Útivist í Brixen

Bærinn Brixen í Suður-Tíról er frábær áfangastaður fyrir fólk í leit að útivistarævintýrum en andstæður í landslaginu bjóða upp á ævintýralega möguleika á fjölbreyttri útivist allt árið um kring. Eisackdalurinn eða Valle Isarco eins og hann kallast á ítölsku er umvafinn Alpafjöllunum og eru haustin á svæðinu sérlega falleg og tilvalin framlenging á íslenska sumrinu. Þar freista gönguleiðir með fram ánni Eisack á milli vínekra og aldingarða, kastaníutrjáa í hæðunum fyrir ofan og svo meira krefjandi gönguferðir innan þjóðgarðs Dólómítanna þegar enn hærra er komið. Genginn verður hinn svokallaði Köstenweg sem liggur um fagra kastaníutrjálundi alla leið að Säben nunnuklaustrinu og að listamannabænum Klausen. Einnig verður gengið um Munkelweg í hjarta Dólómítanna, þessum fræga fjallgarði í Ölpunum þar sem kvikmyndin Everest var að hluta tekin upp. Við tökum einnig kláf upp á Seiser Alm, hæstu hálendissléttu Evrópu en þaðan er ógleymanlegt útsýni og hægt að velja úr fjöldanum öllum af gönguleiðum. Við hjólum einnig á rafhjólum að Franzensfeste virkinu og samnefndum bæ og göngum á heimafjall Brixen, Plose, þaðan sem er ómótstæðilegt útsýni yfir Suður-Tíról. Fyrir utan þetta stórkostlega náttúrusvæði og áhrifamikla ásýnd miðaldakastala og halla sem standa í fjallshlíðum og á klettabrúnum, eru íbúar Suður-Tíról höfðingjar heim að sækja og er gestrisni þeirra svo til meðfædd. Við erum heppin að fá að njóta hennar, m.a. í fjallaseljum og á kaffi- og veitingastöðum. Gist verður á góðu 4* hóteli í gamla miðbæ Brixen sem býður upp á inni- og útilaugar og kærkomna heilsulind. Í þessari ferð má því með sanni segja að fari saman frábær útivist, góð hreyfing og afslöppun í ævintýralandslagi. 

Verð á mann 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 19.900 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair til München og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallar í München og hótels í Brixen.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli.
 • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hóteli.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin á hótelinu hefur upp á að bjóða. 
 • Útsýniskláfur á Plose fjallið.
 • Almenningsvagn að Plose fjallinu.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferð.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á rafhjóli í einn dag, 5.950 kr. Hjálmar innifaldir.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll annað en tekið er fram í ferðalýsingu.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Kláfur upp á Seiser Alm ca € 18. 
 • Lestarferð að Seiser Alm ca € 15.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara upp að Steini í Esjunni a.m.k. þrisvar til fjórum sinnum fyrir ferðina. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður á innan við 3 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Flugið

Flogið verður með Icelandair til München þann 4. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München til Brixen eru rúmlega 280 km og má því gera ráð fyrir að rútuferðin taki u.þ.b. 3,5 klst. Flogið verður til baka frá München með Icelandair þann 11. september. Brottför kl. 14:05. Lending á Íslandi kl. 16:00 að íslenskum tíma. 

Svæðið

Í dalnum Eisack sem er umvafinn Alpafjöllunum er fallegi bærinn Brixen eða Bressanone eins og hann heitir á ítölsku og má sögu hans rekja til ársins 901. Í þessum 20.000 manna bæ eru að finna litlar, þröngar götur með skemmtilegum verslunum, brúm, kirkjum, söfnum og notalegum kaffi- og veitingahúsum. Þarna mætast árnar Eisack og Rienz sem ásamt umlykjandi vínekrum og aldingörðum gera bæinn að einstaklega heillandi og fallegum stað. Brixen er elsti bærinn í Eisackdalnum og á 1. öld e. Kr. lögðu Rómverjar fyrsta veginn um dalinn og norður yfir hið fræga Brennerskarð sem er lágfarnasta leiðin yfir Alpafjöllin, það sem gerði hana að bæði mikilvægri og hentugri verslunar- og ferðaleið fyrir kaupmenn, konunga, keisara og listamenn. Þetta svæði tilheyrði austurríska Habsborgara keisaraveldinu fram til loka fyrri heimstyrjaldar en þá fengu Ítalir þetta svæði og það er ástæðan fyrir því að borgir og bæir eiga sér allir nafn á tveimur tungumálum. Eisackdalurinn er einkar vinsæll á meðal útivistar-, hjólreiða- og göngufólks en svæðið er einnig rómað fyrir framúrskarandi matargerð. 

Útivist

Farið verður í skipulagðar ferðir með staðarleiðsögumanni en íslenski fararstjórinn verður að sjálfsögðu með í för. Gönguleiðir svæðisins hafa löngum verið vinsælar af ferðamönnum því umhverfið er einstaklega fallegt. Allir hreyfidagar hefjast á léttum morgunæfingum og er áhersla lögð á góðar teygjur og slökun í heilsulindinni í lok dags. Við hefjum daginn á því að koma okkur á göngusvæðið, oft með kláfi eða rútu og munum því ganga víða og upplifa margt. Fjóra daga göngum við um fjallasali en einn dag þeysum við um á rafhjólum og upplifum svæðið á nýjan máta. 

Opna allt

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Að auki er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka sér frídag og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða eða kanna umhverfið í rólegheitum. 

1. Köstenweg (kastaníuleiðin) til Klausen

Í dag verður gengin hin svokallaða Köstenweg leið, um fallega kastaníutrjálundi til Tötschling í 850 m hæð en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Dólómítafjöllin. Göngum síðan í gegnum skógarslóða til Feldthurns. Á Huberhof væri tilvalið að snæða hádegisverð og þá gefst gott tækifæri til að smakka á tírólskum réttum sem eru dæmigerður fyrir þetta svæði. Við hjólum að elsta biskupssetri Tíról, Säben, sem er frá 6. öld en í dag er það nunnuklaustur og hefur verið svo frá árinu 1685. Staðsetning þess er mögnuð og liggja aldagamlar vínekrur í hlíðunum niður frá klaustrinu. Í listamannabænum Klausen er brugghúsið Gasslbräu sem gaman væri að hafa viðkomu í til að smakka kastaníubjór sem þar er bruggaður. Eftir góða stund höldum við með lest aftur til Brixen.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Hækkun: 200 m
 • Miðlungserfið ganga

2. Geisler þjóðgarðurinn í Dólómítunum

Förum með almenningsvagni að Zanser Alm sem er í 1685 m hæð en gönguleið okkar í dag er um Geisler þjóðgarðinn í Dólómítunum sem eru skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Gengið verður með fram villtum og rómantískum fjallalæk upp að Munkelweg en þessi fjallastígur liggur við rætur Geisler klettaturnanna. Nú verður áð við Geschgenhardt Alm, fjallaselið sem er í 2000 m hæð, þar sem við fáum okkur hressingu og njótum þessa áhrifamikla umhverfis. Nú lækkum við okkur og göngum fallegan skógarstíg aftur að upphafsstað, Zanser Alm.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Hækkun: 500 m
 • Miðlungserfið ganga

3. Plose - heimafjall Brixen

Eftir góðan morgunverð förum við í stutta göngu að almenningsvagni sem flytur okkur að kláfi, þaðan sem við svífum upp að fjallastöðinni Kreuztal sem er í 2000 m hæð. Þaðan er hægt að ganga yfir hálsinn um fjallastíg að toppi fjallsins Plose sem er í 2248 m. Þar getum við notið fjalladýrðar Dólómítanna og frábærs útsýnis yfir miðjan Eisackdalinn. Við áum í Rossalm seli og fáum okkur hressingu. Eftir góðan tíma hér verður gengið til baka að Kreuztal og farið niður með kláfi.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Hækkun: 500 m
 • Miðlungserfið ganga

