Töfrar Suður-Frakklands

Þessi ljúfa og glæsilega ferð er um hið rómaða Provence hérað og hina stórfenglegu Alpa. Ferðin byrjar á flugi til Genfar í Sviss en þaðan höldum við rakleiðis til Valence í Frakklandi þar sem áð verður fyrstu nóttina. Leiðin liggur síðan suður til Camargue svæðisins sem er friðlýst vatnasvæði, myndað af árframburði Rónar í Provence héraðinu. Okkar samastaður er í útjaðri bæjarins Aigues Mortes sem er yndislegur miðaldabær. Umhverfis hann stendur enn afar heillegur borgarmúr. Þaðan verður farið í skemmtilegar skoðunarferðir til Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands, klettabæjarins Les Baux og að Pont du Gard vatnsleiðslubrúnni frá tímum Rómverja. Hin töfrandi Avignon, borg páfans á 14. öld, verður heimsótt og farið í vínsmökkun í héraðinu Châteauneuf du Pape sem er með frægustu vínhéruðum landsins. Einnig verður komið til fallega bæjarins Saintes Maries de la Mer, pílagrímsbæjar sígauna í Evrópu. Endum þessa glæsilegu ferð í Annecy við samnefnt vatn sem er perla frönsku Alpanna.

Verð á mann 244.400 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 62.200 kr.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á öllum hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Pont du Gard ca € 4.
 • Sigling frá Aigues Mortes ca € 15.
 • Vínsmökkun í Châteauneuf du Pape ca € 10.
 • Sigling á Annecy vatni ca € 15.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. maí | Flug til Genf & Valence

Brottför frá Keflavík kl 7:20. Mæting í Leifstöð um 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið um Rónardalinn til Valence í Frakklandi, þar sem gist verður fyrstu nóttina í góðu yfirlæti.

24. maí | Pont du Gard & Aigues Mortes

Í dag verður ekið til Aigues Mortes en á leiðinni þangað verður stoppað við Pont du Gard, hæstu vatnsleiðslubrú Rómverja. Margir telja það eitt mesta meistaraverk byggingarlistar frá þeirra tíma. Brúin, sem var notuð í 400-500 ár, er 49 m há og liggja vatnsleiðslurnar til nágrannaborgarinnar Nîmes. Þegar við höfum virt fyrir okkur þessa tilkomumiklu brú höldum við áfram til Aigues Mortes. Bærinn er lítill en líflegur með heillegu og fallegu borgarvirki frá miðöldum. Hér var ein mikilvægasta höfnin við Miðjarðarhafið en þess má geta að frá Aigues Mortes sigldi Ludwig heilagi í krossferðir sínar. Hér verður gist í 6 nætur á skemmtilegu hóteli í útjaðri bæjarins. Á hótelinu er stór garður og útisundlaug.

25. maí | Arles & Les Baux

Nú verður ekið sem leið liggur suður til bæjarins Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands. Farið verður í skoðunarferð um þennan líflega bæ þar sem við skoðum meðal annars hið margrómaða rómverska hringleikahús og leikhús. Einnig fetum við í fótspor listamannsins Van Gogh en hann bjó þar um tíma og málaði mörg sín þekktustu verk, þ.á m. mynd af spítalanum sem hann lá á eftir að hafa skorið af sér eyrað og Gula kaffihúsið sem staðsett er á Forum torginu en upplagt er að kíkja þar við og fá sér smá hressingu. Eftir frjálsan tíma verður ekið til ævintýrabæjarins Les Baux sem var áður fyrr miðstöð trúbadora og mótmælenda. Ólýsanleg fegurð umvefur staðinn og útsýnið er ægifagurt.

Opna allt

26. maí | Sigling & frjáls dagur í Aigues Mortes

Nú ökum við inn að miðaldabænum Aigues Mortes. Byrjað verður á að fara í skemmtilega siglingu um síkin langleiðina suður að Miðjarðarhafi en bærinn stendur einungis í 6 km fjarlægð frá hafinu. Á leiðinni gefur m.a. að líta merkilegar salttjarnir sem gaman er að sjá. Þegar komið verður á staðinn gefst hverjum og einum færi á að skoða Aigues Mortes eftir eigin hentugleika og fá sér hádegishressingu.

27. maí | Camargue & Saintes Maries de la Mer

Í dag munum við eiga töfrandi dag þegar við ökum um friðlýsta vatnasvæði Camargue, sem myndað er af árframburði Rónar. Þar má sjá flamingóa, svört naut og hvíta, arabíska hesta í hópum, sem er afar tilkomumikið. Á þessari leið verður stoppað í bænum Saintes Maries de la Mer, pílagrímsbæ evrópskra sígauna, og munum við skoða okkur um og njóta þess sem bærinn og bæjarbúar hafa upp á að bjóða.

28. maí | Avignon & Châteauneuf du Pape

Við fetum í fótspor páfans í Avignon í dag. Þar verður áð við höllina sem var bústaður páfans á 14. öld og farið í stutta skoðunarferð um þessa gömlu og yndislegu virkisborg við ána Rón en síðar gefst frjáls tími. Áhugasömum gefst einnig tækifæri á að skoða frægu brúna St. Bénézet þar sem kapella heilags Bénézet er staðsett. Við munum enda daginn á ljúfum nótum og notalegu spjalli í vínsmökkun í héraðinu Châteauneuf du Pape sem er með þekktari vínhéruðum landsins.

29. maí | Frjáls dagur í slökun & Aigues Mortes

Rólegheit og slökun er á dagskrá hjá okkur í dag en rútan fer fyrir hádegi inn í bæinn og þar er upplagt er að skoða sig aðeins betur um og fá sér hádegishressingu. Það er mjög áhugavert að ganga virkisveggina sem umlykja borgina en þar er búið að setja upp heilmikið sögusafn í hliðarrýmum virkisins. Eftir það verður ekið á hótelið og þar sem tilvalið er að slaka á við sundlaugina.

30. maí | Avignon & Annecy

Í dag kveðjum við þennan draumfagra stað og ökum til Annecy við Annecy vatnið, perlu frönsku Alpafjallanna, þar sem gist verður í 2 nætur.

31. maí | Skemmtilegur dagur í Annecy

Við hefjum daginn á gönguferð um Annecy sem er yndisleg borg og nær að hrífa alla með sér. Bærinn, sem liggur inn á milli fjallanna, er einn þeirra elstu í frönsku Ölpunum. Yfir bænum gnæfir aldagömul höll og eru mörg húsanna í borginni frá 16.-18. öld. Eftir skoðunarferðina gefst frjáls tími. Áhugasamir geta til að mynda farið í töfrandi siglingu á vatninu.

1. júní | Heimferð frá Genf

Þá er þessi glæsilega ferð á enda. Ekið verður til Genf en brottför þaðan er kl. 14:00 og lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00