Litadýrð í Lissabon & Porto

Í þessari nýju og stórglæsilegu ferð til Portúgal höldum við til litríku borganna Lissabon og Porto ásamt fleiri tilkomumiklum áfangastöðum í þessu dásamlega landi. Ferðin hefst í Lissabon sem oft er kölluð hvíta borgin á sjö hæðum. Borgin er með fallegri höfuðborgum Evrópu og sannkölluð paradís ferðalangsins. Við heimsækjum ævintýrabæinn Sintra og að sjálfsögðu vestasta punkt meginlands Evrópu, Cape Cabo da Roca. Við skoðum hafnarborgina Setúbal, þaðan sem margir sjókönnunarleiðangrar Portúgala fyrr á öldum hófust og borgina Évora sem er fræg fyrir sína fjölbreyttu byggingarstíla og er á heimsminjaskrá UNESCO. Við höldum svo til hinnar dásamlegu Porto, sem staðsett er við mynni Duoro fljótsins og er ein af fegurstu borgum Íberíuskagans. Þaðan verður farið í skemmtilegar ferðir m.a. til borgarinnar Braga sem einnig er kölluð Róm Portúgals, sjáum rómverska kastalavirkið Castelo de Guimarães frá 10. öld og fáum að sjálfsögðu að smakka á hinu fræga púrtvíni heimamanna. Á rölti um elsta hluta Porto, Ribeira, færumst við enn nær sögu Porto.

Verð á mann 428.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 107.500 kr.


Innifalið

  • 11 daga ferð.
  • Flug með Play og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
  • Aðgangur inn í kastala, kirkjur og söfn skv. ferðalýsingu.
  • Sigling á ánni Douro.
  • Púrtvínssmökkun í Porto.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur aðrar en þær sem eru innifaldar.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. september | Flug til Lissabon

Brottför frá Keflavík kl. 15:10 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Lissabon kl. 20:45 að staðartíma. Gist í fjórar nætur á góðu hóteli í Lissabon.

12. september | Lissabon

Dagurinn í dag er tileinkaður höfuðborg Portúgals, Lissabon. Hún er stærsta borg landsins og er réttilega lýst sem einni af fallegustu stórborgum Evrópu. Við förum í skoðunarferð með rútu og sjáum helstu kennileiti og merka minnisvarða borgarinnar. Þar má meðal annars nefna turninn Torre de Belém sem er frægasta kennileiti Lissabon og minnisvarðann Padrão dos Descobrimentos. Við höldum áfram með fram höfninni til Praça do Comércio en þar stóð konungshöllin fram að jarðskjálfta sem varð neðansjávar árið 1755. Heimsækjum einnig São Jorge kastalann og göngum um heillandi, litríka Alfama hverfið sem tekur á móti okkur með sínum hlykkjóttu götum og litlu torgum þar sem tíminn virðist hafa staðið í stað. Göngum einnig að dómkirkjunni, Sé Patriarcal, sem er elsta kirkja borgarinnar. Um kvöldið fáum við svo að njóta klassískrar portúgalskrar tónlistar.

13. september | Sintra, Cape Cabo da Roca, Estoril & Híerónýmusarklaustrið

Í dag er ferðinni haldið til ævintýrabæjarins Sintra sem er einn fallegasti bær Portúgals, þekktur fyrir glæsilegar hallir og milt loftslag. Bærinn er á heimsminjaskrá UNESCO. Í gönguferð um miðbæinn heimsækjum við þjóðarhöllina, Palácio Nacional de Sintra, sem reist var í upphafi 16. aldar og þjónaði sem sumarbústaður portúgölsku konunganna fram á 21. öldina. Höllin er áhugaverð fyrir þær sakir að hún sýnir hvernig portúgalskur stíll hefur þróast í gegnum aldirnar og undirstrikar sérstaklega þróun flísalistarinnar. Á leiðinni til baka til Lissabon verður farið fram hjá Cape Cabo da Roca, vestasta punkti meginlands Evrópu, en frá klettum þess er tilkomumikið útsýni yfir Atlantshafið. Portúgalska þjóðskáldið Luís de Camões lýsti einmitt staðnum með eftirfarandi orðum: „Hér… þar sem jörðin endar og hafið byrjar.“ Við komum einnig við í smábænum Estoril, sem hefur alla tíð verið athvarf auðugrar yfirstéttarinnar við sjávarsíðuna. Íbúar Estoril lifðu lengi vel á fiskveiðum en nú er þetta mikill ferðamannabær. Við komuna til Lissabon stendur til boða að skoða Híerónýmusarklaustrið sem er í Betlehemshverfinu. Klaustrið er ein af merkustu helgu byggingum í heiminum og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1983.

Opna allt

14. september | Frjáls dagur í Lissabon

Það er kærkomið að fá einn frjálsan dag og kynnast þessari fallegu borg betur á eigin vegum. Upplagt er að taka sporvagninn gula, sem er eitt af helstu táknum Lissabon, og fara um hæðir borgarinnar og skoða gamla miðbæinn. Eins er áhugavert að heimsækja National Pantheon, sem var frá 16. öld hefðbundin kirkja en var árið 1916 breytt í undurfagurt hvelft grafhýsi, sem margir telja fallegustu byggingu Portúgals. Sá sem heimsækir Lisbon má alls ekki fara þaðan án þess að smakka pastel de nata, litlu eggjakremstartaletturnar sem má segja að sé þjóðareftirréttur Portúgala. Í miðbænum má finna hið fræga bakarí, Pasteis de Belem frá árinu 1837, en það þykir eitt besta pastel de nata bakaríið í Lissabon.

15. september | Setúbal, Alcácer do Sal & Évora

Í dag höldum við til bæjarins Setúbal sem hefur allt frá miðöldum verið mikilvæg saltverslunarmiðstöð. Í Setúbal er líka merkileg höfn en hér hófust sjókönnunarleiðangrar Portúgala sem leiddu af sér fjölmargar siglingaleiðir og landsvæði og færðu Portúgölum mikinn auð. Við göngum um þennan fallega bæ, sem frá 17. öld var staður aðalsmanna í Lissabon sem létu reisa hér stórhýsi og hallir, og sjáum meðal annars klaustrið Convento de Jesus og São Filipe kastalann. Á aðaltorgi bæjarins, Praça do Bocage, stendur São Juliao kirkjan en hún er frá því fyrir neðansjávarjarðskjálftann mikla. Næsta stopp er í Alcácer do Sal, litlum bæ við ána Sado þar sem saltvinnsla er svo samofin sögunni að orðið salt kemur meira að segja fyrir í bæjarnafninu. Í gönguferð um bæinn verður farið í kirkjuna São Tiago sem er skreytt með flísamyndum (azulejo) sem segja sögu bæjarins. Ökum að lokum til Évora þar sem við gistum í tvær nætur.

16. september | Évora & vínsmökkun

Eftir góðan morgunverð förum við í skoðunarferð um borgina Évora en gamli hluti hennar er á heimsminjaskrá UNESCO fyrir fjölbreytta og listræna byggingarstíla mismunandi tímabila. Við röltum um gamla bæinn og heimsækjum rómönsk-gotnesku dómkirkjuna Catedral de Nossa frá 12. öld sem vekur athygli fyrir sína tvo ósamhverfu turna. Borgin hefur að geyma ótrúlega merkar og fallegar byggingar eins og gamla háskólann og beinakapelluna Capela dos Ossos þar sem veggir og loft kirkjunnar eru þakin mannabeinum. Eftir hádegi förum við í vínsmökkun þar sem við fáum tækifæri til að smakka aðeins á vínum heimamanna.

17. september | Vila Viçosa & Coimbra

Í dag ætlum við að upplifa enn fleiri perlur sem þetta fallega svæði hefur upp á að bjóða. Vila Viçosa er tæplega 9000 manna bær og þekktur sem marmarabærinn enda reisti Bragança hertogafjölskyldan sér hér glæsilega marmarahöll á 16. öld, þar sem undurfagur hallargarðurinn og framhlið hallarinnar minnir á ítalska endurreisnarhöll. Einkenni bæjarins er mikil kastalasamstæða frá 13. öld sem reist er á grunni rómverskrar og síðar márískrar víggirðingar. Við heimsækjum einnig háskólabæinn Coimbra en háskólinn, sem er frá 16. öld, er sá elsti í Portúgal. Einnig förum við í skoðunarferð upp að hæsta punkti gamla bæjarins, þar sem háskólinn með sínum 33 metra háa barokkklukkuturni gnæfir yfir bæinn. Í háskólanum er að finna frægt bóksafn, Joanina bóksafnið, en þar eru geymdar yfir 200.000 dýrmætar bækur frá tímum barokktímabilsins. Gist verður í eina nótt í Coimbra.

