Litadýrð í Lissabon & Porto
11. - 21. september 2023 (11 dagar)
Í þessari nýju og stórglæsilegu ferð til Portúgal höldum við til litríku borganna Lissabon og Porto ásamt fleiri tilkomumiklum áfangastöðum í þessu dásamlega landi. Ferðin hefst í Lissabon sem oft er kölluð hvíta borgin á sjö hæðum. Borgin er með fallegri höfuðborgum Evrópu og sannkölluð paradís ferðalangsins. Við heimsækjum ævintýrabæinn Sintra og að sjálfsögðu vestasta punkt meginlands Evrópu, Cape Cabo da Roca. Við skoðum hafnarborgina Setúbal, þaðan sem margir sjókönnunarleiðangrar Portúgala fyrr á öldum hófust og borgina Évora sem er fræg fyrir sína fjölbreyttu byggingarstíla og er á heimsminjaskrá UNESCO. Við höldum svo til hinnar dásamlegu Porto, sem staðsett er við mynni Duoro fljótsins og er ein af fegurstu borgum Íberíuskagans. Þaðan verður farið í skemmtilegar ferðir m.a. til borgarinnar Braga sem einnig er kölluð Róm Portúgals, sjáum rómverska kastalavirkið Castelo de Guimarães frá 10. öld og fáum að sjálfsögðu að smakka á hinu fræga púrtvíni heimamanna. Á rölti um elsta hluta Porto, Ribeira, færumst við enn nær sögu Porto.