4. Seiser Alm - hæsta hálendisslétta Evrópu

Einn af hápunktum þessarar ferðar er tvímælalaust Seiser Alm. Byrjum daginn á lestarferð að fjallaþorpinu Seis en þaðan ferðumst við með kláfi upp á Seiser Alm sem er hæsta hálendisslétta Evrópu. Frá Seiser Alm er stórkostlegt útsýni yfir tinda Alpafjalla og fjölmargar skemmtilegar gönguleiðir í boði frá fjallastöðinni Compatsch sem er í 1800 m hæð. Héðan höldum við í göngu að skálanum Mahlknecht Schwaige sem er í 2054 m hæð en Mahlknecht er nafn fjölskyldunnar sem byggði húsið árið 1902. Héðan njótum við heimsfrægs útsýnis yfir Langkofel fjallakeðjuna og fjalladýrð þjóðgarðsins Schlern Rosengarten sem umvefur okkur á þessum fagra stað.

 • Göngutími: ca 4 klst.
 • Hækkun: 400 m
 • Miðlungserfið ganga

5. Hjóladagur um Brixen dalinn að Franzensfeste virki

Í dag förum við örlítið hraðar yfir en undanfarna daga. Við skellum okkur í skemmtilega rafhjólaferð beint frá hótelinu okkar í Brixen og hjólum á hjólastíg í átt að Franzensfeste virkinu. Á leiðinni þangað verður stoppað við Augustiner klaustrið í Neustift. Klaustrið er ekki aðeins þekkt fyrir framúrskarandi hvítvín heldur einnig fyrir glæsilega barokkkirkju. Við höldum leið okkur áfram, fram hjá rómantíska vatninu Vahrner See sem að hluta til er friðað og áfram að Franzensfeste virkinu sem Franz Joseph Karl (Franz II.) keisari lét reisa á árunum 1833-38. Höldum síðan upp á hásléttuna, upp smá hækkun sem er þó lítið mál á rafhjólunum, verðlaunað með stórkostlegu útsýni. Komum í þorpin Natz og Raas þar sem þegar var byggð á tíma ísmannsins Ötzi fyrir rúmlega 5000 árum. Hjólum fallegan hring um þetta hrífandi svæði sem byggir afkomu sína að mestu á eplarækt, en ferðaþjónustan spilar líka stórt hlutverk. Höldum nú til baka til Brixen. Það sem eftir er dags gefst frjáls tími til að fá sér göngutúr um bæinn, njóta hótelgarðsins eða heilsulindar hótelsins. Ef vill væri hægt að fara í létta hjóla- eða gönguferð eftir hádegi, í samráði við leiðsögumann.

 • Hjólaleið: ca 35 km

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc. íþróttafræðingur að mennt. Hún kenndi íþróttir í skólum í nokkur ár en síðan var áherslan lögð á almenningsíþróttir, m.a. á líkamsræktarstöðvum og hjá öldruðum. Steinunn sá einnig um hlaupaþjálfun hjá Trimmklúbbi Seltjarnarness í 14 ár. Hún hefur starfað við heilsuþjálfun fólks í endurhæfingu á Reykjalundi síðan 2010. Steinunn hefur verið fararstjóri í gönguskíðaferðum Bændaferða síðan 2006 og í útivistarferðum síðan 2012.

Hótel

Hótel Grüner Baum

Gist verður á 4* hótelinu Grüner Baum sem staðsett er í miðbæ Brixen við ána Eisack og stutt frá ármótum Eisack og Rienz ánna. Hótelið er með smekkleg og björt herbergi sem öll eru með gervihnattasjónvarpi, hárþurrku, síma, nettengingu, öryggishólfi, míníbar og loftkælingu. Á hótelinu er að finna inni- og útisundlaug, sólbaðsaðstöðu, heilsulind, líkamsrækt, tyrknest bað, sauna og nuddpott þar sem gestir geta látið líða úr sér og endurnært bæði líkama og sál. Hægt er að panta sér nudd og líkamsmeðferðir gegn gjaldi. 

Skoða vefsíðu Grüner Baum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00