Fjöll & funi í Tíról

Í Hohe Tauern þjóðgarðinum í Austurríki leikur um okkur stórkostleg fjallafegurð með 3000 m háum fjöllum og suðrænum blæ. Þessi töfrandi ferð er um Austur-Tíról og til gömlu rómversku borgarinnar Regensburg í Þýskalandi. Við byrjum í skíðabænum Matrei í Austur-Tíról, sem er hrífandi ferðamannabær jafnt sumar sem vetur. Þaðan förum við í ævintýralegar ferðir, m.a. til Suður-Tíról á Ítalíu, að hinu undurfagra Misurina vatni, þar sem ólympíuleikarnir í skautahlaupi fóru fram 1956. Þaðan er stórkostlegt útsýni á þrjá frægustu tinda Dólómítanna, Drei Zinnen. Komið er til Cortina d‘Ampezzo sem er heimsfrægur skíðabær. Suðrænn blær svífur um í Lienz, fallega höfuðstað Austur-Tíróls sem er blómum og pálmum prýddur. Upplifum ævintýri á leið um Groβglockner Hochalpenstraβe sem liggur upp í 2.571 m hæð og er ein glæsilegasta alpaleið Evrópu. Við fögnum sumarsólstöðum í sæluhúsi uppi í fjöllum með tónlist og kvöldverði og fylgjumst með því þegar eldar loga í fjöllunum í kring að miðaldasið. Ferðin endar í gömlu borginni Regensburg og þaðan verður Walhalla sótt heim, marmarahöllin sem var byggð eftir fyrirmynd Parthenon hofsins í Aþenu. Loks verður farið í siglingu á Dóná, þar sem Niflungar ferðuðust um til hirðar Etzels konungs, að Weltenburg klaustrinu sem er meðal elstu bjórbrugghúsa landsins. 

Verð á mann 238.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 32.600 kr.


Innifalið

 • 9 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Kvöldverður í Würfelehütte með lifandi tónlist.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur inn í Walhalla ca € 5.
 • Sigling á Dóná til Weltenburg ca € 12.
 • Aðgangur upp í Kastalann í Kufstein ca € 13.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

17. júní | Flug til München & Matrei í Tíról

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið til Matrei í Austur-Tíról sem er mikið sóttur ferðamannabær. Bærinn er við Felber Tauern fjöllin þar sem hæsta fjall landsins er að finna. Hér verður gist í 5 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Herbergin eru öll með svölum og á hótelinu er heilsulind með innisundlaug, sána og gufubaði.

18. júní | Misurina vatn, Dólómítarnir & Cortina d‘Ampezzo

Í dag verður farið í skemmtilega ferð yfir til Ítalíu að Misurina vatni, þar sem ólympíuleikarnir í skautahlaupi fóru fram 1956. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á ítölsku Dólómítana. Eftir gott stopp þar verður ekið til Cortina d‘Ampezzo sem er heimsfrægur ferðamannabær við endann á þessari fallegu Dólómítaleið. Í Cortina voru 7. vetrarólympíuleikarnir haldnir árið 1956 og er bærinn einnig vel sóttur af fjallaklifurhópum, en bærinn er í 1224 m yfir sjávarmáli og baðaður í fjallafegurð.

19. júní | Borgin Lienz & frjáls tími

Suðrænn blær tekur á móti okkur í Lienz, fallega höfuðstað Austur-Tíróls og einni af perlum landsins. Bærinn er við ána Isel þar sem hún rennur í ána Drau. Fegurðin hér hrífur alla með sér en bærinn er skreyttur blómum og pálmatrjám með ótrúlega mörgum, skemmtilegum kaffi- og veitingahúsum. Stolt bæjarbúa er höllin Bruck í 724 m hæð og er þar að finna einn þekktasta veitingastað bæjarins. Farið verður í stutta skoðunarferð og eftir það verður tími til að fá sér hressingu og einnig er gaman að líta í verslanir sem eru fjölmargar í einum vinsælasti ferðamannabæ landsins.

