10. - 19. júní 2023 (10 dagar)
Þessi ljúfa og glæsilega ferð er um hið rómaða Provence hérað og hina stórfenglegu Alpa. Ferðin byrjar á flugi til Genfar í Sviss en þaðan höldum við rakleiðis til Lyon sem stendur við árbakka Rhône í Frakklandi. Leiðin liggur síðan suður til Camargue svæðisins sem er friðlýst vatnasvæði, myndað af árframburði Rhône árinnar í Provence héraðinu. Okkar samastaður er í útjaðri bæjarins Aigues Mortes sem er yndislegur miðaldabær. Umhverfis hann stendur enn afar heillegur borgarmúr. Þaðan verður farið í skemmtilegar skoðunarferðir til Arles, einnar af perlum Suður-Frakklands, klettabæjarins Les Baux og að Pont du Gard vatnsleiðslubrúnni frá tímum Rómverja. Hin töfrandi Avignon, borg páfans á 14. öld, verður heimsótt og farið í vínsmökkun í héraðinu Châteauneuf du Pape sem er með frægustu vínhéruðum landsins. Einnig verður komið til fallega bæjarins Saintes Maries de la Mer, pílagrímsbæjar sígauna í Evrópu, og eigum skemmtilegan dag í gömlu rómversku borginni Nimes sem á sér yfir 2.000 ára sögu. Endum þessa glæsilegu ferð með trompi í borginni Nice við Cote d´Azur í Frakklandi.