Maraþon í Frankfurt

23. - 26. október 2020 (4 dagar)

Ef þú átt þér þann draum að hlaupa vel undirbúið maraþon og reyna við þinn besta tíma eða hlaupa þitt fyrsta maraþon án þess að ganga hluta af leiðinni þá er þetta ferðin fyrir þig! Í samvinnu við afrekshlauparann og hlaupaþjálfarann Arnar Pétursson bjóðum við upp á ferð í Frankfurt maraþonið. Maraþonið fer fram þann 25. október 2020.

Hlaupabrautin er hröð, áhorfendurnir eru frábærir og endamarkið er ómótstæðilegt! Frankfurt maraþonið státar af einstakri umgjörð í endamarkinu. Hvort heldur sem hlaupari er að koma í mark eftir þrjár eða sex klukkustundir hleypur hann á rauðum dregli inn í viðburða- og menningarhöllina Festhalle Messe þar sem hverjum hlaupara er fagnað innilega. Lokametrarnir af öllum 42,195 kílómetrunum eru þó ekki eina ástæðan fyrir vinsældum Frankfurt maraþonsins. Hlaupaleiðin er bæði fjölbreytt og marflöt, það er rífandi stemming á meðal 500 þúsund áhorfenda og skipulagning hlaupsins er öll til fyrirmyndar. 

Arnar mun halda vel utan um hópinn og miðla af reynslu sinni og þekkingu – hvort heldur sem hlaupari er að huga að sínu fyrsta maraþoni eða stefnir á að bæta tímann sinn. 

Verð á mann í tvíbýli 149.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli  29.600 kr.

Þátttökugjald í hlaupið - 14.700 kr.

Með bókun í ferðina öðlast farþegar rétt á öruggri skráningu í Frankfurt maraþonið, athugið að þátttökugjaldið er ekki innifalið í pakkanum.

 
Innifalið í ferð

 • 4 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi á Hotel an der Messe.
 • Morgunverður á hóteli.
 • Íslenskur hópstjóri.
 • Fræðslukvöld með Arnari og ein hlaupaæfing í aðdraganda ferðar.
 • Undirbúningsfundur 2 vikum fyrir brottför.

Ekki innifalið

 • Forfalla- og ferðatryggingar.
 • Máltíðir aðrar en morgunverður.
 • Æfingaprógramm frá Arnari.

Innifalið í þátttökugjaldinu

 • Hlaupanúmer í Frankfurt maraþonið.
 • Tímaflaga.
 • Aðgangur að hlaupasýningu (expo).
 • Verðlaunapeningur í endamarkinu.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. október | Komudagur

Flug til Frankfurt kl. 7:25. Mæting í Leifsstöð a.m.k. 2 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 13:00 að staðartíma. Innritun á hótel. Hópstjóri ferðarinnar verður með hópferð á hlaupasýninguna til þess að sækja hlaupagögnin.

24. október | Pretzel-morgunverðarhlaup og „keppnisspjall“

Þennan dag gildir að setja ekki þreytu í fæturnar en það þýðir þó ekki að hlaupari eigi að eyða deginum með fætur upp í loft inni á hótelherbergi. Mörgum finnst gott að taka létt skokk degi fyrir maraþon með smá hraðabreytingum á maraþonhraða til að mýkja fætur og róa taugarnar, nóg til að vöðvaminnið hrökkvi í gang. Það er tilvalið að hefja daginn á að taka mesta spenningin úr fótunum og taka þátt í 5 km Pretzel-morgunverðarhlaupi á vegum Frankfurt maraþonsins. Hlaupið hefst kl. 10 fyrir framan Messe Frankfurt (Messe Vorplatz) og fá allir þátttakendur verðlaunapening og pretzel saltkringlu að hætti Frankfurtbúa.

Undir lok dags, áður en hlauparar hverfa til kvöldsnæðings og hvíla sig fyrir stóra daginn, mun Arnar safna hópnum saman og fara yfir morgundaginn á „keppnisfundi“. Þar mun hann miðla af reynslu sinni, svara spurningum og auðvitað vera hlaupurum til hvatningar.

25. október | Maraþondagurinn

Arnar hópstjóri fylgir þeim sem vilja tímanlega á rásmark en stuttur göngutúr er frá hótelinu á rásmark. Maraþonið hefst við Frierich-Ebert Anlage og er ræst í tveimur hollum. Hlaupaleiðin er hringur sem liggur báðum megin við ána Main. Fyrri helmingur leiðarinnar liggur um miðborgina, þaðan liggur hún um Sachsenhausen hverfið, í átt að íbúðahverfinu Höchst og til baka meðfram Mainzer Landstrasse, í gegnum miðborgina og endar svo að lokum á rauða dreglinum í viðburðar- og menningarhúsinu Messe Festehalle. Arnar verður á marksvæðinu og tekur á móti hlaupurum í marki eftir því sem hægt er. 

Að loknu maraþoni – sigri fagnað
Að loknu maraþoni er upplagt að hitta aðra íslenska hlaupara á einum af fjölmörgum börum borgarinnar og fagna áður en haldið er til baka á hótelið
Um kvöldið er gaman að fagna saman og fara yfir afrek dagsins í hóp hlaupara og stuðningsmanna. Hópstjóri Bændaferða á bókað borð á góðum veitingastað um kvöldið sem býður upp á ljúffengar steikur og eru allir ferðafélagar Bændaferða velkomnir með.

Opna allt

26. október | Heimferðardagur

Heimferð er kl. 13:05 og lending á Íslandi kl. 15:45 að staðartíma.

Hópstjóri - Arnar Pétursson

Frankfurt maraþonferð Bændaferða er án fararstjóra en hópstjóri ferðarinnar er Arnar Pétursson. Arnar er reynslumikill hlaupari og þjálfari auk þess sem hann bjó í Frankfurt og er þýskumælandi.

Hópstjóri ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem er innifalin í ferðapakka Bændaferða, þ.e. það sem snýr að maraþoninu og hótelinu. Arnar mun fylgja þeim sem vilja á maraþonsýninguna, á rásmark og taka á móti hlaupurum í marki. Hann verður til reiðu fyrir alla hlaupara á meðan á ferð stendur til þess að miðla af reynslu sinni og svara hlaupaspurningum.

Arnar mun halda fræðslukvöld fyrir hópinn um það leyti sem undirbúningur hefst eða um 12-16 vikum fyrir maraþonið. Haldin verður ein sameiginleg hlaupaæfing á höfuðborgarsvæðinu. Lagt verður upp með að halda nokkrar langar sameiginlegar hlaupaæfingar um helgar fyrir áhugasama.

Þeir sem hafa áhuga geta keypt einstaklingsmiðað æfingaprógramm af Arnari fyrir Frankfurt maraþonið á sérstökum kjörum. Arnar verður öllum þeim sem kaupa af honum æfingaprógramm innan handar allt ferlið.

Arnar hefur 30 sinnum orðið Íslandsmeistari í hlaupi og árið 2017 varð hann Íslandsmeistari í níu mismunandi hlaupagreinum. Arnar æfir hlaup sem atvinnumaður í dag og þjálfar auk þess fjölda hlaupara um land allt. Í nóvember 2019 kemur út bók eftir Arnar, Hlaupabókin, sem fjallar um allt sem viðkemur hlaupum og mun opna nýjan heim fyrir marga hlaupara.

Mainova Frankfurt maraþonið

Frankfurt maraþonið nýtur sífelldra vinsælda meðal annars vegna þess hversu flöt og hröð hlaupabrautin er. Maraþonið raðar sér á meðal þekktra maraþonhlaupa eins og London og Berlín hvað varðar hraða en hefur þó þann kost að hlaupið er ekki eins fjölmennt. Brautarmet Frankfurt maraþonsins var sett árið 2011 á tímanum 2:03:42 af Wilson Kipsang og kvennamet Meselech Melkamu er frá 2012 á tímanum 2:21:01. Frankfurt maraþonið er ekki síður ákjósanlegt maraþon fyrir áhugahlauparann þar sem það státar af meðal lokatími 3:57:56 en meðal lokatími í maraþonum er 4:28:56.
Hlaupaleiðin liggur eftir breiðum aðalgötum borgarinnar. Leiðin er mjög flöt og munar einungis um 27,8 m á milli lægsta og hæsta punkt leiðarinnar. Hlaupaleiðin liggur í gegnum miðborg Frankfurt og er stysta leiðin merkt með blárri línu á götunni. Kílómetraskilti eru á hverjum kílómetra, margar drykkjarstöðvar og á 5 km fresti eru klukkur sem sýna millitíma.

Frankfurt

Frankfurt er skemmtileg og lífleg borg sem hefur upp á margt að bjóða. Fyrir þá sem eru menningarlegir er hægt að mæla með skemmtilegri göngu um gamla hluta Frankfurt og skoða t.d. gömlu byggingarnar við Römerplatz. Það er líka frábær hugmynd að fara upp í Main Tower og fá þessa „Manhattan Evrópu“ beint í æð. Það er mjög gaman að fara í göngu að ánni Main, labba meðfram henni nú eða fara í siglingu og upplifa hvernig byggingarstíll borgarinnar hefur hægt og rólega verið að þróast síðustu áratugi. Í Frankfurt eru mörg áhugaverð söfn og má þar nefna Gyðingasafnið, peningasafnið, Göthe safnið og kvikmyndasafnið.

Myndir úr ferðinni

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00