Undurfagra Valencia & Alicante
9. - 20. september 2023 (12 dagar)
Í þessari fróðlegu og skemmtilegu ferð heimsækjum við glæsilegar og einstaklega áhugaverðar spænskar borgir, heimsborgina Madríd, hina undurfögru Valencia og sólríku virkis- og strandborgina Alicante. Við hefjum ferðina í höfuðborginni Madríd sem tekur á móti okkur með sínum trjáskreyttu breiðstrætum. Þetta er heimsborg sem hefur samt svo skemmtilegan þorpssjarma með snotrum, litlum kaffihúsum, menningarminjum og miðborgarkjarna. Á leið til Valencia verður komið við í fornu borginni Toledo sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin Valencia er ein fegursta borg Spánar, borg paellunnar, þekktasta rétt spænskrar matargerðar. Við förum í siglingu um náttúruþjóðgarðinn Albufera og skoðum klettabæinn Calpe við hina fögru Costa Blanca strönd. Farið verður í magnaða hellasiglingu í Saguntom San Josep hellinum þar sem við siglum á neðanjarðará og upplifum ævaforn hellamálverk í bland við dropasteina. Ekki má svo gleyma heimsóknum í fjallaþorpið Guadalest og í eitt af þekktustu vínhéruðum landsins. Í seinni hluta ferðarinnar njótum við fjölbreytileikans sem virkisborgin Alicante hefur upp á að bjóða, kynnumst merkri sögu borgarinnar og helstu kennileitum á borð við Santa Barbará kastalann og Santa Cruz hverfið. Farin verður dagsferð til borganna Cartagena og Elche þar sem við skoðum Elche Palm Grove eða pálmalundinn sem geymir yfir 200 þúsund pálmatré. Ljúf og viðburðarrík ferð þar sem fræðst verður um merka sögu svæðisins í bland við afslöppun að hætti Spánverja.