Eyjaperlur Króatíu

Það er draumi líkast að ferðast um strandlengju Króatíu. Þessi glæsilega ferð byrjar í Filzmoos fjallaþorpinu í Austurríki sem er umvafið Alpafegurð. Þaðan verður farið í hrífandi dagsferð þar sem ólýsanleg náttúrufegurð tekur á móti okkur í Hallstatt við Hallstättersee. Hann er með fallegustu stöðum Salzkammergut en bærinn og landslagið umhverfis hann eru varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Nú bíða dýrðardagar eftir okkur í bænum Opatija við Kvarner flóa en þaðan verður farið í ævintýralegar ferðir m.a. um ægifagra eyjuna Krk. Við siglum einnig yfir á klaustureyjuna Košljun frá bænum Punat, stöldrum við í sögulega hafnarbænum Baška og heimsækjum vínbónda. Á fallegri leið til Rovinj, listamannabæjarins við Istríaströndina, verður Hum, minnsta borg veraldar, sótt heim. Stórbrotin náttúrufegurð umvefur okkur í þjóðgarðinum Plitvička jezera þar sem fossar og vötn umkringja okkur. Það er ekki að undra að þessi töfrastaður sé á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig verður farið í siglingu yfir á eyjuna Cres, til bæjarins Cres sem er höfuðstaður hennar og minnir þéttbyggður bæjarkjarninn helst á Feneyjar. Þessi glæsilega ferð endar í Passau í Þýskalandi, sem stendur við ármót Dónár, Inn og Ilz. Árnar þrjár setja svo fallegan svip á borgina að hún er talin standa á einu af sjö fallegustu borgarstæðum í heimi. 

Verð á mann í tvíbýli 283.300 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.500 kr.


Innifalið

 • 12 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Siglingu yfir á Košljun og klaustur ca € 15.
 • Vínsmökkun hjá vínbónda á eyjunni Krk ca € 12.
 • Aðgangseyrir í vatnaþjóðgarðurinn Plitvička jezera ca € 15.
 • Sigling yfir á eyjarnar Cres ca € 5.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

19. júní | Flug til München & akstur til Filzmoos

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Austurríkis þar sem gist verður tvær nætur í litla bænum Filzmoos í Salzburgerland. Undursamleg fjalladýrð umlykur staðinn. Á sumrin stundar fólk hér fjallgöngur en skíði yfir veturinn. Á hótelinu er heilsulind og innisundlaug en einnig er sólarverönd á þaki sundlaugarbyggingarinnar þar sem hægt er að sitja í góðu veðri og sóla sig í fjallaloftinu.

20. júní | Hallstatt við vatnið Hallstättersee

Nú verður farið til hins draumfagra bæjar Hallstatt. Bærinn og landsvæðið umhverfis hann var skráð á heimsminjaskrá UNESCO árið 1996. Þetta er yndislegur bær sem gaman er að rölta um. Við lítum inn í kirkjuna sem er með mjög merkilegu útskornu altari frá árinu 1520 og skoðum grafhýsið sem tengt er kirkjunni. Síðan verður gefinn frjáls tími til að njóta þess að vera á þessum dásamlega stað. Eftir það verður ekið til baka á hótel.

21. júní | Opatija í Króatíu

Í dag kveðjum við Filzmoos eftir góðan morgunverð og smá rólegheit í þessum fallega bæ. Nú verður ekið til Opatija í Króatíu sem þykir á margan hátt minna á borgina Nice á frönsku rivíerunni. Hér verður gist sjö nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið er nánast á ströndinni þar sem ljúft er að hvílast í sólinni, fá sér sundsprett í ylvolgum sjónum og hressingu á kaffi- eða veitingastað þess. Herbergi hótelsins eru björt og rúmgóð.

Opna allt

22. júní | Skoðunarferð um Opatija & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð verður farið í fróðlega göngu um Opatija en bærinn er elsti ferðamannabær Króatíu. Þetta er yndislegur bær með glæstum byggingum frá tímum Habsborgara veldisins. Einnig státar bærinn af fallegum lystigörðum og töfrandi strandgötu. Að skoðunarferðinni lokinni er frjáls tími til að skoða sig betur um á eigin vegum og upplagt að líta inn á kaupmenn bæjarins.

