Hjól Feneyjar & Prosecco

Feneyjar og landið allt umhverfis hafa hrifið milljónir manna öldum saman og svo verður einnig í þessari hjólaferð. Hún bíður upp á spennandi dagsferðir um sögufræga staði, mögnuð landbúnaðarhéruð og auðvitað skoðunarferð til Feneyja. Við heimsækjum þorpið Asolo sem er hjartað í magnaðri náttúruumgjörð og skoðum smáhöllina Barbaro í Maser. Hana byggði Andrea Palladio á 16. öld og er byggingarstíllinn kenndur við hann. Komum í gamla bæinn Bassano del Grappa þar sem gamlar byggingar endurreisnartímabilsins gefa bænum heillandi yfirbragð. Eitt merkilegasta héraðið á þessum slóðum er Prosecco, eitt stærsta vínekruhéraðið í þessum hluta Ítalíu og þar munum við að sjálfsögðu bragða á afurðum svæðisins. Siglum um Feneyjalón þar sem náttúrufegurðin er engri lík og hjólum svo frá Lio Piccolo eftir ströndinni til Lido di Jesolo. Þessi Ítalíuferð er einstök upplifun alla daga sem skilur mikið eftir.

Verð á mann 249.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 24.600 kr.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á 4 stjörnu hótelum.
 • Morgun- og kvöldverðir á hótelum. 
 • Hjóladagskrá.
 • Rútuferðir til baka frá stöðum samkvæmt prógrammi. 
 • Bátsferð í Feneyjum samkvæmt prógrammi.
 • Skoðunarferð með leiðsögn í Feneyjum.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á 21 gíra hjóli í 6 daga er 16.000 kr.
 • Leiga á rafmagnshjóli í 6 daga er 24.400 kr.
 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Prosecco vínsmökkun ásamt léttu snarli ca € 18.
 • Grappa vínsmökkun ca € 3.
 • Léttur hádegisverður hjá ítölskum hrísgjónabónda ca. € 16.
 • Aðgangur að Villa Barbaro í Maser ca. € 9.

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 30-50 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til til Mílanó þann 20. júní. Brottför frá Keflavík kl. 15:20 en mæting í Leifsstöð er í síðasta lagi 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:35 að staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó eru rúmir 300 km til gististaðar svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki rúma 4 klst.

Þann 27. júní ferjar rúta okkur til Mílanó en þaðan verður flogið kl. 22:35. Lending á Íslandi kl. 00:50 að staðartíma.

Tillögur að dagleiðum 21. - 26. júní

Hjalti Kristjánsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir sex daga sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við þeim stöðum sem honum þykir áhugavert að heimsækja.

1. Smáhallir og vínekrur

Þennan morgun tökum við stefnuna á litla þorpið Asolo, sem stundum er kallað „borgin með þúsund sjóndeildarhringa“. Þar hefur fornt yfirbragð bygginga og mannlífs varðveist í ótrúlega fallegu umhverfi sem öldum saman hefur veitt listamönnum, skáldum og rithöfundum innblástur. Við hjólum áfram í öldulaga landslagi fram hjá heillandi smáhöllum í palladian- og neóklassískum stíl. Leiðin liggur um vínakra og endar hjá Barboro í Maser. Þessa smáhöll byggði hinn frægi arkitekt, Andrea Palladio á árunum 1550-1560 og er hún á heimsminjaskrá Unesco. Héðan hjólum við til baka á hótel.

 • Vegalengd: 30 km
 • Hækkun: 150m
 • Erfiðleikastig: Létt
Opna allt

2. Kirsuberjagarður og bærinn Grappa

Við hjólum af stað og tökum stefnu á Marostica, kirsuberjaborgina þar sem annað hvort ár er teflt manntafl, í orðsins fyllstu merkingu, á stóru taflborði á torgi miðbæjarins. Á sléttlendinu fyrir neðan sjást smáhallir af ýmsum gerðum. Loks komum við til Bassano del Grappa. Þessi myndræni, töfrandi bær varðveitir einstök stræti og magnaðar byggingar frá endur-reisnartímabilinu. Að loknu rölti um helstu strætin og yfir hina frægu trébrú yfir Brenta ána, sem er einmitt líka hönnuð af arkitektinum Palladio, heimsækjum við fornfrægt grappa brugghús. Þaðan hjólum við til baka á hótel.

 • Vegalengd: 45 km
 • Hækkun: 250 m
 • Erfiðleikastig: Létt til miðlungs

3. Possagno og Prosecco vínekruleiðin

Í dag byrjum við á að hjóla til Possagno þorpsins. Hér bjó höggmyndarinn Canova og sá setti aldeilis mark sitt á bæinn því ótal verka hans prýða víða og svo er einstakt úrval verka hans á Canovasafninu. Héðan liggur leiðin um feiknastórt vínekruhérað með hvers kyns hæðum og hólum sem gerir landslagið engu líkt. Í Valdobbiadene er boðið upp á Prosecco framleiðslu sem hressir hjólafólk, eins konar verðlaun eftir allt erfiðið.

 • Vegalengd: 50 km
 • Hækkun: um 350 m
 • Erfiðleikastig: Miðlungs

4. Feneyjar – Annað hótel

Þennan morgun flytur rúta hópinn og farangurinn á lestarstöð í Morcon þar sem farið verður með lest til Feneyja. Þar verður skoðunarferð með staðarleiðsögumanni þar sem allt það sem gerir Feneyjar að eftirsóttasta ferðamannastað álfunnar verður á vegi okkar. Við Canal Grande gefur að líta einar 200 glæsilegar hallir og við Markúsartorgið stendur Markúsarkirkjan, ein merkilegasta kirkjubygging veraldar, sem byggð er í austrænum stíl og minnir helst á höllina úr ævintýrinu Þúsund og ein nótt. Að skoðunarferð lokinni gefst tími til að skoða sig um á eigin vegum. Síðdegis er svo snúið til baka með lestinni til Morcon þar sem rútan bíður og flytur hópinn u.þ.b. 40 mínútna leið á hótel í Lido di Jesolo þar sem gist verður í þrjár nætur.

5. Hjólað á bökkum Piave árinnar

Hjólum af stað frá hótelinu og komum brátt til Cortellazzo, lítils fiskiþorps með snotra höfn. Héðan hjólum við áfram og förum nú eftir forna Feneyjaveginum í áttina að „endurheimta landinu“, svæði sem eitt sinn var undir sjó. Við erum í Eraclea, förum yfir Piave ána, sem var varnarlína Ítala í fyrri heimstyrjöldinni. Nú tekur við sögufrægt svæði sem varðveitir hefðir liðins tíma einstaklega vel. Hér læðast lítil síki milli gamalla húsa með torfþaki og hér ríkir kyrrð, engu líkara en tíminn hafi staðið í stað. Þurrkun landsins hefur gert það ræktanlegt og hér þrífst hrísgrjónarækt hjá eina hrísgrjónabónda Ítalíu. Við snúum aftur til Cortellazzo gegnum skógi vaxna leið þar sem á einum stað bíður okkar hressing, að sjálfsögðu framleidd úr afurðum héraðsins.

 • Vegalengd: 40 km
 • Hækkun: Óveruleg
 • Erfiðleikastig: Miðlungs

6. Feneyjalón

Við ljúkum einstakri hjólreiðaviku með ferð um Feneyjalón sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Leiðin liggur eftir bökkum Sile árinnar þar til komið er til Lio Maggiore þar sem stigið er um borð á lítilli snekkju. Á siglingu um svæðið hrífumst við af dásamlegri náttúrufegurð þar sem einstakur gróður endurspeglast í saltvatninu. Þessari einstöku upplifun lýkur þegar komið er til Lio Piccolo en þaðan hjólum við til baka á hótelið.

 • Vegalengd: 45 km
 • Hækkun: Óveruleg
 • Erfiðleikastig: Létt

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel San Giacomo

Hotel San Giacomo er 4* hótel í Paderno del Grappa. Hótelið er vel staðsett í hjarta Prosecco hæðanna. Herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku, baðsloppi, sjónvarpi, Wifi tengingu og öryggishólfi. Hótelið er bæði með úti- og innisundlaug og í garðinum og á þaki hótelsins er sólbaðsaðstaða.

Vefsíða hótels

Hotel Eden

Hotel Eden er 4* vel staðsett hótel í líflegum miðbæ Lido di Jesolo. Herbergin eru rúmgóð með baði, hárþurrku, loftræstingu, sjónvarpi, síma, Wifi tengingu og öryggishólfi. Í garðinum er sólbaðsaðstaða með bekkjum og tvær sundlaugar. Í stuttri göngufjarlægð er líka einkaströnd hótelsins þar sem gott er að slaka á eftir hjóladaginn. 

Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00