18. september | Porto

Í dag höldum við til fallegu borgarinnar Porto. Borgin, sem er önnur stærsta borg landsins með um 240.000 íbúa, var valin menningarhöfuðborg Evrópu 2001 en elsti hluti hennar er nú á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin er staðsett við mynni Douro fljótsins en fyrr á öldum voru hér mörg skip kaupmanna og landkönnuða smíðuð. Porto dregur nafn sitt af púrtvíninu Porto en hér er að finna ræktunarsvæði þessa fræga púrtvíns sem er flutt út um allan heim. Borgin er þekkt fyrir fagrar barokkkirkjur, granítarkitektúr og sína frægu járnbrautarstöð frá árinu 1896. Hún þykir mikið augnayndi og er talin ein fallegasta járnbrautarstöð Evrópu en inngangur hennar er allur skreyttur flísamálverkum sem vísa í mikilvæga atburði í sögu Portúgals. Hvert sem litið er má hér finna merkar minjar eins og elstu járnbrautarbrúna yfir Duoro, Ponte Maria Pia, sem var við vígsluna 1877 lengsta járnbogabrú í heimi. Brúin var hönnuð af Alexandre Gustave Eiffel, hönnuði Eiffel turnsins fræga í París. Eftir hádegi gefst svo tími til að rölta um bæinn þar sem t.d. væri áhugavert að heimsækja Lello bókabúðina sem er einkar sjarmerandi. Nú eða fara upp í hinn 76 metra háa turn São Pedro dos Clérigos kirkjunnar sem býður upp á dásamlegt útsýni yfir borgina og er hennar helsta kennileiti. Gist verður í þrjár nætur í Porto.

19. september | Braga, Guimarães & púrtvínssmökkun

Eftir góðan morgunverð höldum við til gömlu borgarinnar Braga sem er fyrir sínar mörgu og fögru kirkjur einnig kölluð Róm Portúgals. Við skoðum okkur aðeins um áður en haldið verður til fyrstu höfuðborgar Portúgals, Guimarães, en hér fæddist konungurinn Alfonso Henriques sem frelsaði landið undan márum. Við heimsækjum Castelo de Guimarães, rómverskt kastalavirki frá 10. öld, sem er eitt það best varðveitta frá þessum tímum og er, eins og svo margar minjar og bæir á þessum slóðum, á heimsminjaskrá UNESCO. Á ferð okkar um borgina sjáum við margar litlar götur, verslanir, torgið fallega Largo da Oliveira og kirkjuna Nossa Senhra da Oliveira svo eitthvað sé nefnt. Það er ekki hægt að fara um dásamlegu Porto án þess að heimsækja eina af betri púrtvínsverslunum borgarinnar. Við endum skoðunarferð dagsins einmitt á einni slíkri heimsókn þar sem við fáum fræðslu um framleiðsluferli púrtvínsins og að sjálfsögðu fáum við að smakka á þessu ljúfa og sæta djúpkirsuberjarauða víni.

20. september | Frjáls dagur í Porto

Nú er komið að frjálsum degi og um að gera að kíkja í verslanir, kaffihús eða bara njóta og slaka á við hótelið. Fyrir þá sem vilja kynna sér áhugaverðar byggingar Porto er vert að nefna hina sögulegu kauphöll borgarinnar frá 1830, Palácio da Bolsa, sem er sérlega glæsilega innréttuð og átti að laða að fjárfesta til borgarinnar. Eins er mikil upplifun að skoða arabahöllina, Salão Árabe, en fyrirmynd hennar er að finna í Alhambra í Granada á Spáni. Rölt um elsta hluta borgarinnar, Ribeira, færir mann enn nær sögu þessarar fallegu borgar en hverfið er á heimsminjaskrá UNESCO.

21. september | Heimferð

Það er komið að kveðjustund eftir ljúfa og skemmtilega ferð en þar sem flugið er ekki fyrr en í kvöld er tilvalið að nýta daginn og skoða sig enn betur um í hinni fallegu Porto. Upplagt er að fá sér kvöldverð inni í borg áður en lagt verður af stað út á flugvöll í Porto. Brottför þaðan er kl. 22.25 og lending í Keflavík kl. 23:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00