Páskadraumur í Dubrovnik

31. mars – 12. apríl 2018 (13 dagar)

Austurlenskur blær, hefðir, minjar og náttúrufegurð hrífa okkur í glæsilegri ferð til Dubrovnik og Opatija í Króatíu við Adríahafið.

Við hefjum ferðina í Zürich en þaðan verður ekin fögur leið yfir svissnesku Alpana til Turate norðan við heimsborgina Mílanó á Ítalíu. Frá Ancona á Ítalíu verður siglt yfir til sögufrægu borgarinnar Split í Króatíu. Ekið verður til Dubrovnik, sem er ein aðal menningar- og listaborg Króatíu, en á leiðinni þangað verður komið við í Mostar í Bosníu Hersegóvínu og gamla brúin Stari Most skoðuð. Haldið verður í spennandi ferð yfir til Svartfjallalands, þar sem við siglum með ferju yfir Kotorflóann til gömlu borgarinnar Kotor, en elsti hluti hennar er á heimsminjaskrá UNESCO. Einnig verður ekið um Peljasač skagann í Króatíu og siglt yfir til eyjunnar Korcula. Við njótum góðra daga í yndislega bænum Opatija á Ístríaskaganum í Króatíu sem er sannkölluð perla Adríahafsins og drottning ferðaþjónustu í landinu. Við endum góða ferð með góðum hætti í tónlistarborginni Salzburg í Austurríki, en hún er ein fallegasta borg landsins.

*Vekjum athygli á breyttri dagsetningu ferðar frá því sem stendur í bæklingi og biðjumst við velvirðingar á því.

Verð á mann í tvíbýli 248.400 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 42.900 kr.

 
Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Sigling frá Ancona til Split með gistingu um borð.
 • Kvöld- og morgunverður á skipinu frá Ancona til Split.
 • Ferja yfir Kotorflóann til Kotor.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Siglingar og ferjur.
 • Vínsmökkun
 • Hádegisverðir
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Virkisveggir í Dubrovnik ca. € 14.
 • Sigling út á Korkula eyjuna ca. € 5.
 • Euphrasius Basilikan frá 6. öld ca. € 6

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

31. mars | Flug til Zürich & Turate á Ítalíu

Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og er mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekin fögur leið um svissnesku Alpana yfir til Ítalíu og gist 2 nætur við bæinn Turate, sem er norðan við Mílanó.

1. apríl | Dagur í Mílanó

Framundan er skemmtilegur dagur í heimsborginni Mílanó, en að loknum morgunverði ökum við til borgarinnar. Þar skoðum við það helsta sem hún hefur að geyma, s.s. eitt af meistaraverkum gotneskrar byggingarlistar, Dómkirkjuna, eitt elsta yfirbyggða verslunarhús í Evrópu og fjölmörg áhugaverð söfn. Með tilkomu Bramante frá Urbino og Leonardo da Vinci, sem skóp sín mestu listaverk í borginni á 15. öld, hófst blómaskeið Mílanólistar. Eftir skoðunarferð um borgina verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum, kanna betur áhugaverða staði eða líta inn hjá kaupmönnum borgarinnar.

2. apríl | Ancona & sigling á Adríahafi

Í dag höldum við ferð okkar áfram til Ancona við Adríahafið, höfuðborgar héraðsins Marche. Sögu hennar má rekja aftur til 5. aldar f. Kr. þegar Grikkir flúðu frá Sýrakúsa og settust hér að. Um kvöldið verður siglt frá Ancona til Split í Króatíu og tekur siglingin um 10 klukkustundir. Gist verður í tveggja manna klefum með sturtu og salerni. Kvöldverður mun bíða okkar um borð. 

Opna allt

3. apríl | Split, Dubrovnik & Mostar í Bosníu Hersegóvínu

Árla dags leggur skipið að landi í Split, hinni sögufrægu borg í Króatíu, sem telst með fegurri borgum landsins. Að loknum morgunverði á skipinu verður stefnan tekin á  Dubrovnik. Á leiðinni þangað verður komið við í Mostar í Bosníu Hersegóvínu þar sem við sjáum frægu brúna Stari Most. Í Bosníustríðinu árið 1993 var henni eytt með gríðalegum spengjuárásum, en árið 2004 var hún endurbyggð og er nú á heimsminjaskrá UNESCO sem tákn fyrir friðsamlega sambúð mismunandi þjóðflokka í Mostar. Við höldum ferð okkar áfram til Dubrovnik, perlu Króatíu, þar sem gist verður í 5 nætur á góðu hóteli við ströndina. 