Opna allt

20. júní | Großglockner Hochalpenstraße

Ævintýralegur dagur er á dagskrá í dag. Ferðinni er heitið um Groβglockner Hochalpenstraβe sem liggur uppi í 2.571 m hæð, með hlíðum fjallsins fræga Großglockner, hæsta fjalli landsins. Þessi leið er sögð ein glæsilegasta alpaleið í Evrópu en á þessari leið er einstök náttúrufegurð og útsýnið stórbrotið. Á Franz Josefs hæðinni verður dvalið góða stund þar sem við njótum töfrandi útsýnis yfir á Pasterze, lengsta jökuls landsins. Þarna svífa yfir sjaldgæfir ránfuglar og einnig gætu orðið á vegi okkar alpageitur, búfénaður og múrmeldýr. Hér verður tími til að fá sér hressingu og ganga aðeins um svæðið. Um kvöldið fer fram sumarsólstöðuhátíð og verður lengsta degi ársins fagnað í sæluhúsi uppi í fjöllum. Á þessu svæði kallast þetta „Berge in Flammen“ eða „Sonnwendfeuer“ en hátt uppi í fjöllum er kveikt á kyndlum og sér maður hvarvetna fjöll í logum. Á miðöldum var þessum degi ársins ávallt fagnað með slíkum eldum, lifandi tónlist, góðum mat og hefur sú hefð haldist alla tíð síðan. Við fáum upplifað slíka hátíð í kvöld.

21. júní | Slökun & rólegheit í Matrei

Í dag tökum við það rólega, njótum þess að vera á þessum fallega stað og upplagt að kanna líf bæjarbúa og fá sér góðan göngutúr. Matrei er yndislegur bær og eins konar miðpunktur héraðsins, en þar búa um 5000 íbúar. Stolt og perla bæjarins, Weißenstein höllin, trónar í 1029 m hæð yfir bænum og fallegar freskur skreyta hús og kirkjur. Frá Matrei er hægt að taka kláf upp á Goldried fjall sem er í 2.163 m hæð. Þar uppi opnast dásamlegur heimur og útsýni magnað. Einnig er hægt að ganga fjölskylduhringinn svonefnda sem er ca 5 km en þaðan er stórkostleg útsýni á Großglockner, hæsta fjall Austurríkis.

22. júní | Matrei, Kufstein & Regensburg

Við kveðjum Matrei eftir yndislega daga í Austur-Tíról. Nú er ekið til gömlu rómversku borgarinnar Regensburg í Þýskalandi þar sem gist verður í þrjár nætur á hóteli í miðbæ borgarinnar. Á leiðinni þangað verður stoppað í Kufstein við ána Inn með miðaldakastala sínum. Hann gnæfir yfir borginni með hetjuorgelið svokallaða, stærsta útiorgel í heimi.

23. júní | Walhalla, sigling á Dóná & Regensburg

Þessi ljúfi dagur byrjar við Marmarahöllina Walhalla við Dóná, sem er byggð í dórískum stíl en fyrirmynd hennar er Parthenon hofið í Aþenu. Bæverski konungurinn Ludwig I 1825-1848 lét reisa höllina sem telst eitt af meistaraverkum listsköpunar hans en mikil uppbygging var í borgum Bæjaralands á hans tíma. Þar er m.a. hægt að skoða brjóststyttur úr marmara af fyrirmönnum landsins. Útsýnið frá höllinni lætur engan ósnortinn. Þessu næst verður farið í siglingu á Dóná, næstlengsta fljóti Evrópu sem er 2.840 km. Með fram ánni eru ævafornar samgönguleiðir þar sem m.a. Niflungar ferðuðust um til hirðar Etzels konungs. Siglt verður að Weltenburg klaustrinu frá Kelheim. Þar er eitt elsta bjórbrugghús landsins, veitingastaður og mjög falleg klausturkirkja. Klaustrið stendur við ána og hér er upplagt að fá sér hressingu og njóta fegurðar svæðisins við ána.

24. júní | Stutt skoðunarferð í Regensburg & frjáls tími

Byrjum daginn rólega, en eftir morgunverð förum við saman um elsta hluta Regensburg á skemmtilegri göngu, en sá hluti borgarinnar er skráður á heimsminjaskrá UNESCO. Margar glæstar byggingar prýða borgina, þ.á.m. dómkirkjan, ráðhúsið og gamla brúin. Þá er borgin einnig fræg fyrir gömlu íbúðaturna sína. Eftir skoðunarferð verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum og upplagt að fá sér steikta pylsu, „Bratwurst“, á veitingastað frá 12. öld sem er þekktur fyrir að vera einn elsti og besti pylsustaður Þýskalands.

25. júní | Heimferð frá München

Nú er komið að kveðjustund eftir skemmtilega og ævintýralega ferð, við ökum út á flugvöll í München. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00