi siglingu á Annecy vatni, þar sem náttúrufegurðin lætur engan ósnortinn.

22. október | Annecy & Tossa de Mar á Spáni

Nú kveðjum við Annecy eftir yndislega daga. Ekið verður suður um Frakkland og stefnum við á miðaldabæinn Tossa de Mar við Costa Brava ströndina á Spáni. Hér munum við gista fimm nætur á góðu hóteli í miðbænum. Á hótelinu er útisundlaug.

Opna allt

23. október | Gönguferð í Tossa de Mar

Við hefjum daginn á fróðlegri gönguferð um Tossa de Mar. Því næst verður gengið upp í elsta hluta bæjarins, klettabæinn Vila Vella, sem umkringdur er borgarmúrum og turnum frá 14. öld. Þaðan gefur að líta fallegt útsýni yfir gjörvalla klettaströnd Tossa. Að koma inn í Vila Vella er eins og að ferðast aftur í tímann en enn er búið í nokkrum gömlu húsanna innan virkisveggjanna. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að kanna umhverfið á eigin vegum. Fyrir áhugasama eru fornar minjar frá rómverskum tímum að finna í nágrenni hótelsins en í bænum eru einnig margar huggulegar, litlar verslanir og upplagt að njóta frábærrar aðstöðu hótels okkar.

24. október | Ljúf sigling til Lloret de Mar

Að loknum morgunverði verður farið í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög huggulegur bær sem gaman er að rölta um en hann er einn af stóru verslunarbæjum Costa Brava strandarinnar. Þar er að finna fallegu kirkjuna Santa Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í góða göngu með ströndinni að miðaldavirkinu Sant Joan frá 11. öld. Eftir góðan tíma í bænum siglum við til baka.

25. október | Heimsborgin Barcelona

Barcelona, höfuðborg Katalóníu, er með fegurstu borgum álfunnar. Hún er þekkt fyrir byggingar arkitektsins Gaudí en glæsilegar byggingar skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og saga hennar merkileg en fegurð hennar og gestrisni íbúanna gera heimsóknina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia eftir Gaudí og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell. Ekið verður upp á hæðina Montjuïc, en þaðan er fallegasta útsýnið yfir borgina.

26. október | Frjáls dagur í Tossa de Mar

Frjáls dagur til að hvíla sig, njóta lífsins, láta dekra við sig á heilsulind hótelsins eða kanna umhverfið í rólegheitum. Í Tossa de Mar kennir margra grasa menningar og mannlífs, sem gaman er að kynna sér í rólegheitunum.

27. október | Salvador Dalí & Orange

Eftir yndislega daga á Spáni kveðjum við Tossa de Mar og ökum dásamlega leið yfir til rómversku borgarinnar Orange í Suður-Frakklandi. Á leið okkar heimsækjum við Figueres, fæðingarstað Salvador Dalí. Safnið Dalí Teatre-Museu er eitt mikilvægasta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar í Katalóníu og er algjört ævintýri að koma þar inn en Dalí sjálfur hannaði safnið. Bærinn er mjög líflegur og skemmtilegur og er upplagt að fá
sér hressingu eftir að við höfum skoðað safnið. Eftir það höldum við ferð okkar áfram til gömlu borgarinnar Orange, sem er fræg fyrir fornar rómverskar minjar, meðal annars mikilfenglegt hringleikahús. Við gistum þrjár nætur í miðborg Orange.

28. október | Frjáls dagur í Orange, útimarkaður & rómverska leikhúsið

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri að skoða það sem heillar og njóta verunnar í Orange, sem er töfrandi borg. En við ætlum að byrja daginn á því að fara í stutta göngu með fararstjóra okkar og skoða rómverska leikhúsið sem hefur prýtt borgina síðan snemma á 1. öld e. Kr., en leikhúsið er meðal best varðveittu hringleikahúsa heims og enn í dag eru þar haldnir tónleikar. Glæstar byggingar prýða borgina hvarvetna og er gaman að rölta um litlar kræklóttar götur hennar, fara inn á notalegt kaffihús eða veitingastað og eiga ljúfa stund. Einnig er skemmtilegur útimarkaður fyrir hádegi í dag sem er gaman að skoða. Fyrir þá sem vilja heldur taka það rólega er upplagt að njóta aðstöðunnar á hótelinu.

29. október | Arles & Les Baux

Nú verður ekið sem leið liggur suður til bæjarins Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands. Farið verður í skoðunarferð um þennan sögulega bæ þar sem við skoðum meðal annars magnað rómverskt hringleikahús. Í Arles er Van Gogh safn, en listamaðurinn bjó þar um tíma og málaði þar mörg sín þekktustu verk, þ.á m. Gula kaffihúsið. Eftir frjálsan tíma verður ekið til ævintýralega klettabæjarins Les Baux sem var miðstöð trúbadora og mótmælenda til forna. Hrikaleg fegurð umvefur staðinn og útsýnið þar er einstakt, sérstaklega frá kastalarústunum á toppinum sem eru einkar áhugaverðar. Í Les Baux má einnig upplifa einstaka myndlistarsýningu sem varpað er á veggi í gamalli námu.

30. október | Orange & Zürich

Nú er komið að því að kveðja Orange eftir ljúfa daga. Ekin verður fögur leið norður um Fakkland og stefnum síðan inn í Sviss til Zürich þar sem gist verður í eina nótt á góðu hóteli stutt frá flugvellinum.

31. október | Heimferð Zürich

Eftir góðan morgunverð og glæsilega ferð verður ekið út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 13:05 og lending í Keflavík kl. 15:55 að staðartíma.
Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00