Svartfjallaland

11. – 25. ágúst 2018 (15 dagar)

Það er ævintýri líkast að ferðast um Svartfјallaland sem er einstök perla við Adríahafið og kynnast sögu og litskrúðugu menningarlífi landsins á hrífandi hátt.

Miðaldabæir, fagrar strendur og töfrandi bátsferðir. Við hefjum ferðina á Ítalíu í hlýlega bænum Stresa sem stendur við vatnið Lago Maggiore, þar sem við siglum m.a. um Borromeo eyjarnar. Frá Ancona verður siglt yfir nótt til Split í Króatíu og þaðan ekið til Svartfjallalands, þar sem við verðum vitni að einstakri fegurð þessa lands. Við heimsækjum miðaldabæinn Budva, siglum yfir í eyjuna St. Maríu á kletti á Kotorflóa og fræðumst um miðaldaborgina Kotor. Konungsborgin Cetinje verður heimsótt og í Sipcanik sjáum við stærsta vínkjallara landsins. Frá Budva verður haldið í ljúfa siglingu um glæsilegustu strönd landsins, Becici Rivera og á vatninu Skatar upplifum við eitt af mörgum náttúruundrum landsins. Á leið okkar um gilin Morac og Tara, lítum við ósnortna náttúrufegurð og vatnið Biograd er með öllu ógleymanleg sjón. Einnig heimsækjum við Mostar, perlu Bosníu Hersegóvínu. Á ferð okkar um landið munum við fá góðan pata af matarmenningu Montinegróa og munu dýrindis afurðir heimamanna bornar á borð á ferðum okkar.

Verð á mann í tvíbýli 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 62.600 kr.


Innifalið

 • 15 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Sigling frá Ancona til Split með gistingu um borð.
 • Kvöld- og morgunverður á skipi frá Ancona til Split.
 • Sigling á Skadar vatni og hádegisverður á einkaströnd.
 • Sigling frá Budva og hádegisverður á einkaströnd.
 • Vínsmökkun í Sipcanik.
 • Sigling frá Split til Ancona með gistingu um borð.
 • Kvöld- og morgunverður á skipi frá Split til Ancona.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Aðganseyrir skv. ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Hádegisverðir sem eru ekki innifaldir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling út á Borromeo-eyjuna og aðgangseyrir inn í Borromeo höllina og garðinn c.a € 25. 

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

11. ágúst | Mílanó & Stresa við Lago Maggiore vatn

Brottför frá Keflavík kl. 13:50. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 19:40 að staðartíma. Þaðan verður ekið rakleitt að Lago Maggiore, sem er annað stærsta vatn Ítalíu. Allt frá 18. öld hefur fegurð og veðursæld vatnsins laðað að sér baðgesti og ferðamenn. Þar verður gist í bænum Stresa í 2 nætur.

12. ágúst | Dagur í Stresa & sigling til Isola Bella

Bærinn Stresa er yndislegur bær við Lago Maggiore vatnið, lítill og huggulegur. Við ætlum að njóta þess að skoða bæinn um morguninn, en tökum síðan bát til Isola Bella, sem er ein svo nefndra Borromeo-eyja. Borromeo ættin byggði sér þar höll og ber eyjan nafn Isabellu eiginkonu Carlo III. Napóleon gisti hér eitt sinn í tvær nætur hjá fjölskyldunni með eiginkonu sinni Jósefínu. Hér er margt sem gleður augað. Það er mjög skemmtilegt að skoða höllina, svo ekki sé talað um garðinn, sem er stórkostlegur lystigarður á nokkrum hæðum.

13. ágúst | Ancona & sigling á Adríahafi

Í dag ökum við fallega leið til Ancona við Adríahaf, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá ,,Sýrakúsa‘‘ og settust hér að. Þeir gáfu borginni nafnið Ancona (olnbogi). Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og kvöldverður bíður okkar um borð. Gist er í skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og klósetti. Siglingin frá Ancona tekur um 10 stundir og er einstaklega skemmtileg við bestu kringumstæður. 