4. apríl | Skoðunarferð um Dubrovnik

Dubrovnik er ein aðal menningar- og listaborg landsins. Við förum í skoðunarferð um þessa líflegu og sögufrægu borg sem hefur að geyma fjölmargar glæstar byggingar frá endurreisnar- og barokktímanum. Borgin iðar af mannlífi og hefur upp á margt skemmtilegt að bjóða. Gengið verður um gamla virkisveggi borgarinnar sem ná utan um elsta hluta hennar.

5. apríl | Svartfjallaland, Kotorflóinn & borgin Kotor

Spennandi dagur er nú fyrir höndum, en ekið verður yfir til Svartfjallalands að Kotor flóanum. Þar förum við með ferju yfir flóann á leið til gömlu Kotor borgarinnar, en elsti hluti borgarinnar er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar förum við í skemmtilega skoðunarferð, fræðumst um örlítið brot af 2000 ára sögu borgarinnar og upplifum menningu hennar og mannlíf. 

6. apríl | Frjáls dagur í Dubrovnik

Þennan dag gefst hverjum og einum tækifæri á að skoða borgina Dubrovnik upp á eigin spýtur, eða skipuleggja daginn með öðrum hætti. Upplagt er að taka strætisvagn inn í gamla bæinn, en einnig er að sjálfsögðu hægt að slaka á og njóta aðstöðunnar á hótelinu.

7. apríl | Peljesac skaginn & sigling yfir á Korcula eyju

Peljesac skaginn og eyjan Korcula eru á dagskrá okkar í dag. Ekið verður um skagann  sem er annar stærsti skagi landsins. Náttúran þar er sérlegt augnayndi og má þar sjá ólífu-, fíkju- og sítrónurækt, en þar er einnig að finna þekktustu vínhéruð landsins. Við siglum út í eyjuna Korcula sem er ein af perlum Adríahafsstrandarinnar. Skoðunarferð verður farin um bæinn Korcula sem er líflegur og áhugaverður miðaldabær. 

8. apríl | Ekið til Opatija í Króatíu

Í dag kveðjum við Dubrovnik eftir yndislega daga og ökum upp með Dalmatíu norður til Opatija í Króatíu sem þykir á margan hátt minna á borgina Nice á frönsku Rivierunni. Hér verður gist 2 nætur á hóteli í miðbænum. Hótelið er sögufræg bygging á góðum stað við aðalgötuna. Þar er að finna veitingastaði og innisundlaug með ylvolgum sjó.

9. apríl | Skoðunarferð um Opatija & frjáls tími

Eftir góðan morgunverð verður farið í fróðlega göngu um Opatija en bærinn er elsti ferðamannabær Króatíu. Þetta er yndislegur bær með glæstum byggingum frá tímum Habsborgara veldisins. Einnig státar bærinn af undur fallegum lystigörðum og töfrandi strandgötu. Að skoðunarferðinni lokinni er frjáls tími til að skoða sig betur um á eigin vegum og upplagt að líta inn á kaupmenn bæjarins.

10. apríl | Ekið til Salzburg í Austurríki

Opatija og Króatía verða núna lögð að baki og við ökum til Salzburg í Austurríki, þar sem gist verður síðustu 2 nætur ferðarinnar. Borgin hefur verið varðveitt á Heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997.  

11. apríl | Dagur í Salzburg

Hin undurfagra borg Salzburg er þekktust sem fæðingarborg Mozart, en jafnframt fyrir hrífandi byggingar í barokkstíl. Við hefjum daginn á skoðunarferð um borgina, lítum á Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar, en þar er að finna mjög áhugavert safn um Mozart. Á góðum degi er gaman að koma upp í kastalann Hohensalzburg, en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music tekin upp. Falleg sýn er þaðan yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring sem eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Fram að kvöldverði gefst tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum.

12. apríl | Heimferð

Nú er komið að heimferð eftir yndislega ferð og er stefnan er tekin á München að loknum morgunverði. Brottför með flugi kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 35 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig nýorðin sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir