Ítalíudraumur

Þessi ferð er sannkallaður Ítalíudraumur með glæsilegum áfangastöðum í góðum félagsskap. Upplifum dásemdir Puglia héraðs, hin einstöku trulli hús og ólýsanlega fegurð við Napólíflóa í bænum Sorrento ásamt eynni Caprí. Ferðin hefst í Guardamiglio þaðan sem ekið verður til hins þekkta pílagrímsbæjar Loreto en þar lítum við á kirkjuna Santuario della Santa Casa áður en farið er á náttstað í Ancona. Ævintýrið byrjar svo í Puglia héraði í perlunni Ostuni, eða hvítu borginni eins og hún er kölluð, þar sem hvarvetna má sjá hvítkölkuð hús. Bærinn Alberobello, sem er skráður á heimsminjaskrá UNESCO, er einn áhugaverðasti staður trulli svæðisins, þar sem gefur á að líta hundruð hvítkalkaðra steinhúsa með keiluþökum. Það er mögnuð upplifun að koma til borgarinnar Matera þar sem heil hús, íbúðir og hallir eru grafnar inn í kletta og minnir staðurinn óneitanlega á gömlu Jerúsalem. Bærinn Otranto minnir á gríska bæi en hann er einn fallegasti og eftirsóttasti staður í Puglia héraði. Þá verður ekið til Sorrento við Napólíflóa þar sem náttúrufegurð umvefur okkur. Á leiðinni verður áð í Pompei sem geymir frægustu fornminjar veraldar. Farið verður í ævintýralega siglingu til Caprí, sæbrattrar klettaeyju þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Þá bæði siglum við og ökum eftir Amalfíströndinni, einnar fallegustu strandar Ítalíu og að síðustu er það borgin Pistoia í Toskana héraði en þar njótum við lífsins og slökum á. 

Verð á mann 449.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 99.900 kr.


Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Ferja til og frá Caprí.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling & ferð með smárútum meðfram Amalfíströndinni, 9.900 kr. Þarf að bókast samhliða ferðinni. 
 • Aðgangur inn í Pompei ca € 18.
 • Hellaborgin Matera ca € 12.
 • Sigling og önnur sigling inn í Bláa hellir ca € 30.
 • Kláfur upp á Monte Solaro fjall ca € 12.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. ágúst | Flug til Mílanó

Brottför frá Keflavík kl. 14:00, mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 20:15 að staðartíma. Gist verður fyrstu nóttina á góðu hóteli í Guardamiglio sunnan við Mílanó.

8. ágúst | Mílanó, Loreto & Ancona

Eftir góðan morgunverð og rólegheit verður stefnan tekin á Ancona við Adríahaf, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Syrcuse, settust að og gáfu borginni nafnið Ancona. Hér verður gist í eina nótt. Áður en ekið verður á hótel verður farið inn í hinn þekkta pílagrímsbæ Loreto þar sem við lítum á kirkjuna Santuario della Santa Casa sem er önnur í röðinni á eftir Péturskirkjunni í Róm á lista yfir mest sóttu pílagrímsstaði í heiminum. Þjóðsagan segir frá því að fjórir englar hafi flutt hús heilögu fjölskyldunnar eða Maríu meyjar frá Nazaret til Loreto og síðan hafi kirkjan verið byggð utan um það. Á þetta að hafa gerst rétt áður en krossfararnir töpuðu svæðinu til heiðingjanna. Mjög áhugavert er að skoða kirkjuna og alla umgjörð hennar sem er svo hrífandi.

9. ágúst | Héraðið Puglia & hvíta borgin Ostuni

Nú bíður Puglia héraðið eftir okkur í allri sinni dýrð og við stefnum til litlu borgarinnar Ostuni sem betur er þekkt sem hvíta borgin. Þessi einstaklega töfrandi borg þar sem hvarvetna má sjá hvítkölkuð hús, líkist gjarnan stórri rjómatertu þegar bæinn ber fyrir augu. Hér munum við gista fimm nætur við gamla miðbæinn í Ostuni. Á hótelinu er útisundlaug, heilsulind og sólarverönd.

Opna allt

10. ágúst | Alberobello & Trulli húsin

Þessi ævintýradagur hefst í bænum Alberobello, miðstöð trulli svæðisins í Puglia, en árið 1996 var bærinn skráður á heimsminjaskrá UNESCO fyrir sérkennilegar byggingar. Þar eru um 1000 lítil og hringlaga hvítkölkuð steinhús, hlaðin með keiluþökum. Húsin eru einkennandi fyrir svæðið og voru notuð sem hús hjarðmanna og bænda, en í stærsta húsinu er að finna merkilegt safn. Einstaklega gaman er að ganga um götur bæjarins þar sem finna má fjölda minjagripaverslana og víða býðst að smakka á fljótandi gulli heimamanna, ólívuolíunni, sem á þessum slóðum drýpur af hverju strái. Hér gefst frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum og upplagt að fá sér hádegissnarl áður en ekið verður til baka á hótelið í Ostuni.

11. ágúst | Rólegur dagur í Ostuni

Nú gefst tækifæri til að slaka á og njóta þessa dásamlega bæjar. Eftir góðan morgunverð röltum við saman um bæinn en eftir það er upplagt að skoða sig betur um, líta inn í litlar, forvitnilegar verslanir og kynna sér líf bæjarbúa. Þeir sem vilja láta fara vel um sig á hótelinu, geta nýtt góða aðstöðu þess, sett tærnar upp í loft í sólbaðsaðstöðunni eða heilsulindinni og hvílst.

12. ágúst | Hellaborgin Matera & Altamura

Það er mikil upplifun að koma til borgarinnar Matera sem er á dagskrá okkar í dag, en hún hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1993. Það er ævintýri líkast að koma þangað og sjá hús, kirkjur og hallir frá 4. öld f. Kr. höggnar inn í bergið og minna á gömlu Jerúsalem eða katakomburnar. Árið 1950 bjuggu enn um 20.000 manns hér, en þessir hellabústaðir eru kallaðar Sassi. Á leiðinni til baka verður áð í Altamura til að skoða stæðilega dómkirkju með frægum rósaglugga.  

13. ágúst | Dagur í Otranto

Ekið verður til virkisbæjarins Otranto sem með dýrðlegu umhverfi og framandi, grískum blæ hrífur alla með sér. Dómkirkjan er fræg fyrir meira en 800 ára gamalt mósaíklagt kirkjugólfið en um 10 milljónir steina, lagðir á tæpa 1600 m2, segja sögur úr ýmsum áttum, ekki bara úr Biblíunni heldur líka frá miðöldum, Grikklandi til forna og frá ýmsum hetjum sögunnar. Þetta stórvirki listasögunnar er gott dæmi um svita og þrotlaust strit listamanna fyrri tíma. Bærinn er ein af perlum landsins og fegurðin við Adríahafið er einstök. Við gefum okkur góðan tíma til að njóta alls þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Á góðum degi sést þaðan alla leið yfir til Albaníu.

14. ágúst | Ostuni, Pompei & Sorrento

Nú kveðjum við Ostuni eftir yndislega dvöl og er stefnan tekin á Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins. Á leiðinni þangað heimsækjum við Pompei og lítum á einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleika um söguna. Eftir að hafa staldrað við í Pompei drykklanga stund, höldum við áfram til Sorrento. Bærinn er einstakt augnayndi, byggður í bröttum hlíðum þar sem vaxa ólívu-, appelsínu- og sítrónutré, en þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Gist verður fimm nætur í Sorrento á góðu hóteli en þaðan er stórkostlegt útsýni.

15. ágúst | Dagur í Sorrento við Napólíflóa

Dagurinn er tilvalinn til afslöppunar. Fararstjórinn býður upp á stutta skoðunarferð um bæinn og eftir það er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento, eins eftirsóttasta ferðamannabæjar á Sorrento skaganum. Í bænum er fjöldinn allur af þröngum, gömlum götum, fögrum kirkjum og glæstum byggingum.

16. ágúst | Sigling yfir á eyna Caprí

Farið verður í siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans og þar upplifum við yndislega náttúrufegurð og fetum jafnvel í fótspor Davíðs Stefánssonar og syngjum Caprí sveinana. Við skoðum eyna, siglum að bláa hellinum Grotta Azzurra og förum upp til Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst einnig tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Jafnframt verður hægt að líta á kniplinga og alls kyns handunnar vefnaðarvörur, dúka, klæði og fatnað.

17. ágúst | Sigling & rúta með Amalfíströndinni

Töfrandi dagsferð um Amalfíströndina þar sem fegurðin er svo sannarlega einstök. Við hefjum ferðina á siglingu með fram ströndinni til bæjarins Amalfí þar sem við stígum á land og skoðum okkur um. Á rölti um bæinn sjáum við mikilfenglega dómkirkju frá 10. öld, snotur veitinga- og kaffihús og litlar verslanir sem gaman er að kíkja inn í. Eftir góðan tíma þar verður ekið með smárútum til baka eftir Amalfíströndinni um stórbrotin gil, milli smábæja og hótela sem hanga á klettabrúninni. Hvarvetna gefur að líta dásamlegt landslag. Við mælum eindregið með því að gestir gæði sér á grilluðum fiski í hádeginu, sem er einn helsti sérréttur íbúa svæðisins.

18. ágúst | Rólegheit í Sorrento

Rólegheit og slökun er á dagskrá hjá okkur í dag. Upplagt er að skoða sig betur um í bænum sem er undurfagur og líflegur. Hægt er að fara í skemmtilega ferð með smálest um nágrenni bæjarins. Svo er tilvalið að nota þessa frábæru aðstöðu við hótelið okkar.

19. ágúst | Sorrento & Pistoia í Toskana héraði

Nú kveðjum við þennan yndislega stað eftir góða daga. Ekið verður í gegnum Toskana hérað sem er rómað fyrir fegurð og til Pistoia í héraðinu þar sem gist verður í 2 nætur uppi á hæð við borgina þar sem við njótum lífsins og slökum á. Á hótelinu er útisundlaug og fallegur garður

20. ágúst | Pistoia & frjáls dagur

Í rólegheitum byrjum við á góðum morgunverði en eftir það verður farið inn í Pistoia sem er ein af gömlu, sögufrægu borgunum. Í hjarta þessa fallega, gamla bæjar liggur dómkirkjutorgið sem er rammað inn af mikilvægustu byggingum borgarinnar, m.a. dómkirkjunni San Zeno, skírnarkapellunni, ráðhúsinu, dómshúsinu og biskupshöllinni. Dómkirkjutorgið er sagt eitt fallegasta torg Toskana héraðs. Njótum þess að skoða okkur um og kanna líf bæjarbúa. Upplagt er að fá sér hádegishressingu áður en ekið verður á hótelið okkar. Eigum þar dásemdardag í slökun og rólegheitum.

21. ágúst | Heimferð frá Mílanó

Nú er komið að heimferð eftir yndislega og ævintýralega ferð. Eftir góðan morgunverð er ekið til heimsborgarinnar Mílanó. Við förum þar í stutta göngu og síðan gefst frjáls tími til að skoða sig betur um eða líta í verslanir. Upplagt er að fá sér kvöldverð á einhverjum fjölmörgu veitingastaða borgarinnar áður en ekið er út á flugvöll. Flug þaðan kl. 21:15 og lending í Keflavík kl. 23:30 að íslenskum tíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00