Opna allt

14. ágúst | Split í Króatíu & Budva í Svartfjallalandi

Við komum fljótlega eftir morgunverð að landi í sögufrægu borginni Split í Króatíu. Hún telst með fallegustu borgum landsins og við skoðum hana betur eftir yndislega daga í Svartfjallalandi. Frá Split er ekin áhugaverð leið inn í landið til gamla virkisbæjarins Budva þar sem gist verður í 7 nætur. Hótelið er rétt við ströndina og býður upp á sundlaugargarð með sólbaðsaðstöðu. Herbergin eru með loftkælingu og á hótelinu er líkamsræktaraðstaða og heilsulind. Hótelið er miðsvæðis í bænum, stutt frá höfninni og í næsta nágrenni eru verslanir, veitingahús og skemmtistaðir.

15. ágúst | Sigling, klettaeyjan & borgin Kotar

Spennandi dagur er á döfinni. Að loknum morgunverði er stefnan tekin á Kotorflóann og ekið til þorpsins Perast þaðan sem farið verður í siglingu yfir á heillandi litla eyju; „St. Maríu kirkjuna á kletti“ eins og hún er kölluð. Síðan siglum við aftur til Perast og dáumst að landslaginu á akstrinum til Kotor borgar. Elsti hluti Kotor er á heimsminjaskrá UNESCO en borgin er dulúðleg og töfrandi með gömlum virkisveggjum sem við upplifum á rölti um borgina. Eftir það er upplagt að fá sér hádegishressingu og njóta þess að vera á þessum fagra stað.

16. ágúst | Cetinje & "Sipcanik" vínsmökkun

Sérhver Svartfellingur myndi segja:,,Ef þú hefur ekki kominð til Cetinje þá hefur þú ekki komið til Svartfjallalands“  og því verður konungsborgin Cetinje, ein mikilvægasta borg landsins, vandlega skoðuð. Glæsilegar byggingar skreyta borgina, þar á meðal klaustrið þar sem biskupar Svartfjallalands réðu ríkjum öldum saman, Vlaška dómkirkjan, elsta bygging borgarinnar og hrífandi konungshöllin Nicola sem við skoðum. Cetinje var höfuðborg landsins í tæp 400 ár. Eftir góða stund þar verður ekið til höfuðborgarinnar Podgorica sem eitt sinn var kölluð Titograd en þar fer öll stjórnsýsla landsins fram. Við skoðum þar stærsta vínkjallara landsins Sipcanik, sem nær yfir rúma tvo hektara. Þetta var áður aðal herflugvöllur landsins sem meðal annars var notaður af NATO, en þá voru vínkjallararnir flugvéla- og vopnageymslur. Það er mikil upplifun að koma hingað en um 11 milljónir plöntur sjá framleiðslunni fyrir vínþrúgum. Okkur verður boðið í mjög glæsilega vínsmökkun. 

17. ágúst | Stutt gönguferð í Budva & slökun

Þá er komið að því að kanna heimastöðvarnar Budva nánar. Við förum í áhugaverða gönguferð um þennan 11.000 manna bæ með sínum litlu, þröngum, götum og umkringd virkisveggjum. Vísindamenn eru á því að bærinn hafi verið eyja sem er nú hluti meginlandsins. Samkvæmt fornum fræðum er Budva einn elsti bærinn við Adríahafið og umhverfið er einstakt. Bærinn fór mjög illa í jarðskjálfta árið 1979 en endurreisn hefur tekist með ágætum.. Eftir gönguna verður frjáls tími það sem eftir er dags til að njóta þess sem bærinn og hótelið hafa upp á að bjóða.

18. ágúst | Sigling um Becici Riveru & St. Nicola eyjan

Á dagskránni er ljúf sigling meðfram fallegustu strönd Svartfjallalands,  Becici Rivera. Við hefjum daginn á því að ganga stuttan spöl frá hótelinu að höfninni í Budva. Siglum þaðan með þessari einstöku strönd og njótum dásamlegs umhverfis. Farið hjá St. Nicola eyjunni, litla sjávarþorpinu Przno, sjáum á drottninga- og kóngaströndina og heillandi hóteleyjuna Sveti Stefan. Við snæðum hádegisverð um borð í bátnum á meðan við líðum áfram í draumalandslagi og góðum félagsskap. Eftir siglinguna verður frjáls tími í Budva seinnipartinn.

