Strandperlur Austur-Þýskalands

Ferðin hefst í Stralsund, fallegri borg með heildstæðan miðaldablæ sem á sér sögu samofna veldi Hansakaupmanna. Frá Stralsund förum við í áhugaverðar dagsferðir en allir staðirnir sem við heimsækjum eiga sér mikla sögu. Stralsund og eyjarnar Rügen og Usedom voru hluti af Þýska alþýðulýðveldinu og því að mestu utan alfaraleiðar fram að sameiningu þýsku ríkjanna. Eyjarnar eru tengdar við meginland Þýskalands með brúm. Þetta eru mjög fallegir staðir sem alltof fáir þekkja. Usedom eyja er að hluta í Póllandi og stutt heimsókn yfir landamærin mun gefa okkur innsýn í sögu og stöðu Póllands. Seinni hluta ferðarinnar er dvalið í Hamborg en á leiðinni þangað verður komið við í Lübeck, perlu Norður-Þýskalands. Einstök menningarborg sem oft er nefnd drottning hafsins og marsipangerðar. Það undrar engan sem þangað kemur að borgin skuli vera á heimsminjaskrá UNESCO. Heimsborgin Hamborg hefur svo sannarlega eitthvað upp á að bjóða fyrir alla. Einstök borgarmynd við Alster vatn, fögur torg og byggingar, garðar og verslanir og þarna eru einnig listasöfn og fílharmóníusveit á heimsmælikvarða. Í Hamborg hófu líka Bítlarnir sinn glæsta feril. Þetta er svo sannarlega borg sem aldrei sefur. 

Verð á mann 214.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 41.500 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 7 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Holstein bjórverksmiðjan ca € 12.
 • Marsipansafnið ca € 5.
 • Peenemünde safnið ca € 9.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

24. ágúst │ Flug til Berlínar & Stralsund

Flogið er til Berlínar, brottför frá Keflavík kl. 7:40 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við lendum í Berlín kl. 13:10 og ökum til Stralsund en þangað verðum við komin síðdegis. Dveljum í fjórar nætur á góðu hóteli miðsvæðis í Stralsund.

25. ágúst │ Stralsund og Rügen – eyjan undurfagra

Í dag kynnumst við Stralsund en það gerum við fótgangandi í rólegheitunum. Þeir sem ekki þekkja þá borg geta látið sig hlakka til að koma í fagra borg sem byggðist að stórum hluta á tímum Hansakaupmannaveldisins. Borgin stendur við sjóinn, þar er einstaklega falleg höfn og hafnarsvæði og líka baðströnd. Við byrjum daginn á að rölta um gamla bæinn og sjá sem mest af undurfögrum miðaldabyggingum frá tímum Hansakaupmanna. Strax eftir hádegi ökum við yfir brúna sem tengir Stralsund við eyjuna Rügen sem rómuð er fyrir náttúrfegurð. Skoðum hvítar sandstrendur og sandsteinakletta í Jasmund þjóðgarðinum. Þar ber hæst Königsstuhl kletturinn, sem að margra mati er einn og sér næg ástæða til að heimsækja eyjuna Rügen. Við heimsækjum strandbæinn Binz og kynnum okkur strandmenningu sem er svo allt öðruvísi en menn eiga að venjast í Suður-Evrópu. Í nágrenni Binz er Prora, byggingarferlíki nasista, 4,5 km á lengd. Þetta óvenjulega mannvirki átti að vera sameiginleg orlofsbygging fyrir um 20 þúsund manns. Í byggingunni er í dag mjög áhugavert safn sem vert er að skoða. Það segir m.a. sögu hugmyndafræðinnar að baki þessarar byggingar, sem á sér enga hliðstæðu í sögunni.

26. ágúst │ Strandmenning á Usedom og sýnishorn af Póllandi

Ökum til eyjunnar Usedom, sem einkum er þekkt fyrir fallegar sandstrendur og strandbæi. Austasti hluti eyjunnar tilheyrir Póllandi og við byrjum á því að keyra til pólsku borgarinnar Świnoujście eða Swinemünde. Borgin fór mjög illa í síðari heimsstyrjöldinni og ber þess enn glögg merki. Við kynnumst Póllandi stuttlega í gegnum söguna og tökum stöðu mála þar í dag eftir að landið hefur verið í Evrópusambandinu í 18 ár. Við stöldrum við í miðbæ Świnoujście, þar sem gefst kostur á að smakka á pólskum pylsum svo ekki sé talað um Zybrawka vodkann og Tyskie bjórinn. Stoppum einnig við landamærin á stærsta sölumarkaði Póllands, þar sem keppst er um að selja allt milli himins og jarðar og hreint ótrúlegt að skoða óvenjulegt úrval söluvarningsins. Á heimleiðinni skoðum við hinn stórglæsilega strandbæ Heringsdorf, þar sem Wilhem Þýskalandskeisari sótti í náttúrufegurð og heilnæmt sjávarloft. Heringsdorf er með fagrar hvítar sandstrendur, bryggju og göngustíga sem tekist hefur að halda við sem næst því upprunalega. Norður-þýsk strandmenning rekur sögu sína aftur til 19. aldar. Standbæjararkitektúrinn á þessum slóðum er einstakur, svo ekki sé talað um strandkörfurnar. Nægur tími verður til að fá sér hressingu og njóta strandbæjarstemningarinnar og sóla sig jafnvel í strandkörfu.

Opna allt

27. ágúst │ Stríðsminjar í Peenemünde & frjáls eftirmiðdagur í Stralsund

Söguáhugafólk kemur ekki á þessar slóðir án þess að skoða Peenemünde en þar voru hinar alræmdu sprengjuverksmiðjur í síðari heimsstyrjöldinni. Nú er þar Peenemünde safnið, sem sýnir og segir sögu af smíði á vopnum, sprengjum og kafbátum. Hægt er að fara um borð í kafbát frá síðari heimsstyrjöldinni. Eftir hádegi gefst nægur tími til að njóta Stralsund, fara í verslanir, á söfn nú eða á ströndina. Tækifæri gefst til að skoða Ozeaneum sem er einstakt og margverðlaunað sjávarlífssafn. Þetta er stærsta safn sinnar tegundar í Þýskalandi og var kjörið safn Evrópu árið 2010. Einnig er upplagt að fara í bátsferð um hafnarsvæðið.

28. ágúst │ Marsipan í Lübeck

Í dag kveðjum við Stralsund og höldum til Hamborgar með viðkomu í Lübeck.
Lübeck er ein fegursta borg Norður-Þýskalands. Borgin er ekki svo stór, með rétt rúmlega 200.000 íbúum, en á sér engu að síður margbrotna sögu. Hún var með þýðingarmeiri hafnar- og verslunarborgunum á miðöldum þegar veldi Hansakaupmanna var og hét. Lübeck státar m.a. af því að hafa alið þrjá Nóbelsverðlaunahafa. Við skoðum þessa yndislegu borg, sem er á heimsminjaskrá UNESCO og án efa mun iðandi mannlífið, aldagömul sagan og fallegu byggingarnar heilla okkur á þessari göngu um borgina. Farið verður í Marzipan-Speicher en Speicher er orð yfir geymslur. Þarna voru áður geymdar hinar verðmætu möndlur Lübecks en þær eru notaðar til framleiðslu á marsipani. Við getum litið inn á marsipansýningu og séð þar líkön úr marsipani t.d. af frægum kirkjum og byggingum; hreinustu listaverk. Áfram heldur svo ferðin til Hamborgar en þangað verðum við komin síðdegis.

29. ágúst │ Skoðunarferð um Hamborg

Eftir góðan morgunverð verður farið í áhugaverða skoðunarferð um Hamborg. Byrjum á að keyra og ganga um borgina. Ekið verður fram hjá óperunni, leikhúsinu, tónlistarhöllinni, listasafninu og Michaelis kirkjunni, sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Þá liggur leiðin að höfninni og um elstu hverfi borgarinnar. Við förum fótgangandi um hin stórbrotna og undurfagra miðbæjarkjarna við Alster fljótið og Jungfernstieg með sínum glæsilegu verslunum. Hamborg er talin grænasta borg landsins og skartar miklum fjölda fallegra garða. Þeir sem vilja geta svo í lok skoðunarferðarinnar skoðað Holstein bjórverksmiðjuna. Fræðumst um hvernig þessi úrvals bjór er bruggaður og smökkum á framleiðslunni. Síðdegis gefst góður tími til að kíkja í búðir og skoða sig um á eigin vegum. Um kvöldið býðst þeim sem vilja að skoða hið margrómaða Reeperbahn skemmtanahverfi þar sem m.a. Bítlarnir hófu sinn glæsta feril.

30. ágúst │ Heimferð & flug frá Hamborg

Eftir frábæra ferð er komið að heimferð en brottför frá flugvellinum í Hamborg er kl. 14:10 og lending í Keflavík kl. 15:30 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Alster áin

Alster áin

Binz

Binz

Binz

Binz

Binz

Binz

Binz

Binz

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Hamborg

Heringsdorf

Heringsdorf

Lübeck

Lübeck

Stralsund

Stralsund

Swinemünde

Swinemünde

Lübecker marsipan

Lübecker marsipan

Alster áin
Binz
Binz
Binz
Binz
Hamborg
Hamborg
Hamborg
Hamborg
Heringsdorf
Lübeck
Stralsund
Swinemünde
Lübecker marsipan

Fararstjórn

Kristín Jóhannsdóttir

Kristín Jóhannsdóttir er fædd árið 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum.  Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún hefur búið bæði í austur og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Freie Universität í Berlín.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00