Strandperlur Austur-Þýskalands
24. - 30. ágúst 2022 (7 dagar)
Ferðin hefst í Stralsund, fallegri borg með heildstæðan miðaldablæ sem á sér sögu samofna veldi Hansakaupmanna. Frá Stralsund förum við í áhugaverðar dagsferðir en allir staðirnir sem við heimsækjum eiga sér mikla sögu. Stralsund og eyjarnar Rügen og Usedom voru hluti af Þýska alþýðulýðveldinu og því að mestu utan alfaraleiðar fram að sameiningu þýsku ríkjanna. Eyjarnar eru tengdar við meginland Þýskalands með brúm. Þetta eru mjög fallegir staðir sem alltof fáir þekkja. Usedom eyja er að hluta í Póllandi og stutt heimsókn yfir landamærin mun gefa okkur innsýn í sögu og stöðu Póllands. Seinni hluta ferðarinnar er dvalið í Hamborg en á leiðinni þangað verður komið við í Lübeck, perlu Norður-Þýskalands. Einstök menningarborg sem oft er nefnd drottning hafsins og marsipangerðar. Það undrar engan sem þangað kemur að borgin skuli vera á heimsminjaskrá UNESCO. Heimsborgin Hamborg hefur svo sannarlega eitthvað upp á að bjóða fyrir alla. Einstök borgarmynd við Alster vatn, fögur torg og byggingar, garðar og verslanir og þarna eru einnig listasöfn og fílharmóníusveit á heimsmælikvarða. Í Hamborg hófu líka Bítlarnir sinn glæsta feril. Þetta er svo sannarlega borg sem aldrei sefur.