19. ágúst | Moraca, Biograd Lake & Tara gljúfrið

Ævintýralega leiðin um Moraca gil er einfaldlega stórbrotin. Þar er um að gera að taka myndir því landslagið er stórkostleg hvert sem litið er. Síðan heimsækjum við Moraca klaustrið og ökum að því loknu  að Biogradvatni sem heillar alla. Vatnið er eitt fegursta vatn Balkanskagans og við könnum það nánar á stuttri göngu. Eftir góða stund við vatnið verður ekið yfir Djurdjevica brúna sem er yfir Tara gilið þar sem útsýnið er einfaldlega ólýsanlegt. Þar verður áð til að fá sér hressingu og njóta dýrðarinnar.

20. ágúst | Virpazar, sigling á Skadar vatni

Skadar vatn er eitt af náttúruundrum landsins. Þetta stöðuvatn hefur alla tíð verið utan alfaraleiða og situr á landamærum Svartfjallalands og Albaníu. Hér er hrífandi landslag sem við njótum á siglingu um c frá litla fiskiþorpinu Virpazar. Vatnið er sérstakt m.a. vegna þess að á botni þess eru um 30 uppsprettulindir, sem heimamenn kalla auga, „Oka“. Dýpsta augað er á 60 m dýpi og úr því streymir hreint og kristaltært vatn af kalksteinsbotninum. Vatnið er heimasvæði óteljandi dýrategunda, m.a. á þriðja hundrað fuglategunda og vatnaliljur vaxa á vatnsyfirborðinu. Við einkaströndina Pjesacac er beðið eftir okkur með grillaðan fisk á hefbundnum veitingastað. Að hádegisverði loknum gefst tækifæri til að fá sér gönguferð eða taka sundsprett í vatninu, en síðan er siglt til baka til Virpazar þar sem rútan bíður okkar. 

21. ágúst | Budva & Mostar í Bosníu og Hersegóvinu

Nú  kveðjum við Svartfjallaland eftir yndislega daga. Ekið verður um Neretva dalinn sem er sannkölluð“ Kalifornía Króatíu“ en í dalnum er mesta appelsínurækt landsins. Það verður örugglega gert myndastopp á leið yfir til borgarinnar Mostar sem er ein af perlum landsins í suðurhluta Bosníu og Hersegóvínu. Þar verður gist í 2 nætur á hóteli í miðbænum.

22. ágúst | Mostar

Nú ætlum við að fara saman í ljúfa göngu um miðbæ Mostar og auðvitað verður komið að frægu, gömlu brúnni Stari Most, sem var byggð af Ottómönum á sautjándu öld. Hún er yfir Neretva ána sem rennur um borgina. Í Bosníustríðinu árið 1993 var brúnni eytt með gríðalegum spengjuárásum, en árið c var hún endurbyggð og er nú á heimsminjaskrá UNESCO sem tákn um friðsamlega sambúð mismunandi þjóðflokka í Mostar. Gamli bærinn er yndislegur og töfrandi blæbrigði matar og mannlífs er að finna frá öllum þessum mismunandi menningarheimum meðal bæjarbúa.

23. ágúst | Split & Ancona

Í dag förum við til Split, hinnar sögufrægu borgar, sem telst með fallegustu borgum landsins. Þar má finna Diokletian höllina og ennfremur glæsilegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja en elsti hluti borgarinnar er á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Borgin er því eins og lifandi safn, sem iðar af mannlífi. Upplagt er að rölta um bæinn áður en haldið verður á ferjustað þar sem skipið bíður okkar. Frá Split verður siglt yfir til Ancona. Gisting með morgun- og kvöldverði um borð í skipinu.

24. ágúst | Ancona, Sirmione & Brescia

Eftir snemmbúinn morgunverð á skipinu komum við til Ancona kl. 7:00. Nú verður stefnan tekin á hið yndislega Gardavatn en þar verður stoppað í bænum Sirmione. Sá er litríkur og skemmtilegur miðaldabær við suðurenda vatnsins og við njótum þess að rölta um hlykkjótt öngstræti á þessum dásamlega stað. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Brescia þar sem gist verður í eina nótt.

25. ágúst | Heimferð frá Mílanó

Eftir glæsilega ferð er komið að lokadegi. Að morgunverði loknum er ekið til heimsborgarinnar Mílanó, en þar er margt að sjá og upplifa. Farið verður í stutta göngu með farastjóra og síðan gefst tími til að fá sér létta hressingu, líta inn til kaupmanna og skoða sig betur um. Upplagt er að fá sér kvöldverð áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför þaðan kl. 20:40 og lent í Keflavík kl. 22:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum meðan á ferð stendur.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir