Leyndarmál Egyptalands

Egyptaland hefur að geyma marga leyndardóma úr fortíðinni. Í þessari ferð er flogið í gegnum London til Kaíró í Egyptalandi og eftir að hafa skoðað borgina og heimsótt Egypska safnið verður haldið til hafnarborgarinnar Alexandríu sem dregur nafn sitt af Alexander mikla. 

Merkustu staðir borgarinnar verða skoðaðir, líkt og grafhvelfingarnar, sögufræga bókasafnið, Pompey súluna og Quait borgarvirkið. Ekið verður til flugvallar Kaíró og flogið áfram til Lúxor. Þar er farið um borð í fljótaskip og siglt næstu daga eftir fljótinu Níl. Á hverjum degi er farið í skoðunarferðir út frá skipinu og eru þær ekki af verri endanum. Þar má nefna Konungadalinn með öllum þeim fornminjum sem þar hafa fundist, Hórusarhofið, hof drottningarinnar Hatshepsut, Abu Simbel hofin, Kom Ombo, Elephantine eyju, Philae hofið og margt fleira. Siglt er aftur til Lúxor og skoðum það markverðasta þar, eins og Lúxor og Karnak hofin, áður en flogið er aftur til Kaíró. Við munum að sjálfsögðu skoða pýramídana við Giza ásamt Sfinxinum og fara á hinn fræga El Kahlili markað áður en haldið verður heim á leið.

Verð á mann 499.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 99.900 kr.


Innifalið

 • Áætlunarflug með Icelandair til og frá London. 
 • Áætlunarflug með British Airways á almennu farrými til og frá Kaíró.
 • Innanlandsflug Kaíró – Lúxor – Kaíró. 
 • Flugvallarskattar.
 • Allar rútuferðir í nútímalegum loftkældum rútum samkvæmt ferðalýsingu.
 • Gisting í 7 nætur á 5* hótelum í Egyptalandi samkvæmt landsmælikvarða. 
 • Gisting í 7 nætur á 5* fljótabáti á ánni Níl samkvæmt landsmælikvarða með fullu fæði. 
 • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu. (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður). 
 • Enskumælandi staðarleiðsögn. 
 • Íslensk fararstjórn.
 • Vegabréfsáritun.

Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu:

 • Kaíró – aðgangur að borgarvirki Salah ad-Din, moskum Mohammed Ali, soldánsins Hassan og Al-Rifa'i og að Egypska safninu. 
 • Alexandría – aðgangur að grafhvelfingum rómverska keisaradæmisins, Pompey súlunnar, Quait Bay borgarvirkinu, fornbókasafni Alexandríu og að Wadi el Natrun klaustrunum.
 • V-Þeba – með Konungadalnum, Hatshepsút hofinu og Memnonsstyttunum. 
 • Edfu – aðgangur að Hórusarhofinu.
 • Asúan – Ókláraða broddsúlan, Asúan stíflan og sigling til Elephantine eyju. Bátsferð til Núbíuþjóðflokksins.
 • Kom Ombo – aðgangur að hofi.
 • Lúxor – aðgangur að Karnak hofinu og Lúxorhofinu. 
 • Kaíró – skoðunarferð um gamla hluta Kaíró. 
 • Rútuferð að pýramídum Giza.  

Ekki innifalið

 • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
 • Aðgangseyrir að múmíusalnum í Egypska safninu.
 • Aðgangseyrir að Tut Ankh Amoun hvelfingunni.
 • Aðgangseyrir að Keops pýramídanum.
 • Þjórfé fyrir erlenda fararstjórann og rútubílstjóra.
 • Farangursþjónusta.
 • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Valfrjálsar skoðunarferðir (hægt að bóka á staðnum)

 • Abu Simbel með rútu (ca € 65 á mann).
 • Hestakerruferð í Lúxor (ca € 28 á mann).
 • Loftbelgur við sólarupprás  (ca € 100 á mann).

Egyptalandsferðir Bændaferða

Það er okkur sönn ánægja að bjóða nú á ný upp á ferð til hins stórbrotna og söguríka menningarheims Egyptalands. Óslitið frá 2005 til 2012 buðu Bændaferðir upp á ferðir til þessa leyndardómsfulla lands og er því óhætt að segja að við búum bæði yfir mikilli reynslu og þekkingu hvað ferðir þangað varðar. Frá upphafi höfum við einnig unnið með sömu aðilum að skipulagningu ferðanna, með mjög góðum árangri, en það er okkur mikilvægt að vinna með aðilum sem við getum treyst og vanda ávallt til verka.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

29. október | Flug til London – Kaíró

Brottför frá Íslandi kl. 7:40 og lent í London kl. 10:50 að staðartíma (enginn tímamismunur). Flug áfram til Kaíró með British Airways kl. 20:30 og lent kl. 03:25 að staðartíma (+ 2 klst.).

