17. - 25. júní 2020 (9 dagar)
Í Hohe Tauern þjóðgarðinum í Austurríki leikur um okkur stórkostleg fjallafegurð með 3000 m háum fjöllum og suðrænum blæ. Þessi töfrandi ferð er um Austur-Tíról og til gömlu rómversku borgarinnar Regensburg í Þýskalandi. Við byrjum í skíðabænum Matrei í Austur-Tíról, sem er hrífandi ferðamannabær jafnt sumar sem vetur. Þaðan förum við í ævintýralegar ferðir, m.a. til Suður-Tíról á Ítalíu, að hinu undurfagra Misurina vatni, þar sem ólympíuleikarnir í skautahlaupi fóru fram 1956. Þaðan er stórkostlegt útsýni á þrjá frægustu tinda Dólómítanna, Drei Zinnen. Komið er til Cortina d‘Ampezzo sem er heimsfrægur skíðabær. Suðrænn blær svífur um í Lienz, fallega höfuðstað Austur-Tíróls sem er blómum og pálmum prýddur. Upplifum ævintýri á leið um Groβglockner Hochalpenstraβe sem liggur upp í 2.571 m hæð og er ein glæsilegasta alpaleið Evrópu. Við fögnum sumarsólstöðum í sæluhúsi uppi í fjöllum með tónlist og kvöldverði og fylgjumst með því þegar eldar loga í fjöllunum í kring að miðaldasið. Ferðin endar í gömlu borginni Regensburg og þaðan verður Walhalla sótt heim, marmarahöllin sem var byggð eftir fyrirmynd Parthenon hofsins í Aþenu. Loks verður farið í siglingu á Dóná, þar sem Niflungar ferðuðust um til hirðar Etzels konungs, að Weltenburg klaustrinu sem er meðal elstu bjórbrugghúsa landsins.