Rovinj & Gardavatn

Óviðjafnanleg náttúrufegurð, menning og slökun einkenna þessa skemmtilegu ferð sem byrjar í heilsulindarbænum Bad Reichenhall sem hefur hlotið nafnbótina „alpabær ársins“. Listamannabærinn Rovinj tekur á móti okkur með sínum suðræna blæ en á leiðinni þangað verður komið við í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. Komið verður til Poreč, eins elsta bæjarins við Istríaströndina. Bærinn er einstaklega töfrandi en þar er m.a. að finna hina áhugaverðu Euphrasius basilíku frá 6. öld sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Á leiðinni til Poreč verður áð hjá Limski Kanal og einnig munum við fara til vínbónda í Pazin. Töfrandi er forna rómverska borgin Pula en hún er sú stærsta við Istríaskagann og tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Náttúrufegurðin gælir við okkur í Riva del Garda þar sem við m.a. siglum á Gardavatni til hinna dásamlegu ítölsku smábæja Limone og Malcesine. En inn á milli Alpafjallanna í Austurríki bíður okkar að lokum bærinn Kufstein sem oft er kallaður „perla Tíróls“. 

Verð á mann 239.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 53.300 kr.


Innifalið

 • 11 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir, kláfa og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Léttur hádegisverður í Pazin ca € 18.
 • Aðgangur inn í Euphrasius Basiliku ca € 10.
 • Sigling til Limone og Malcesine ca € 22.
 • Kláfur upp á Monte Baldo ca € 20.
 • Aðgangseyrir upp í Kufstein kastala ca € 13.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. apríl | Flug til München & Bad Reichenhall

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið um Alpana til Bad Reichenhall sem er yndislegur Alpabær með 850 ára sögu en hann var valinn „Alpabær ársins“ árið 2001. Bærinn er þekktastur sem heilsubær og gamall saltframleiðslu bær. Þar verður gist í eina nótt. Upplagt er að kanna bæinn fyrir kvöldverð.

26. apríl | Bad Reichenhall & Rovinj í Króatíu

Nú kveðjum við gamla saltbæinn eftir góðan morgunverð og rólegheit. Stefnan verður tekin á Króatíu en á leiðinni verður stoppað í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu og stærstu borg hennar, sem telst með grænustu höfuðborgum Evrópu. Þaðan verður ekin fögur leið um Istríaskagann suður til Rovinj í Króatíu en þar verður gist 4 nætur á góðu hóteli við ströndina, með inni- og útisundlaug, líkamsrækt, heilsulind og fallegum garði.

27. apríl | Gönguferð inn í Rovinj & frjáls tími

Umhverfið er dásamlegt og við njótum þess á skemmtilegri göngu með ströndinni inn í miðbæ Rovinj sem er litríkur bær og iðar af mannlífi. Upplagt er að ganga upp að barokkkirkju heilagrar Euphemiu en þaðan er glæsilegt útsýni yfir eyjarnar og gamla bæinn. Úti fyrir Rovinj eru 22 eyjar, stærst þeirra er eyjan Sveta Katharina og sést hún vel frá gamla bænum. Einnig munum við halda niður listamannagötuna og um elsta hluta bæjarins. Eftir hádegi getur hver og einn ráðstafað tíma sínum að vild og hvort heldur sem er að skoðað bæinn betur eða varið honum í slökun og huggulegheit á hótelinu.

Opna allt

28. apríl | Poreč & Pazin

Skemmtilegur dagur í Króatíu sem byrjar á því að aka fagra leið um Istríaskagann. Á leiðinni verður stoppað fyrir ofan Limski Canal en þar þrengir fjörðinn svo mjög að meir minnir á skurð. Bærinn Poreč, sem er einn sá elsti við ströndina, tekur á móti okkur í allri sinni dýrð. Yndislegur bær sem skartar marmaralögðum götum og fögrum byggingum. Þar er að finna áhugaverða Euphrasius–basilíku frá 6. öld sem fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Auðvelt er að finna skemmtilegar verslanir, til að mynda mikið af skartgripaverslunum. Eftir góðan tíma þar verður ekið til Pazin þar sem vínbóndi verður sóttur heim og borðaður hjá honum léttur hádegisverður. Þar verður sungið og trallað.

29. apríl | Dagur í Pula & frjáls tími

Pula er stærsta og elsta borgin á Istríaskaganum. Hún á sér viðburðaríka sögu en með því að fullkomna samspil rómverskrar menningar, fallegra baðstranda og nútíma ferðaþjónustu laðar bærinn til sín ferðamenn allsstaðar að úr heiminum. Frægust er borgin fyrir forna hringleikahúsið frá tímum rómverska heimsveldisins í Króatíu en borgina prýða einnig glæstar byggingar frá tímum Habsborgaraveldisins. Hér ætlum við að dvelja góða stund, skoða og fræðast ásamt því að njóta dásamlegs umhverfis við ströndina.

30. apríl | Rovinj & Riva del Garda við Gardavatnið

Nú kveðjum við þennan dásamlega bæ eftir góðan morgunverð og ökum til Riva del Garda við Gardavatnið sem er rómað fyrir fegurð. Á leið okkar þangað er áð góða stund í bænum Garda sem er líflegur og skemmtilegur bær við vatnið og þaðan þræðum við síðar litlu bæina við vatnið norður eftir til Riva del Garda þar sem gist verður í 3 nætur á góðu hóteli í miðbænum. Hótelið er með inni- og útisundlaug, heilsulind, sauna og gufubaði. Einnig er mjög fallegur garður þar sem hægt er að sitja úti og njóta fegurðar staðarins.

1. maí | Skoðunarferð & frjáls dagur í Riva del Garda

Dagur í rólegheitum en að loknum morgunverði förum við fótgangandi í smá skoðunarferð um litríka bæinn Riva del Garda sem er einn eftirsóttasti ferðamannabærinn við Gardavatnið. Að henni lokinni gefst hverjum og einum frjáls tími til að skoða sig um á eigin vegum í þessum snotra bæ. Ganga litlar og þröngar götur hans, kíkja við í verslunum og kanna fallegu strandlengjuna. Einnig er kjörið að njóta aðstöðunnar á hótelinu, annaðhvort í sundlaugargarðinum eða í heilsulindinni.

2. maí | Sigling til Limone, Malcesine & Riva del Garda

Lífið er dásemd, nú verður farið í töfrandi siglingu á Gardavatni og verður fyrst siglt til Limone, fallegs bæjar við vatnið. Þar njótum við þess að þræða litlar, þröngar götur og líta inn í fallegar verslanir. Síðan verður siglt til Malcesine, sem er mjög eftirsóttur ferðamannabær. Hér er upplagt að fara með kláf upp á Monte Baldo fjallið, hæsta fjallið við Gardavatn. Einnig er mjög áhugavert að skoða fallegan kastalann eða bara njóta náttúrufegurðarinnar og rölta um þennan dulúðlega bæ. Eftir það verður siglt til baka til Riva del Garda.

3. maí | Skómarkaður í Dro & Kufstein í Tíról í Austurríki

Eftir dýrðardaga í Riva del Garda verður byrjað á því að heimsækja Skómarkaðinn í Dro sem er norðan við bæinn Riva en síðan verður ekin fögur leið yfir Brennerskarð og yfir Evrópubrúna. Inn á milli Alpafjallanna, við grænu ána Inn, er bærinn Kufstein sem er oft kallaður „perla Tíróls“ og hefur bænum m.a. hlotnast sá heiður að saminn var um hann falleg ballaða, Das Kufsteiner-Lied eða Kufsteiner-ljóðið. Í Kufstein verður gist í 2 nætur.

4. maí | Dagur í Kufstein & frjáls tími

Kufstein er yndislegur bær með sínum miðaldakastala sem trónir yfir borginni. Í kastalanum má finna „hetjuorgelið“ sem hljómar í 13 km fjarlægð 2 sinnum á dag. Við förum í stutta gönguferð til að kanna umhverfið og förum síðan með lyftu upp í kastalann en þaðan er útsýnið yfir bæinn og nærliggjandi sveitir undurfagurt. Einnig er upplagt að gefa sér tíma til að fara á stutta orgeltónleika við rætur kastalans en daglega kl. 12.00 er spilað í minningu þeirra sem létust í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Eftir það er frjáls tími til að kanna bæinn á eigin vegum.

5. maí | Heimferð frá München

Nú er komið að heimferð eftir þessa glæsilegu ferð. Ekið verður út á flugvöllinn í München, brottför þaðan er kl. 14:05 og áætluð lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00