30. október | Skoðunarferð um Kaíró

Eftir komuna til Kaíró verður haldið á hótel í borginni og hægt að hvílast til hádegis. Eftir hádegi skoðum við borgarvirki Salah ad-Din, hina miklu mosku Mohammed Ali og mosku soldánsins Hassan sem var á tímum Bahri Mamluk konungsveldisins eitt stærsta mannvirki í veröldinni og er það stórfenglegt á að líta. Að lokum heimsækjum við Al-Rifa'i moskuna, áhrifamikinn 19. aldar helgistað sem hýsir fjöldann allan af egypskum grafhvelfingum. Áður en haldið verður aftur á hótel, snæðum við snemmbúinn kvöldverð á veitingastað í nágrenninu.

 • Morgunverður
 • Kvöldverður

31. október | Egypska safnið – Alexandría

Eftir morgunverð skráum við okkur út af hótelinu og förum í skoðunarferð í hið fræga Egypska safn, stærsta safn veraldar sem geymir list Egyptalands til forna. Það er hvað þekktast fyrir að geyma fjársjóð Tútankamons (Tutankhamun) sem telur yfir 4000 einstaka hluti sem settir voru með honum í gröfina. Snæðum hádegisverð á veitingastað á svæðinu og ökum svo til hafnarborgarinnar Alexandríu sem dregur nafn sitt af Alexander mikla. Ferðin ætti að taka um 3 klst. en ekið verður beina leið á hótelið þar sem við snæðum kvöldverð og gistum í 2 nætur.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður
Opna allt

1. nóvember | Skoðunarferð um Alexandríu

Í dag verður farið í skoðunarferð um Alexandríu. Skoðum grafhvelfingarnar sem er stærsti grafreitur rómverska keisaradæmisins. Skoðum Pompey súluna og Quait Bay borgarvirkið. Hádegisverð snæðum við á sjávarréttastað í borginni. Eftir hádegisverð heimsækjum við bókasafn Alexandríu, stærsta og þýðingarmesta bókasafn hins forna heims.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

2. nóvember | Wadi El Natrun dalurinn – Kaíró – flug til Lúxor

Eftir morgunverð liggur leið okkar á flugvöllinn í Kaíró með rútu. Á leiðinni ökum við um Wadi El Natrun dalinn sem er 110 km langur og hvað þekktastur fyrir klaustur sem voru þar til forna. Við sjáum Al-Sorian klaustrið, Al Baramose klaustrið og heimsækjum Sankti Beshoy klaustrið. Hádegisverður snæddur á leiðinni. Brottför okkar frá Kaíró er kl. 17:30 og lendum við í Lúxor kl. 18:30. Höldum beint í skemmtiferðaskip á ánni Níl. Gist um borð í skipinu næstu 7 nætur. Kvöldverður um borð.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

3. nóvember | Konungadalurinn – Memnonstytturnar

Haldið að vesturbökkum Nílar til Þebu en í dag er komið að einum hápunkti ferðarinnar, Konungadalnum. Þarna eru m.a. hinar frægu Memnonstyttur, risavaxnar styttur af Amenhótep III konungi við Konungadalinn og dauðahof Hatshepsut drottningar (aðgangur að Tut Ankh Amoun hvelfingunni ekki innifalinn). Við fáum okkur hádegisverð á skipinu og höldum eftir Níl um Esnu til Edfu. Kvöldverður og gisting um borð.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

4. nóvember | Hórusarhofið – Kom Ombo – Asúan

Í dag verður Hórusarhofið í Edfu skoðað en það er talið vera yfir 2000 ára gamalt og er nefnt eftir guðinum Hórusi. Haldið aftur til skips og siglt upp Níl til Kom Ombo, fornrar egypskrar borgar sem við sjáum meira af síðar í ferðinni. Kvöldverður og gisting um borð við borgina Asúan.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

5. nóvember | Asúan – frjáls eftirmiðdagur

Eftir morgunverð fáum við notið skoðunarferðar um Asúan. Byrjum við á stærstu (sem kunnugt er), fornu 42 m háu broddsúlu, en hún er þekkt undir heitinu Ókláraða broddsúlan. Einnig skoðum við verkfræðilegt stórvirki, stífluna es-Sadd el-Ali eða Asúan stífluna, stærstu stíflu Nílarfljóts (111m há, 3,5 km löng og 1 km breið) en hún var reist á árunum 1960-71 með aðstoð Sovétmanna. Uppistöðulónið, hið risastóra Nasservatn (560 km langt og um 4000 km²), nær langt inn í Súdan. Sjáum einnig Fílæ-hofið á eyjunni Philae. Restina af deginum er tilvalið að slaka á á skipinu. Kvöldverður og gisting um borð við borgina Asúan.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

6. nóvember | Frjáls tími eða valfrjáls skoðunarferð til Abu Simbel

Eldsnemma um morguninn gefst tækifæri til að fara í skoðunarferð með rútu til Abu Simbel hofanna (ekki innifalið). Miklar umræður voru um Abu Simbel hofin á sjöunda áratugnum þegar Sadd el-Ali við Asúan var byggð þar sem talin var hætta á að vatn myndi flæða yfir og eyðileggja hofin. Á árunum 1963-68 voru hofin því færð lengra inn í eyðimörkina. Þeir sem kjósa að fara ekki með í skoðunarferðina geta slakað á um borð í skipinu. Síðdegis verður siglt til Elephantine eyju og siglt í kringum grafhýsið Agha Khan. Höldum síðan aftur í skipið okkar.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

7. nóvember | Núbíuþorpið

Eftir morgunverð förum við í heimsókn með vélbátum í þorp Núbíumanna, yfir á vesturbakka Nílar. Núbíumenn hafa búið á þessu svæði í þúsundir ára en tugir þorpa þessa fólks fór undir vatn við byggingu Asúan stíflunnar. Fáum að kynnast náttúrulegu og einföldu lífi Núbíufólksins og förum í heimsókn í bæði skóla og hýbýli þeirra. Fáum hressingu hér og ef vill gefst tækifæri til að búa til Henna tattú. Við stoppum til að synda í Níl og jafnvel ríða á kameldýri! Hægt verður festa kaup á litríkum teppum og handunnum treflum Núbíufólksins úr fallegum efnum. Förum til baka í skipið okkar og siglum með fram Níl til hinnar fornu borgar Kom Ombo. Á leiðinni er tilvalið að slaka á og njóta hins fallega landslags. Í Kom Ombo verður farið í stutta skoðunarferð. Hofið í Kom Ombo stendur á hól rétt við ströndina. Frá hofinu er fallegt útsýni yfir Níl og nærliggjandi svæði. Um kvöldið verður síðan siglt áfram til Edfu. Hádegisverður, kvöldverður og gisting um borð við Edfu.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

8. nóvember | Sigling á Níl og afslöppun

Nú siglum við frá Edfu til borgarinnar Lúxor. Síðdegis geta þeir sem hafa áhuga farið í ferð í hestakerru ásamt bæjarferð um markaðstorgið, Souq (ekki innifalið). Gistum um borð við borgina Lúxor.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

9. nóvember | Karnak hofið – Lúxor hofið

Eldsnemma þennan morgun er hægt að fara í ferð með loftbelg við sólarupprás (ekki innifalið). Eftir morgunverð förum við yfir á austurbakkann þar sem Karnak hofið verður skoðað, en það ásamt Lúxorhofinu sem Amenopis II lét reisa eru ein flottustu musteri og hof Egyptalands. Eftir þessa skoðunarferð skráum við okkur inn á hótel í Lúxor þar sem við gistum í 1 nótt. Eftir hádegi skoðum við síðan Lúxor hofið. Hádegis- og kvöldverður í dag á eigin vegum.

 • Morgunverður

10. nóvember | Flug til Kaíró

Eftir morgunverð er farið með flugi frá Lúxor til Kaíró og þaðan haldið beint í skoðunarferð í gamla hluta Kaíró. Byrjum í bænahúsi Ben Ezra, stærsta og elsta bænahúsi í Egyptalandi, byggðu árið 882 e. Krist. Hádegisverður snæddur á veitingastað á svæðinu. Eftir hádegisverð er frjáls tími til að ganga um og skoða hinn fræga El Kahlili markað, einn þann stærsta í Miðausturlöndum og þann þekktasta í N-Afríku. Haldið á hótel þar sem gist verður í 2 nætur. Kvöldverður á eigin vegum.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður

11. nóvember | Pýramídarnir í Giza

Nú er komið að rúsínunni í pylsuendanum en í dag verður farið á svæði pýramídanna í Giza. Höldum til Memphis sem var höfuðborg Egyptalands til forna. Þar skoðum við elsta pýramídann, svokallaðan Djoser pýramídann í Saqqara. Eftir hádegi höldum við svo til Giza sem er um 20 km norður af Memphis. Í Giza er m.a. hinn frægi pýramídi, Keops, Keferan pýramídinn og hin fræga Sfinx. Um kvöldið snæðum við kveðjukvöldverð á hótelinu.

 • Morgunverður
 • Hádegisverður
 • Kvöldverður

12. nóvember | Heimferð - Kaíró – London – Keflavík

Fljúgum til baka til London og er brottför frá Kaíró kl. 06:40. Flugið frá London er áætlað kl. 20:30. Áætlaður lendingartími í Keflavík kl. 23:40.

 • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00