23. júní | Ævintýraferð um Krk eyjuna & vínbóndi sóttur heim

Í dag höldum við í sannkallaða ævintýraferð um eyjuna með heimamanni í fararbroddi sem fræðir okkur um líf eyjaskeggja, menningu og listir. Eyjan Krk er 470 ferkílómetrar en hún ásamt eyjunni Cres eru stærstu eyjar Adríahafsins. Við förum m.a. í skemmtilega siglingu yfir á klaustur eyjuna Košljun frá bænum Punat, heimsækjum bæinn Baška syðst á eyjunni sem stendur á tanga við fallega vík. Bærinn er ósköp skemmtilega litríkur með þröngum, litlum götum og lítilli höfn sem setur fallegan svip á bæinn. Á leiðinni til baka verður litið inn til vínbónda en vínframleiðslan á eyjunni er víðfræg.

24. júní | Hum & listamannabærin Rovinj

Eftir góðan morgunverð verður ekin falleg leið yfir á Istríaskagann og en þar stoppum við í rómantíska bænum Hum, sem betur er þekktur sem minnsti bær í heimi en íbúar hans eru aðeins 17 talsins. Bærinn er einn vinsælasti ferðamannabærinn á Istríaskaganum en aldagamlir virkisveggir og borgarhlið setja sterkan svip á hann. Nú heldur ferðin áfram til listamannabæjarins Rovinj sem er litríkur bær sem iðar af mannlífi. Förum í skoðunarferð og upplagt er að ganga upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Eftir það verður frjáls tími til að kanna borgina og njóta náttúrufegurðar staðarins áður en ekið verður til Opatija. 

25. júní | Vatnaþjóðgarðurinn Plitvička jezera

Þennan dag leggjum við land undir fót og heimsækjum þjóðgarðinn Plitvička jezera. Garðurinn er þakinn vötnum, fossum, ám og lækjum sem saman mynda stórkostlegt náttúrusjónarspil. Þessi undursamlegi staður hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1979. Hér er um að gera að klæðast góðum skóm því eina leiðin til að virða fyrir sér dýrðina er fótgangandi.

26. júní | Frjáls dagur í Opatija

Nú ætlum við að njóta þess að vera á þessum fagra stað, kanna bæinn á eigin vegum. Einnig er upplagt að nota þessa frábæru aðstöðu sem að hótelið býður upp á.

27. júní | Eyjan Cres & bærinn Valun

Í dag heimsækjum við töfrandi eyjuna Cres en náttúrufegurðin umvefur okkur í dag. Við byrjum á því að aka til Brestova og tökum ferju yfir á Porozina á Cres eyju. Hún er ein af svonefndum landbúnaðareyjum og þar ökum við til bæjarins og höfuðstaðarins Cres. Bærinn er einstaklega hrífandi og minnir þéttbyggður bæjarkjarninn helst á Feneyjar. Hann er einn eftirsóttasti ferðamannabær eyjunnar og við njótum þess að kynnast lífi bæjarbúa á göngu um svæðið. Að sjálfsögðu gefum við okkur tíma til að fá okkur hressingu og njóta tilverunnar á þessum dásamlega stað. Gaman er að ganga um þröngar, hlykkjóttar hliðargötur en miðbærinn liggur upp frá smábátahöfn með fjölmörgum skemmtilegum verslunum, kaffi- og veitingahúsum sem bjóða upp á dæmigerða Miðjarðarhafsrétti. Eftir það verður ekið til Valun lítils sjávarbæjar á eyjunni sem er ein af perlum hennar. Eftir stuttan stans þar verður ekið til Porozina þar sem ferjan bíður okkar og flytur hópinn yfir til Brestova þaðan sem ekið verður aftur á hótel í Opatija.

28. júní | Ekið til Passau í Þýskalandi

Nú er komið að því að kveðja Opatija eftir yndislega daga í Króatíu. Eftir morgunverð verður ekið til Passau í Þýskalandi sem stendur við ármót ánna Dóná, Ilz og Inn en staðsetningin telst ein af sjö fallegustu bæjarstæðum í heimi. Hér verður gist síðustu tvær nætur ferðarinnar. 

29. júní | Skemmtilegur dagur í Passau

Við byrjum daginn á að fara í skemmtilega göngu með farastjóranum og kanna borgina nánar. Við munum meðal annars sjá Stephans dómkirkjuna sem hefur að geyma næst stærsta orgel heims. Í Passau er mikið um ársiglingar og tilvalið er að skella sér í notalega bátsferð á hinni fögru Dóná eftir hádegið og njóta þess að sjá borgina líða hjá.

30. júní | Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð eftir yndislega ferð og er stefnan er tekin á München að loknum morgunverði. Brottför með flugi kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir