Aðventuhljómur í Heidelberg

Aðventan í Heidelberg er einstök. Það vantar svo sannarlega ekki jólastemninguna og ilmurinn af jólaglöggi og smákökum liggur í loftinu. Við fljúgum til Frankfurt og höldum þaðan til Heidelberg sem er ein af fallegustu borgum landsins. Borgin, sem stendur á bökkum árinnar Neckar, er ein elsta háskólaborg Þýskalands og ber miðbærinn þess merki með einstaklega áhugaverðum gömlum byggingum, sérlega fallegri dómkirkju og glæsilegu höllinni Heidelberg sem gnæfir tignarlega yfir borgina og er komin er á skrá UNESCO. Við förum í dagsferð til Strassborgar, höfuðborgar Alsace héraðsins í Frakklandi, sem er sérstaklega glæsileg á þessum tíma en þar verður farið í töfrandi siglingu á ánni Ill. Einnig verður dagsferð til Rüdesheim, yndislegs bæjar við ána Rín sem er á heimsminjaskrá UNESCO og þar upplifum við hinn svonefnda jólamarkað þjóðanna. Hér er mjög gaman að fara úr miðbænum með kláfi yfir vínhæðirnar að minnisvarða sem byggður var seint á 19. öld til minningar um fyrri sameiningu Þýskalands. Við munum líka eiga rólegan tíma í Heidelberg en ljósadýrðin þar er heillandi á þessum árstíma og finna má mjög skemmtilega aðventumarkaði á víð og dreif um alla borgina.

Verð á mann 168.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 46.600 kr.


Innifalið

 • 6 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hóteli.
 • Einn sameiginlegur kvöldverður, 29. nóvember.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar, vínsmökkun og kláfar.
 • Hádegisverðir.
 • Kvöldverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

 • Sigling til og frá Rüdesheim ca € 7. 
 • Sigling á ánni Ill í Strassburg ca € 16.
 • Lest inn í Strassburg ca € 8. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

27. nóvember | Flug til Frankfurt & Heidelberg

Brottför frá Keflavík kl. 07:25 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 3 klst. fyrir brottför. Lending í Frankfurt kl. 12:00 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Heidelberg þar sem gist verður í fimm nætur á góðu hóteli í miðbænum. Eftir að allir eru búnir að koma sér fyrir er upplagt að fara með fararstjóranum inn á aðaltorgið þar sem aðaljólamarkaður borgarinnar er og fá sér jafnvel jólaglögg og ristaðar möndlur.

28. nóvember | Aðventutöfrar í Heidelberg & frjáls tími

Við hefjum daginn á skemmtilegri göngu með fararstjóranum okkar um þessa dásamlegu borg sem er svo sannarlega ein af fallegustu borgum landsins. Borgin, sem stendur á bökkum árinnar Neckar, er ein elsta háskólaborg Þýskalands og ber miðbærinn þess merki með einstaklega áhugaverðum gömlum byggingum, sérlega fallegri dómkirkju og glæsilegu höllinni Heidelberg sem gnæfir tignarlega yfir borgina og er komin á skrá UNESCO. Hér er einstök aðventudýrð og mjög skemmtilegur jólamarkaður. Eftir að hafa skoðað nægju okkar af markverðustu stöðum borgarinnar gefst tími til að njóta alls þess sem hún hefur upp á að bjóða á eigin vegum. Litrík kaffi- og veitingahús eru um alla borg og er upplagt að njóta þess að setjast inn og fá sér hressingu. Einnig er hægt að líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru ófáir. Í kvöld verður sameiginlegur kvöldverður á veitingastað í nágrenni hótels okkar.

29. nóvember | Strassborg & sigling á ánni Ill

Strassborg í Frakklandi er höfuðborg Alsace héraðsins. Borgin er hrífandi á aðventunni og jóladýrðin er engri lík. Við byrjum á að fara í ljúfa siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina. Það er spennandi að skoða glæsibyggingar af ánni en einnig er siglt að byggingum Evrópuþingsins. Borgin býr yfir miklum sjarma sem við munum kynnast á göngu okkar um fallegar götur hennar. Við skoðum bindingsverkshúsin, kíkjum á dásamlegan jólamarkaðinn og skoðum stolt bæjarbúa, Müster-kirkjuna. Þar er varðveitt mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Einnig gefst hverjum og einum tækifæri á að upplifa borgina á eigin vegum og njóta aðventustemningarinnar. Þá er gaman að rölta um listamannahverfið, Petite France eða litla Frakkland.

Opna allt

30. nóvember | Jólastemning í Rüdesheim

Nú verður ekið til Bingen og þaðan tökum við ferju yfir til Rüdesheim sem er hinn sanni jólabær við Rín sem alltaf er yndislegt að heimsækja. Í hjarta borgarinnar er jólamarkaður þjóðanna en þar er hægt að versla fallegar gjafavörur og fylgjast með hvernig handverk frá hinum ýmsu þjóðum er unnið. Mikil jólastemning er um allan bæ og upplagt að ylja sér við jólaglögg og njóta lífsins. Einnig er mjög gaman að fara með kláfi yfir vínhæðirnar að minnisvarða sem byggður var seint á 19. öld til minningar um fyrri sameiningu Þýskalands. Eftir skemmtilegan dag verður siglt yfir til Bingen þar sem rútan bíður okkar og ekið aftur til Heidelberg.

1. desember | Frjáls dagur í Heidelberg

Nú er frjáls dagur í rólegheitum og upplagt að skoða borgina betur á eigin vegum og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru fjölmargir, upplifa aðventustemningu á jólamörkuðum borgarinnar og einnig væri hægt að fara upp í Heidelberg höllina.

2. desember | Heimflug frá Frankfurt

Nú kveðjum við Heidelberg eftir yndislega daga. Að morgunverði loknum verður lagt af stað út á flugvöll í Frankfurt og flogið heim kl. 13:05. Lending í Keflavík er kl. 15:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þórhallur Vilhjálmsson

Þórhallur Vilhjálmsson er fæddur í Reykjavík 1963. Hann nam markaðsfræði við háskólann í San Francisco og útskrifaðist þaðan árið 1990. Hann hefur starfað að markaðsmálum hjá ýmsum fyrirtækjum bæði hérlendis og í Bandaríkjunum m.a. sem forstöðumaður sölu- og framleiðsluáætlana hjá ISAL í Straumsvík, markaðsstjóri hjá Nýsi hf og markaðsstjóri Portus hf (sem byggði tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna í Reykjavík). 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00