Kvennaferð - Sorrento & Caprí
13. - 20. september 2023 (8 dagar)
Glæsileg ferð til Sorrento, Amalfístrandarinnar og eyjunnar Caprí en þetta eru sannkallaðar draumaperlur Ítalíu. Ferðin byrjar með flugi til Rómar en þá bíður okkar hinn dásamlegi Napólíflói og Sorrento, eftirsóttasti ferðamannabær hans, þar sem við njótum ljúfra daga. Sorrento er hrífandi bær með þröngum, gömlum götum, fögrum kirkjum og glæstum byggingum og í bröttum hlíðunum vaxa ólífu-, appelsínu- og sítrónutré. Boðið verður upp á ævintýralega siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Það er hrífandi að koma til Pompei þar sem finna má eina af frægustu fornminjum veraldar og á leiðinni þaðan verður komið við hjá vínbónda við rætur eldfjallsins Vesúvíus, þar sem boðið verður upp á hádegishressingu. Við bæði siglum og ökum með Amalfíströndinni, sem er ein fallegasta strönd Ítalíu, og komum við í bæjunum Amalfí og Positano. Einnig ætlum við að eiga yndislegan tíma í slökun, vera saman í skemmtilegum félagsskap og njóta náttúrudýrðar Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins.